„Nú þegar HM stendur yfir og Íslendingum gengur vel er áhugi á knattspyrnu. Langt fram á kvöld er líf og fjör á fótbolta- og sparkvöllum hér í bænum og krakkarnir að deyja úr spenningi,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ.
Fyrir nokkrum dögum var endurbættur knattspyrnuvöllur í Ólafsvík tekinn í notkun. Þetta er keppnisvöllur í löglegri stærð, 105 metrar x 68 metrar, með gervigrasi, öflugri lýsingu, vökvunarkerfi og áhorfendastúkum fyrir 550 manns. Samanlagt leggur Snæfellsbær 165 milljónir kr. í þetta verkefni sem verktakar úr Snæfellsbæ höfðu að stærstum hluta með höndum en fyrirtækið Metratron sá um að leggja grasið. „Nú erum við komin með fína aðstöðu sem nýtist fyrir fótboltann væntanlega frá því í apríl og fram í nóvember. Og þetta er fyrir alla, hingað til hafa aðeins meistaraflokkar karla og kvenna mátt vera á aðalvellinum sem nú er sem nýr. Allt hefur þetta líka mikið að segja fyrir bæjarbraginn og eins hvernig karlaliði Víkings, sem spilar í 1. deild, vegnar. Þess vegna teljum við framkvæmd þessa þarfa,“ segir Kristinn bæjarstjóri.