Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Margir eru nú í óðaönn að snusa uppi fyrstu reykmerkin af næsta hruni. RÚV benti t.d. á það í vikunni að sala kampavíns, hinna gullnu veiga, væri meiri nú en árið 2007. Það eru tíðindi. En þau eru ekki endilega hættumerki þótt vissulega sé verðmiðinn á kampavíni nokkru hærri en á flestum öðrum víntegundum. Eflaust má leita margra skýringa á hinni auknu kampavínssölu. Uppgangur í efnahagskerfinu er þar ofarlega á blaði, þótt sumir fullyrði, þvert á allar staðreyndir, að aukinn kaupmáttur hafi aðeins hlotnast fáum útvöldum á síðustu árum. Annað er stóraukinn ferðamannastraumur. Hingað komu 485 þúsund ferðamenn allt árið 2007. Þeir eru orðnir tvöfalt fleiri nú þegar á yfirstandandi ári. En skýringarnar eru þó án efa fleiri.
Þannig hafa breyttar neysluvenjur einnig haft áhrif og aukin neysla léttvíns þokar fólki, með auknum kaupmætti, í átt að hinu dásamlega freyðandi víni.
En kannski ræður þarna mestu sú staðreynd að allnokkur veitingahús hafa á síðustu árum, í samstarfi við öfluga menn, tekið sig til og tekið að bjóða kampavín á viðráðanlegum kjörum. Í dag er hægt að fá þokkalegustu flösku á níu þúsund krónur þegar veitingamenn kepptust á árum áður við að verðleggja vöruna út af markaðnum á 15 til 20 þúsund krónur flöskuna.