Baksvið
Magnús Heimir Jónasson
mhj@mbl.is
Rúmlega 2.000 börn hafa verið tekin af foreldrum sínum við landamæri Bandaríkjanna (BNA) á síðustu sex vikum, samkvæmt heimavarnarráðuneyti landsins. Í apríl og maí voru að meðaltali 45 börn tekin af foreldrum sínum á dag eftir að Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, kynnti „núll umburðarlyndi“ stefnu sína í innflytjendamálum í apríl. Ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur þó sagt að um litla stefnubreytingu sé að ræða heldur sé verið að framfylgja gildandi lögum. Stefnunni hefur verið mótmælt víða um heim og hefur mótmælaganga verið boðuð við Austurvöll kl. 17 í dag. „Við lokum ekki börn í búrum,“ segir m.a. í yfirskrift göngunnar.
Mótmæli og fordæmingar gegn stefnu Bandaríkjamanna virðast hafa borið árangur því að Trump undirritaði í gærkvöldi tilskipun sem hann segir tryggja að fjölskyldum verði framvegis ekki stíað í sundur. Þó sagði hann við undirritunina að stefnunni um „núll umburðarlyndi“ skyldi haldið áfram.
Lagaleg flækja innflytjenda
Hundruð þúsunda innflytjenda frá Mið-Ameríkuríkjunum El Salvador, Gvatemala og Hondúras hafa sótt um hæli í Bandaríkjunum frá 2014, vegna gengjastríða og ofbeldis í heimalöndunum. Árið 2016 komst áfrýjunardómstóll í BNA (Flores gegn Lynch) að þeirri niðurstöðu að þó að börnum ólöglegra innflytjenda ætti að vera sleppt úr haldi við fyrsta tækifæri þýddi það ekki að foreldrum þeirra þyrfti einnig að vera sleppt. Í ræðu 7. júní sagði Sessions að Útlendingaeftirlit Bandaríkjanna gæti einungis haldið fjölskyldum saman í haldi í afar skamman tíma vegna niðurstöðu dómsins. Samkvæmt fréttastofu Reuteurs hafði ríkisstjórn Obama áður framfylgt dómsniðurstöðunni með því að sleppa mæðrum og börnum saman úr haldi eftir 21 dag, sem er lengsti tíminn sem halda má ólögráða innflytjendum. Heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, Kirstjen Nielsen, sagði á sunnudaginn að það væri ekki stefna yfirvalda að skilja börn frá foreldrum sínum. Stefnubreyting Sessions breytir því hins vegar að innflytjendur verða héðan í frá ákærðir fyrir brot á lögum með því að koma ólöglega inn í landið hvort sem þeir eru að sækja um hæli eður ei. Mál þeirra eru þar með í höndum dómsmálaráðneytisins en ekki heimavarnaráðuneytisins. Yfirvöld færa þannig innflytjendur í gæsluvarðhald og eru börn þeirra geymd í haldi á meðan reynt er að koma þeim fyrir hjá ættingjum eða hjá fósturforeldrum. Þessi stefna hefur fengið mikla gagnrýni enda virðist óhjákvæmilegt annað en að börn séu skilin frá foreldrum sínum til að framfylgja henni. „Sú hugsun að ríki sækist eftir því hindra foreldrum för með því að láta börn sæta svona illri meðferð er óforsvaranleg,“ sagði Zeid Raad al-Hussein, yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum, á mánudaginn.Dómsniðurstaðan í Flores gegn Lynch skyldar hins vegar með engum hætti yfirvöld til að skilja börn frá fjölskyldum sínum enda hefur ríkisstjórn Trumps hleypt um 100.000 innflytjendum úr haldi og inn í landið á sl. 15 mánuðum, þar af 37.500 fylgdarlausum börnum og um 61.000 fjölskyldumeðlimum, samkvæmt Washington Post. Bandaríkin hafa á síðustu tuttugu árum verið með innflytjendastefnu sem hefur fengið heitið „gripið og sleppt“ þar sem innflytjendum er sleppt úr haldi og hleypt inn í landið á meðan þeir bíða þess að mál sitt verði tekið fyrir í sérstökum dómstóli innflytjendamála. Samkvæmt New York Times mæta afar fáir innflytjendur fyrir dómstóla eftir að þeim er hleypt inn í landið. Þá er stefnubreyting Trumps í samræmi við kosningaloforð hans, en í lok ágúst 2016 tók hann fram að undir sinni stjórn bundinn endi á þessa stefnu og innflytjendum haldið þangað til þeir yrðu sendir aftur til heimalandsins.