Nú um áramótin hækkaði persónuafsláttur um 988 krónur á mánuði eða 11.856 krónur á ári, það er ráðstöfunar tekjur allra hvort sem er há- eða lágtekjufólk. Auk þess voru tekjumörk hærra skattaþreps hækkuð úr 834.707 krónum á mánuði í 893.713. Séu áhrif þessara breytinga á ráðstöfunartekjur einstakra hópa skoðuð kemur eftirfarandi í ljós, sjá töflu. (Ráðstöfunartekjur eru fengnar með lækkun tekna annars vegar um 4% vegna lífeyrisiðgjalds og reiknuðum skatti þegar búið er að taka tillit til heimildar frádráttar frá tekjum af nefndu iðgjaldi.)
Niðurstaða er sú að ráðstöfunartekjur á mánuði í lægsta hópnum hækka um 988 krónur eða 11.856 á ári. Í miðhópnum er mánaðarleg hækkun 6.575 og árleg 75.900 og í efsta hópnum 6.425 á mánuði og 77.100 á ári. Þessi útkoma ræðst af lögum um með hvaða hætti eigi breyta eigi, annars vegar persónuafslætti (með hliðsjón af neyzluvísitölu) og hins vegar breytingu á skattþrepi með hliðsjón af launahækkunum
Þessi hækkanir eru taldar vitni um að ráðist sé á garðinn þar sem hann er lægstur þegar kemur að skattheimtu (lækkun í umræddu tilviki) hins opinbera.
Líta má á þessi mál með ýmsum hætti. Gefum okkur til dæmis að þjóðin samanstandi af þremur einstaklingum og tekjuskiptingin sé sú sem að framan greinir. Þá kemur ljós að heildartekjur samfélagsins á mánuði eru 2.850.000 og skattar 905.903. Þessum skatttekjum er svo varið til samfélagslegra verkefna og sé ekki farið í manngreinarálit við útdeilinguna, þá kæmu opinber gæði að upphæð 301.991 í hlut hvers. Þannig að í þessu dæmi fær tekjulægsti hópurinn úr sameiginlegum sjóðum meira en svokölluðum ráðstöfunartekjum sínum nemur og að mestu frá þeim tekjuhæstu.
Ef við gefum okkur að tekjuskiptingin sé 20% með 350.000, 60% með 1.000.000 og 20% með 1.500.000 þá yrðu skatttekjur á einstakling og útdeild sameiginleg gæði á einstakling 303.951.
Spurningin um sanngirni í skattheimtu er og verður alltaf álitamál þar sem sitt sýnist hverjum og allir fræðilegir mælikvarðar torsóttir til leiðsagnar, svo sem skattlagning í ljósi lækkandi jarðarnytja eftir því sem tekjur hækka.
Sé litið á ofangreint dæmi þar sem milljón króna einstaklingurinn í núverandi kerfi greiðir um 307 þúsund krónur á mánuð og sá með eina og hálfa milljóna um 528 þúsund krónur á mánuði í skatta má spyrja hvort nefndar upphæðir séu ekki yfrið nógar? Það er álitamál og ekkert óyggjandi svar sem á hönd á er festandi.
Í framhaldi ofangreindra vangaveltna get ég ekki setið á strák mínum og spurt góða fólkið, sem ber öðrum fremur hag litla fólks fyrir brjósti og þiggur þar að auki laun sín fyrir, af hverju það sjái ekki til þess að laun þeirra lægst launuðu hækki næstu árin en þeir betur settu fái enga hækkun segjum næstu fimm árin.
Við kjarasamninga hefur um langa hríð verið sunginn sá söngur að bæta eigi hlutfallslega laun þeirra verst settu en útkoman oftlega verið snautleg og hækkanir til þeirra lægst settu hríslast upp á við til þeirra sem hærri hafa tekjurnar og stundum gott betur. Það er kominn tími til þess að forystan í samtökum launþega segi án nokkurra undantekninga að nú skuli semja um laun þeirra sem lægri hafa launin en þeir sem betur eru settir fái ekkert næstu fimm árin. Skurðpunkturinn gæti verið um 893.713 mánaðarlaun, sem eru hæstu laun í lægra skattþrepi, skattaprósenta 36,94% og persónuafsláttur 53.895. þ.e. frítekjumark krónur 145.899. Hver yrði hækkunarprósentan upp eftir skalanum yrði samkomulagsatriði milli launþegasamtakanna og atvinnurekenda. Vilji forkólfar launþega ekki beita sér fyrir slíku samkomulagi er það vísbending um að þeir ganga erinda annarra en lægra launuðu umbjóðenda sinna og ættu að fá reisupassann. Hættum öllum þykjustuleik, förum úr sandkassanum yfir í raunveruleika þeirra sem komnir eru af blautu barnsbeini.
Höfundur er cand. oecon.