Leikjageirinn er risastór atvinnugrein og alls staðar virðist vanta fólk. Gestir á sýningu í Lille skoða sýndarveruleika.
Leikjageirinn er risastór atvinnugrein og alls staðar virðist vanta fólk. Gestir á sýningu í Lille skoða sýndarveruleika. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Í nýju BSc-námi i tölvuleikjagerð þurfa nemendur ekki að læra forritun, en eru aftur á móti þjálfaðir í skapandi hugsun.

Hjálmar Árnason segir viðtökurnar undanfarna daga sýna að greinileg eftirspurn hafi verið eftir nýrri námsbraut í tölvuleikjagerð á háskólastigi. Keilir greindi frá því fyrr í mánuðinum að frá og með næsta hausti myndi skólinn bjóða upp á eins árs diplómanám og þriggja ára BSc-nám í tölvuleikjagerð (www.tolvuleikjagerd.is) í samvinnu við norska skólann Noroff.

„Þörfin eftir fólki með þessa menntun er svo mikil að atvinnulífið hreinlega æpir á það, og við höfum fengið afdráttarlausan stuðning og hvatningu frá Samtökum leikjaframleiðenda og Samtökum iðnaðarins svo einhverjir séu nefndir,“ segir Hjálmar, framkvæmdastjóri Keilis.

Noroff er rúmlega tíu ára gamall skóli sem hefur verið í örum vexti. „Um er að ræða einkaskóla sem starfar ekki ósvipað og Keilir, en auk þess að bjóða upp á háskólanám er Noroff einnig með námsbrautir á framhaldsskólastigi,“ útskýrir Hjálmar.

„Um er að ræða sveigjanlegt fjarnám á ensku með staðarlotum hjá Keili og er kennslan nær alfarið í höndum Noroff. Sérstakur ráðgjafi hjá Keili verður nemendum til halds og trausts en að auki verða sérfræðingar Noroff til taks á netinu til að svara fyrirspurnum af öllum toga og aðstoða nemendur við að leysa þau verkefni sem þeim eru sett fyrir,“ segir Hjálmar og bætir við að LÍN veiti lán bæði fyrir skólagjöldum og framfærslu. „Við náðum hagstæðum samningi við Noroff og er námið um 100.000 kr. ódýrara á hverja önn fyrir nemendur sem skrá sig í gegnum Keili en fyrir þá sem skrá sig beint hjá Noroff. Veturinn kostar rösklega 800.000 kr. en hefði annars kostað liðlega milljón, og aukinheldur spara nemendur sér að þurfa að ferðast alla leið til Noregs til að taka þátt í staðarlotunum.“

Vilja verða miðstöð fyrir leikjageirann

Nýja námsbrautin hefur haft nokkuð langan aðdraganda. Hjálmar segir að fyrir fimm árum hafi Keilir hafið vinnu við að bjóða upp á nám í leikjagerð á framhaldsskólastigi með það fyrir augum að gera Keili að miðstöð fyrir tölvuleikjageirann. „Við sækjum innblástur til Game Park Denmark, sem finna má skammt fyrir utan Árósa. Þar er m.a. starfræktur eini menntaskólinn í Danmörku sem býður upp á leikjagerð sem sérhæfingu og einnig rekið frumkvöðlasetur fyrir hópa og einstaklinga sem eru að fást við að smíða tölvuleiki. Við höfum rekið okkur á að þrátt fyrir áhuga og velvild bæði ráðherra og atvinnulífs hefur kerfið verið mjög seinvirkt og ekki enn gert okkur fært að gera framhaldsskólanámið að veruleika. Aftur á móti tók ekki nema hálft ár að ganga frá samstarfinu við Noroff um nám á háskólastigi,“ segir Hjálmar. „Núverandi menntamálaráðherra og aðstoðarmaður hennar hafa tekið vel í hugmyndina um framhaldsskólanámið og vonandi fer að komast hreyfing á málin.“

Þurfa ekki að kunna að kóða

Það kann að koma sumum lesendum á óvart að í nýja tölvuleikjanáminu þurfa nemendur ekki að læra forritun. Þess í stað læra þeir að nota hin ýmsu verkfæri sem tölvuleikjageirinn reiðir sig á í dag og hægt er að nota án mikillar þekkingar á tölvukóða eða stærðfræði. „Við höfum rætt við málsmetandi fólk í íslenska tölvuleikjageiranum og það tekur undir það að forritunarkunnátta er ekki lengur nauðsynleg til að gera leiki. Í dag reiðir tölvuleikjagerð sig á tiltekin forrit sem eru frekar aðgengileg en hægt að nota til að smíða flókna leikjaheima,“ segir Hjálmar. „Aftur á móti er rík áhersla lögð á námskeið sem þjálfa skapandi hugsun og ýta undir að nemendur hugsi út fyrir rammann, og teljum við að nýja námsbrautin sé að veita nemendum góða undirbúning fyrir þær breytingar sem verða á vinnumarkaðinum með fjórðu iðnbyltingunni.“