Kostnaðarhlutfall Sjúkratrygginga Íslands í heildarútgjöldum sjúklinga hækkaði úr 74% í 82% frá því að lög um breytt greiðsluþátttökukerfi tóku gildi 1. maí í fyrra. Heildarútgjöld sjúklinga í hinu nýja kerfi eru um 1,5 milljörðum króna lægri á ársgrundvelli en áður. Þetta segir í nýrri úttekt Sjúkratrygginga á kerfinu.
Útgjöld vegna sjúkraþjálfunar og sérgreinalækna fóru samanlagt um 700 milljónir umfram fjárheimildir.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði á blaðamannafundi í velferðarráðuneytinu í gær að kerfið væri gott en ekki gallalaust. Markmiðin með kerfinu hefðu náðst og komið væri í veg fyrir íþyngjandi kostnað þeirra sem mest þyrftu á heilbrigðisþjónustu að halda.
Sprenging í sjúkraþjálfun
Í nýju greiðsluþátttökukerfi greiðir enginn meira en 70.366 fyrir heilbrigðisþjónustu á ári, en breytingarnar hafa þó haft í för með sér að þeir sem nota kerfið lítið greiða í mörgum tilvikum meira en þeir gerðu í eldra kerfi.Eftir að kerfið tók gildi hefur ríkið niðurgreitt sjúkraþjálfun meira en áður. Jukust útgjöld SÍ vegna sjúkraþjálfunar um rúma tvo milljarða milli ára, eða um 83%. Ráðherra sagði að kanna þyrfti hvort um uppsafnaða þörf væri að ræða og hvort þannig mætti komast hjá öðrum úrræðum á borð við verkjalyf í tilteknum hópum.