Erlendir gestir Þau Judith Ingolfsson fiðluleikari og Vladimir Stoupel píanóleikari koma fram á þrennum tónleikum á Reykjavík Classics.
Erlendir gestir Þau Judith Ingolfsson fiðluleikari og Vladimir Stoupel píanóleikari koma fram á þrennum tónleikum á Reykjavík Classics. — Ljósmynd/Aðsend
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

„Mér finnst skipta máli að hafa fyrsta flokks listamenn, íslenska og erlenda,“ segir Nína Margrét Grímsdóttir, listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Reykjavík Classics, um val á listafólki fyrir tónleikaröðina. Reykjavík Classics hefst í dag og stendur til sjötta ágúst.

Listafólk á breiðu aldursbili

Yngsti flytjandi hátíðarinnar er Herdís Mjöll Guðmundsdóttir fiðluleikari, sem er rétt skriðin yfir tvítugt, en Nína segir að það komi vel út að blanda aldurshópum saman. „Það skiptir miklu máli að listamennirnir séu á breiðu aldursbili, að þarna séu ungir og upprennandi listamenn sem eru að stíga sín fyrstu skref og einnig afar reyndir listamenn. Það er náttúrlega aðalatriði að fólki líði vel saman við flutning kammertónlistar og því finnist ánægjulegt að endurskapa tónlist.“

Tónleikaröðin er nú haldin í þriðja skipti. Einhverjir flytjendanna hafa einnig komið fram undanfarin tvö ár og munu sömuleiðis flytja verk þetta árið. „Það er ákveðinn kjarni sem kemur að þessu en svo bætast einhverjir nýir við árlega. Til dæmis hafa Áshildur Haraldsdóttir, Sigurður Bjarki Gunnarsson, Baldvin Oddsson, Ari Vilhjálmsson og Svanur Vilbergsson komið fram á síðustu tveimur tónleikaröðum og koma einnig fram í ár.“

Metnaðarfull efnisskrá

Efnisskrá tónleikanna er ákveðin í samráði við flytjendur. „Það sem ég legg upp með er að efnisskráin sé metnaðarfull. Á henni eru bæði klassískar perlur og íslensk rómantík. Þetta árið leggjum við áherslu á íslensk tónverk og þau eru rauði þráðurinn í efnisskránni. Við tökum fyrir Sveinbjörn Sveinbjörnsson, Sigvalda Kaldalóns og Emil Thoroddsen, hina íslensku gullöld. Þeirra verk eru á margan hátt grunnurinn fyrir íslenska tónlist og það sem hún byggist á. Mér finnst afar skemmtilegt að kynna þessar perlur fyrir þeim sem koma á tónleikana.“

Þessar íslensku perlur sem um ræðir hafa ekki verið fluttar mikið í gegnum tíðina, að sögn Nínu. „Við munum fá að heyra fiðlu- og píanósónötu eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson auk Rómönsu og Reverie sem ég er ekki viss um að hafi nokkrun tíma heyrst hérlendis. Þessi íslensku verk eru almennt mjög sjaldan flutt á tónleikum svo það er í raun einstakur viðburður þegar þau eru flutt. Einnig verða flutt verk eins og Ave Maria eftir Sigvalda Kaldalóns sem Svanur Vilbergsson flytur í eigin útsetningu. Áshildur Haraldsdóttir hefur jafnframt útsett sönglög Emils Thoroddsen og mun flytja þau í eigin útsetningu, sem er mjög spennandi.“

Hver flutningur einstakur

Tónleikaröðin býður upp á sjö prógrömm sem standa almennt yfir í sex til sjö daga. „Bæði mér og Hörpunni fannst mikilvægt að það væri stöðugleiki í dagskránni, fyrir listamenn og áhorfendur. Það er ekki algengt að þetta sé gert í klassíska tónlistarheiminum, hvorki hérlendis né erlendis, en við sjáum gjarnan sama prógrammið keyrt dag eftir dag í leiksýningum og danssýningum. Það þarf að hafa í huga að hver tónlistarflutningur er endursköpun og því aldrei sá sami og áður. Flutningurinn er samtal við áheyrendur og áheyrendahópurinn breytist frá degi til dags svo hverjir tónleikar eru einstakir þó svo að verkin séu hin sömu. Þetta er líka mjög mikil áskorun fyrir flytjendur; að bregðast við nýjum áheyrendum á hverjum degi, þannig að það er líka skemmtilegur vinkill fyrir okkur sem flytjum tónlistina.“

Stjórnar og flytur tónverk

Nína Margrét er píanóleikari og mun ekki einungis stýra tónleikaröðinni heldur mun hún einnig flytja tónverk í fjórum af sjö prógrömmum Reykjavík Classics. „Þetta er mjög krefjandi og ég er í raun með tvo hatta. Góðu fréttirnar eru að ég er búin að gera þetta í mjög mörg ár, bæði hér og í New York, hef mikla reynslu og fólkið sem ég vinn með er oft vinir mínir til áratuga. Það er afskaplega ljúft að vinna með þeim á sviði líka og mér finnst mikil forréttindi að geta bæði verið að flytja og skipuleggja. Það felst ákveðin sköpun í því líka.“

Vinsælt á meðal ferðafólks

Nína segir aðsókn að tónleikunum vera að byggjast upp hægt og sígandi. „Það eru aðallega erlendir ferðamenn sem koma á tónleikana en líka eitthvað af Íslendingum. Ég hef verið ágætlega ánægð með aðsóknina en auðvitað vonum við að þetta vaxi og dafni og sem flestir sjái sér fært að mæta. Tónleikarnir eru tilvalið tækifæri til að heyra fyrsta flokks akústíska klassíska tónlist í Eldborginni en Sinfónían spilar ekki þar yfir sumartímann.“

Að mögulegt sé að nota Hörpu alla mánuði ársins segir Nína Margrét ekki sjálfsagt mál. „Ég veit til þess að sambærileg tónleikahús erlendis séu lokuð á sumrin. Það er gífurlega mikil synd svo ég vil undirstrika hvað það eru mikil forréttindi að fá að nota húsið okkar allan ársins hring í það sem það var byggt fyrir.“

Tónleikar Reykjavík Classics verða haldnir nánast daglega frá 21. júní til 6. ágúst.

Hálftíma hádegistónleikar

Tónleikarnir eru alltaf á sama tíma, þeir hefjast klukkan hálfeitt og standa til eitt. „Mér finnst skipta máli að tónleikarnir séu ekki langir og við lögðum upp með að hafa ekkert hlé. Þetta er svolítið óformlegra en klassískir tónleikar eru oft og fólk þarf ekki að setja sig í neinar sérstakar stellingar áður en það kemur, fara í spariföt eða neitt slíkt. Það er heldur ekki nauðsynlegt að kaupa miða fyrir fram.“

Fjölbreytt dagskrá

Listafólkið sem kemur fram á tónleikaröðinni í ár er eftirfarandi: Svanur Vilbergsson gítarleikari, trompetleikararnir Baldvin Oddsson og Jonah Levy, Nína Margrét Grímsdóttir píanóleikari, Ásta Kristín Pjetursdóttir víóluleikari, sellóleikarinn Caitriona Finnegan, Judith Ingolfsson fiðluleikari, Vladimir Stoupel píanóleikari, Ari Þór Vilhjálmsson fiðluleikari, Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari og Sigurður Bjarki Gunnarsson sellóleikari. Nánari upplýsingar um dagskrá tónleikaraðarinnar má finna á vefsíðu Hörpu, www.harpa.is.