Eftirlit með vinnslunni Starfsmaður Norwood fylgist með sögunarferlinu.
Eftirlit með vinnslunni Starfsmaður Norwood fylgist með sögunarferlinu.
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Sögunarmylla Norwood í Syktyvkar er í 20 þúsund fermetra iðnaðarbyggingu sem reist var undir lok Sovéttímans á 9. áratugnum. Hún var byggð utan um verksmiðju sem framleiddi einingar í samsett hús.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Sögunarmylla Norwood í Syktyvkar er í 20 þúsund fermetra iðnaðarbyggingu sem reist var undir lok Sovéttímans á 9. áratugnum. Hún var byggð utan um verksmiðju sem framleiddi einingar í samsett hús. Þegar Norvik keypti húsnæðið var komið að ýmsum endurbótum. Meðal annars var þakið endurbyggt. Frá þakinu er ágætt útsýni yfir skóglendið umhverfis.

Norvik hóf umsvif í Komi-fylki um aldamótin og keypti þá gamla sögunarmyllu. Rúmum áratug síðar var keyptur nýr búnaður og þegar verksmiðjan var opnuð á ný árið 2012 stórjókst framleiðslugetan.

Alexander Vladimirovich Panyokov, framkvæmdastjóri Norwood í Syktyvkar, leiddi endurbyggingu verksmiðjunnar. Afkastagetan var um 15 þúsund rúmmetrar á ári árið 2011. Nýr búnaður var tekinn í notkun í nóvember 2012. Með honum og bættum aðferðum var afkastagetan sjöfölduð í rúmlega 100 þúsund rúmmetra.

Gætu farið í 125 þúsund

Panyokov segir hægt að auka framleiðsluna í 125 þúsund rúmmetra ef nægt hráefni fæst. Verksmiðjan yrði þá á þremur og hálfri vakt en tvær vaktir eru í sumar. Til marks um aukna framleiðslugetu hafi sögunarmyllan í Syktvykar áður afkastað 1.200 rúmmetrum af timbri til afhendingar á mánuði. Nú taki 3,5 daga að afgreiða sama magn.

Panyokov segir ný viðhorf að ryðja sér til rúms í rússnesku viðskiptalífi. Yngri kynslóðir séu opnar fyrir nýjum tækifærum í viðskiptum.

Það er mikil upplifun að heimsækja starfsfólk sögunarmyllunnar. Trjábolir eru sóttir í fjallháar timburstæður og er þeim svo raðað á færiband. Smám saman breytast þeir í sagaða planka sem eru gagnvarðir áður en þeim er komið fyrir á lestarvögnum.