Jóhann Eyfells fæddist í Reykjavík á lengsta degi ársins, 21.6. 1923, og ólst upp í Þingholtunum, á Skólavörðustíg 4b: „Pabbi var listmálari og fylgdi köllun listarinnar þótt allar aðstæður til þess væru honum óhagstæðar í uppvexti. Ég fylgdi í fótspor hans þótt mamma reyndi eftir megni að beina athygli minni og áhuga inn á „praktískari“ brautir. En listagyðjan réð ferð okkar feðga og eftir að ég lauk námi í arkitektúr sneri ég mér alfarið að myndlistinni og þar liggur ævistarfið.“
Á sumrum var Jóhann í sveit á ýmsum bæjum, þ.ám. Reykholti í Borgarfirði hjá afa sínum og ömmu. Jóhann var mjög vel á sig kominn líkamlega og stundaði keppnisíþróttir af kappi. Hann varð Íslandsmeistari í boxi, vitnar oft í þjálfarann sinn, Steina box, eða Þorstein Gíslason málarameistara, og þakkar honum leiðsögn sem Jóhann segist hafa búið að alla ævi.
Jóhann fór til náms í arkitektúr og myndlist í Kaliforníuháskólanum í Berkley árið 1944 og stundaði einnig nám við Lista- og handíðaskóla Kaliforníu í Oakland.
Í Kaliforníu kynntist Jóhann Kristínu Halldórsdóttur en það varð ást við fyrstu sýn. Hún rak þá glæsilega kjólaverslun í Reykjavík, Fix, og var að nema kjólahönnun. Hún gerðist einnig listamaður og voru þau alla tíð mjög samrýnd. Jóhann vill að talað sé um þau í sterku samhengi þótt verk þeirra séu gjörólík.
Árið 1953 tók Jóhann B.Arch-próf frá Flórídaháskóla í Gainsville í arkitektúr og 1964 tók hann MFA-próf í skúlptúr frá sama skóla.
Á seinni hluta sjöunda áratugarins vann Jóhann að listsköpun sinni á Íslandi og kenndi einnig við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík. Þar starfaði hann m.a. með Braga Ásgeirssyni og var þeim vel til vina alla tíð eftir það. Jóhann og Kristín voru mjög áberandi og framsækin í listalífinu í Reykjavík á seinni helmingi sjöunda áratugarins og tóku þátt í fjölda sýninga á verkum á Skólavörðuholti.
Árið 1969 varð Jóhann prófessor við Flórídaháskólann í Orlando og starfaði þar til 1999.
Jóhann hefur haldið fjölda einkasýninga víða um heim, m.a. stóra og glæsilega sýningu hjá Listasafni Íslands 1992. Einnig tók hann þátt í fjölda samsýninga og tóku þau hjónin bæði þátt í sýningunni 10 gestir sem haldin var á Kjarvalsstöðum á Listahátíð 1984. Jóhann var fulltrúi Íslands ásamt Hreini Friðfinnssyni á Feneyjatvíæringnum árið 1993.
Kristín lést árið 2002 og í kjölfarið lagði Jóhann allt kapp á að halda nafni hennar á lofti. Hann lét steypa fjölmarga af skúlptúrum hennar í brons og það í mörgum eintökum. Jóhann flutti frá Orlando til Texas árið 2004 og keypti þá búgarð í Texas, óséðan. Mörg verka Jóhanns eru engin smásmíði svo þessi flutningur var stórátak þar sem kalla þurfti til fjölmarga stóra flutningabíla. Það vakti athygli að maður á hans aldri færi út í slíkar stórframkvæmdir og Þór Elís Pálsson kvikmyndagerðarmaður fylgdist með með flutningunum og gerði heimildamynd um þá (Only a Birth). Myndin var sýnd á RÚV og vakti verulega athygli á sínum tíma.
Í Texas hefur Jóhann unnið sleitulaust að listsköpun sinni hvern einasta dag. Eljan og sköpunarkrafturinn hafa vakið athygli og kvikmyndagerðarmaðurinn Hayden Yates hefur fylgst með honum í tólf ár og fullgert heimildamynd um Jóhann og hans starf. Myndin, sem heitir „A Force in Nature“, hefur verið sýnd á kvikmyndahátíðum víða um heim og er margverðlaunuð. Hún var sýnd á RIFF sl. haust og var vel tekið.
Reykjavíkurborg keypti nú nýverið Íslandsvörðuna, sem er steypt úr bronsi og stendur við Sæbraut.
Jóhann er enn á fullu, sérhvern dag, að skapa nýstárlega skúlptúra, enda segir hann sjálfur: „Nú er ég að gera mín bestu verk.“
Fjölskylda
Eiginkona Jóhanns var Kristín Halldórsdóttir Eyfells, f. 17.9. 1917, d. 20.7. 2002, kaupmaður og myndlistarmaður. Foreldrar hennar voru Halldór Kristinsson, f. 1889, d. 1968, héraðslæknir á Siglufirði, og k.h., María Jenní Jónasdóttir, f. 1895, d. 1979, húsfreyja.Barnsmóðir Jóhanns er Auður Halldórsdóttir, f. 5.11. 1927, kennari og kaupmaður, dóttir Halldórs Sigurðssonar, f. 1893, d. 1981, beykis í Reykjavík, og Kristólínu Þorleifsdóttur, f, 1898, d. 1962, húsfreyju.
Sonur Jóhanns og Auðar er Ingólfur Eyfells, f. 4.1. 1945, verkfræðingur, en kona bans er Hrafnhildur Guðmundsdóttir Eyfells söngkona og eru börn þeirra Guðmundur Eyfells, f. 1973, Jóhann Eyfells, f. 1981, og Eyjólfur Eyfells, f. 1983.
Systkini Jóhanns: Einar Eyfells, f. 12.1. 1922, d. 7.9. 1994, verkfræðingur í Reykjavík; Kristín Eyfells, f. 7.0. 1925, d. 5.5. 1984, kennari í Reykjavík; Elín Eyfells, f. 16.11. 1926, húsfreyja í Reykjavík.
Foreldrar Jóhanns voru Eyjólfur J. Eyfells, f. 6.6. 1886, d. 3.8. 1979, listmálari í Reykjavík, og Ingibjörg Eyfells, f. 4.12. 1895, d. 24.2. 1977, handavinnukennari, kaupmaður og húsfreyja í Reykjavík.