Kristín Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík 1. desember 1932. Hún andaðist 9. júní 2018 á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð í Reykjavík.
Kristín ólst upp í Skerjafirði og bjó þar til ársins 1954. Foreldrar hennar voru Magnús Guðmundsson, sjómaður og bóndi, f. 20.9. 1870 í Lambadal í Dýrafirði, en bjó lengst af á Dvergasteini í Álftafirði við Súðavík, d. 27.5. 1960, og Ingveldur Jóhannsdóttir, f. 4.10. 1891 á Efri-Arnarstöðum í Helgafellssveit, húsmóðir í Reykjavik, d. 3.10. 1986.
Alsystir Kristínar er Fjóla Kristrún Magnúsdóttir, f. 1934. Systur Kristínar sammæðra voru þær Guðfinna Guðnadóttir, f. 1920, d. 2013, og Theódóra Guðnadóttir, f. 1921, f. 2010. Samfeðra voru systkini hennar Rögnvaldína Hjaltlína Kristín Magnúsdóttir, f. 1900, f. 1924, Guðmunda Guðfinna Magnúsdóttir, f. 1902, f. 1974, Jón Valgeir Magnússon, f. 1905, d. 1951, og Auðunn Magnússon, f. 1908, d. 1998.
Kristín var tvígift. Fyrri maður hennar var Russell Mac Arthur, f. 1922, d. 1988. Þau skildu. Dætur þeirra eru: 1) Inga Barbara Arthur, f. 14.8. 1955, maki Gunnar Rúnar Oddgeirsson, f. 4.11. 1954. Börn þeirra eru: a) Diðrik Örn, f. 30.7. 1978. b) Andri Rúnar, f. 7.7. 1987. c) Viktoría Lind, f. 9.8. 1996. Barnabörn Ingu og Gunnars eru Ísak Leó Diðriksson, f. 17.5. 2001, Emilía Diðriksdóttir, f. 15.6. 2007, Alexander Rúnar Andrason, f. 1.9. 2010, og Ísabella Lena Andradóttir, f. 19.10. 2015. 2) Linda Lou Arthur, f. 28.10. 1956, maki Stefán Stefánsson, f. 27.8. 1953. Börn þeirra eru a) Kristinn Arnar, f. 10.2. 1974, d. 8.3. 2016. b) Telma Lind, f. 28.3. 1977. Barnabörn Lindu og Stefáns eru Nói Stefán Þorsteinsson, f. 16.9. 2014, og Sigurður Arnar Kristinsson, f. 28.2. 2016.
Seinni maður Kristínar var Ingólfur Eggertsson, f. í Reykjavík 16.11. 1929, d. 9.5. 2001. Foreldrar hans voru Eggert Bjarnason, vélstjóri, f. 6. ágúst 1887 að Björgum á Skagaströnd í Austur-Húnavatnssýslu, d. 2. október 1966, og kona hans Ólafía Þóra Jónsdóttir, f. 21. október 1892 í Reykjavík, d. 9. október 1955. Sonur Kristínar og Ingólfs er Eggert Magnús, f. 5.12. 1970, maki Margrét Þuríður Sverrisdóttir, f. 27.12. 1973. Börn Eggerts eru Hildur Högna, f. 25.9. 2002, og Sunneva Sól, f. 9.10. 2004.
Útför Kristínar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 21. júní 2018, klukkan 15.
Kynni okkar Kristínar, eða Stínu eins og hún var yfirleitt kölluð, hófust 1972 þegar ég kynntist Lindu, dóttur hennar. Ég var ekki nema nítján ára en hún tók mér opnum örmum og mér leið strax eins og ég væri hluti af fjölskyldunni.
Eggert, sonur þeirra, var þá tveggja ára og hann átti síðar eftir að verða góður vinur barna okkar Lindu, Kristins Arnars og Telmu Lindar.
Stína og Ingólfur Eggertsson eiginmaður hennar bjuggu í Breiðholti eins og við og samgangur var mikill. Þeim þótti vænt um landið og náttúruna og nýttu hvert tækifæri til að ferðast, keyrðu þá um landið á Lada Sport-jeppanum sínum með tjaldvagn eða hjólhýsi í eftirdragi. Börn okkar ferðuðust oft með þeim og nutu stundanna með ömmu og afa.
Veiði var ástríða hjá Stínu og Ingólfi og sjaldan komu þau fisklaus heim. Eggert og Kristinn Arnar lærðu ungir að bera sig að við veiðina, veiðiáhugi þeirra kviknaði í þessum ferðum og fylgdi þeim til fullorðinsára.
