Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur enn og aftur náð að gleðja landann með glæsilegri frammistöðu sinni gegn Argentínu á heimsmeistaramótinu, sem nú fer fram í Rússlandi.

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur enn og aftur náð að gleðja landann með glæsilegri frammistöðu sinni gegn Argentínu á heimsmeistaramótinu, sem nú fer fram í Rússlandi. Raunar hafði Víkverji spáð því að Íslendingar gætu strítt Argentínumönnum, og í „tippleik“ vinnustaðarins voru grunsamlega margir sem höfðu spáð nákvæmlega rétt um úrslitin.

Strákarnir okkar hafa sýnt að þeim eru allir vegir færir, svo lengi sem þeir vinna saman og halda uppi öguðum varnarleik. Samstaða og trú á verkefnið skipta ekki síður máli og liðið allt berst saman sem einn maður.

Landsliðið hefur hins vegar ekki fengið það hrós sem Víkverji telur það eiga skilið fyrir sóknarleik sinn. Andstæðingar liðsins einblína svo mjög á vörnina, að þeir átta sig ekki á því að þegar strákarnir okkar fá plássið fram á við geta þeir verið skæðir. Liðið hefur til dæmis skorað í öllum leikjum sínum á stórmóti til þessa, og geri aðrir betur!

Argentínumenn fengu til að mynda að finna fyrir því, en augljóst var af fagnaðarlátum þeirra, að þeir töldu sig með unninn leik um leið og Sergio Agüero náði að hamra hann stórglæsilega upp í hornið. Annað kom hins vegar á daginn, enda náðu Íslendingar góðum takti í sókninni, og hefðu jafnvel getað skorað fleiri.

Nígeríumenn eru síðan næstir á dagskrá, en sá leikur gæti farið langt með að skera úr um það hvort Ísland eigi möguleika á að komast upp úr riðlinum.

Dagurinn í dag mun ekki síður skipta máli hvað það varðar, en í kvöld mætast Argentínumenn og Króatar, og úrslitin í þeim leik geta haft umtalsverða þýðingu upp á framhaldið. Örlög Íslands eru hins vegar alltaf í okkar höndum. Áfram Ísland!