Hjólatúr Landsliðsmennirnir hafa nýtt sér hjólin óspart á milli leikja liðsins á mótinu í sumar.
Hjólatúr Landsliðsmennirnir hafa nýtt sér hjólin óspart á milli leikja liðsins á mótinu í sumar. — Morgunblaðið/Skapti
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

„Hugmyndin er sú að hjólin verði sett á uppboð eftir HM og ágóðinn látinn renna til góðgerðarmála,“ segir Valur Rafn Valgeirsson, markaðsstjóri reiðhjólaverslunarinnar Tri, um reiðhjólin sem íslensku landsliðsmennirnir hafa notað á milli leikja liðsins á heimsmeistaramótinu í Rússlandi. Tri útvegaði landsliðsmönnunum 31 reiðhjól og jafnmarga hjálma, en verkefnið er samvinnuverkefni verslunarinnar og KSÍ. Hjólin eru flest merkt með nöfnum leikmanna og sniðin að stærð þeirra, en þegar þátttöku Íslands í mótinu lýkur verða hjólin flutt heim. „Við flytjum þetta hingað heim þegar mótið er búið og þá verða þau strax sett á uppboð. Strákarnir munu síðan árita hjólin og ef allt gengur eftir verður hægt að fá alvöruupphæð fyrir þetta,“ segir Valur og bætir við að sambærileg fjallahjól kosti í kringum 100.000 krónur. Þá hafi KSÍ nú þegar skuldbundið sig til að kaupa nokkur hjól.

„Þeir vilja eiga þetta sem minjagripi en restin verður síðan sett á uppboð og seld hæstbjóðanda. Strákarnir fá síðan að velja í hvaða málefni peningarnir verða settir,“ segir Valgeir sem kveðst bjartsýnn á góðan árangur Íslands í mótinu. Það muni auðvelda sölu á hjólunum þegar heimsmeistaramótinu lýkur, sem vonandi skilar sér í hærri upphæð til góðs málefnis.

Spurður hvernig hugmyndin um hjólin kviknaði segir Valgeir að Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari landsliðsins, hafi haft samband við fyrirtækið með það fyrir augum að fá hjól til Rússlands sem landsliðsmenn gætu notað á milli leikja. Hjólin gætu strákarnir nýtt til að hreyfa sig en einnig sem samgöngutæki í Kabardinka, dvalarstað strákanna meðan á mótinu stendur.

„Þetta er í raun hugmynd sem við tókum frá þýska knattspyrnulandsliðinu. Það hefur verið hefð fyrir því að taka hjól með þýska landsliðinu á stórmót. Helgi hefur auðvitað dvalið lengi í Þýskalandi og fannst hugmyndin sniðug og ákvað að setja sig í samband við okkur. Við höfðum í kjölfarið samband við þýska hjólaframleiðandann Cube, sem setti okkur í sambærilegt „prógramm“ og þeir bjuggu til fyrir þýska landsliðið. Eftir það var farið í vinnu við að flytja hjólin til Rússlands svo þau yrðu til taks þegar strákarnir mættu,“ segir Valur, sem kveðst bjartsýnn á að hægt verði að selja hjólin dýrum dómum að móti loknu.