Ein veiðiferðin var sérstaklega eftirminnileg. Vor eitt í Norðurá í Munaðarnesi óðu bæði Stína og Ingólfur yfir ána, full eftirvæntingar fyrir komandi veiði. Stína klifraði upp í hlíð og skyggndi ána á meðan Ingólfur renndi í. Skyndilega beit fiskur á og hann var stór. Stína varð spennt en gáði ekki að sér, féll við og fótbrotnaði. Þá voru góð ráð dýr, Ingólfur stóð úti í ánni með stöngina á meðan Stína lá kvalin á bakkanum. Hringt var á sjúkrabíl og þegar sjúkraflutningamennirnir komu óðu þeir yfir ána til hennar. Þeir treystu sér hins vegar ekki til að vaða ána til baka með Stínu í börunum svo hringt var á þyrlu sem kom og flutti hana yfir bakkann að sjúkrabílnum. Í öllum hamaganginum tókst Ingólfi einhvern veginn að landa laxinum. Fiskurinn var ekki vigtaður uppi í veiðihúsi að þessu sinni en seinna frétti hann að þetta hefði verið stærsti fluguveiðifiskur sumarsins og að hann ætti inni verðlaun. Laxinn tók víst rauðan Francis.
Stína var alltaf andlega sterk og sá ýmislegt sem okkur hinum var hulið, hún las í bolla, spáði í spil og var berdreymin. Hún var næm á lífið og fólkið í kring. Stína var vel liðin af öllum sem kynntust henni. Hún vann lengi hjá búningadeild Sjónvarpsins og í mötuneytinu hjá Reykjavíkurhöfn og var vinmörg og vinsæl enda einstök kona.
Stína hafði yndi af ferðalögum og að heimsækja nýja staði og fórum við í margar eftirminnilegar ferðir saman. Stendur þar upp úr ferð okkar til Miami til að vera við útskrift Telmu Lindar. Fórum við þá líka í siglingu til Bahamaeyja og þar naut hún sín vel, á siglingu undir hlýrri sólinni.
Ingólfur lést árið 2001 eftir erfið veikindi. Heilsu hans fór að hraka um svipað og leyti og Stína hætti að vinna. Hún saknaði hans sárt, þau höfðu hlakkað til að ferðast saman nú þegar meiri tími gæfist til þess. Stína bjó síðustu árin á hjúkrunarheimilinu Seljahlíð, þar sem hún bjó sér hlýlegt heimili. Þar leið henni vel.
Að lokum vil ég kveðja þig með þessum orðum, elsku Stína mín. Margs er að minnast og mikils að sakna.
Stefán Stefánsson.
Bless, elsku amma.
Verndarengill
Lítill engill á öxlinni
Lítur yfir
Og gætir þín
Engin hætta
Bara trúa
Trúðu á mig
Ég vaki
Vertu sterk
Haltu áfram
Ekki gefast upp
Þú kemur aftur
Sterkari en áður
(Rannveig Iðunn)
Telma Lind Stefánsdóttir.
Minnisstæð eru einnig notalegu stundirnar sem við áttum saman er ég var lítill strákur að gista hjá ömmu. Amma var ávallt búin að útbúa uppáhaldið mitt sem var kakósúpan góða með bruðlum. Einnig sátum við oft klukkustundum saman við eldhúsborðið og amma lagði hvern kapalinn eftir annan og ég perlaði hvert perlulistaverkið eftir annað með hjálp hennar.
Það var alltaf ævintýri að fara með ömmu Stínu í sumarbústaðinn þegar ég var lítil og þar leið henni vel. Margar veiðiferðirnar fórum við í og nutum þess að veiða í kyrrðinni enda var veiði í miklu dálæti hjá henni ömmu. Svo var spilað fram á kvöld er heim var komið í bústaðinn. Amma naut sín mjög úti í náttúrunni og er ég mjög þakklát fyrir stundirnar sem ég átti með henni þar.
Munum við alltaf hugsa hlýlega til hennar ömmu Stínu okkar og munu langömmubörnin hennar, sem voru við hlið hennar þegar hún kvaddi þennan heim, fá að vita að þau áttu mjög ástríka og hlýlega langömmu. Erum við systkinin mjög þakklát fyrir allar stundirnar sem við áttum saman með ömmu Stínu og munu þær minningar lifa áfram í hjörtum okkar.
Þeir segja mig látna, ég lifi samt
og í ljósinu fæ ég að dafna.
Því ljósi var úthlutað öllum jafnt
og engum bar þar að hafna.
Frá litlu hjarta berst lítil rós,
því lífið ég þurfti að kveðja.
Í sorg og í gleði ég senda mun ljós,
sem mun ykkur gleðja.
(Höf. óþ.)
Andri Rúnar og
Viktoría Lind.