Vignir Örn Guðmundsson
Vignir Örn Guðmundsson
Vignir Örn Guðmundsson, formaður IGI – samtaka leikjaframleiðenda, segir nýja námið hjá Keili mikilvægt skref í þá átt að auka framboð á menntun á sviði tölvuleikjagerðar.

Vignir Örn Guðmundsson, formaður IGI – samtaka leikjaframleiðenda, segir nýja námið hjá Keili mikilvægt skref í þá átt að auka framboð á menntun á sviði tölvuleikjagerðar. „Á háskólastigi hefur það einungis verið við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík að boðið hefur verið upp á námsleið þar sem nemendur geta sérhæft sig í þróun leikja og leikjavéla, en námið hjá Keili virðist það fyrsta sem leggur megináherslu á hönnunarþátt leikjagerðarinnar.“

Að sögn Vignis er mikil vöntun í íslenska leikjageiranum á fólki með rétta menntun og reynslu, rétt eins og í hugbúnaðargeiranum almennt, og jafnt stórir sem smáir leikjaframleiðendur hafa þurft að grípa til þess ráðs að leita að nýju starfsfólki utan landsteinanna. Hann segir ekkert útlit fyrir að úr þessum skorti dragi í fyrirsjáanlegri framtíð og brýnt að stuðla að því að sem flestir sæki sér menntun sem nýtist við gerð tölvuleikja. „Á heimsvísu hefur markaður tölvuleikja þegar tekið fram úr kvikmyndum og tónlist. Ef Ísland á að vera þátttakandi í þessari þróun þurfum við að stuðla að því að breiður hópur fólks geti sótt sér fjölbreytta þekkingu og menntun til að geta haslað sér völl á sviði tölvuleikjagerðar.“

Ein leið til að laga vanda íslenska tölvuleikjageirans væri að bjóða upp á tölvuleikjatengt nám á framhaldsskólastigi. „IGI og Keilir hafa um nokkuð langt skeið átt samtal við menntamálaráðuneytið um að greiða leiðina fyrir Keili að hefja kennslu á framhaldsskólastigi í leikjagerð og leikjahönnun og yrði það sannarlega mikilvægt framfaraskref.“