Shane Smith, forstjóri Vice Media, og meðstofnandi hans, Suroosh Alvi, hafa ekki hikað við að teygja hressilega á sannleikanum í því skyni að ganga í augun á væntanlegum samstarfsaðilum, að því er New York Magazine heldur fram.
Shane Smith, forstjóri Vice Media, og meðstofnandi hans, Suroosh Alvi, hafa ekki hikað við að teygja hressilega á sannleikanum í því skyni að ganga í augun á væntanlegum samstarfsaðilum, að því er New York Magazine heldur fram.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Andrew Hill Hjá þeim sem eru að byggja upp fyrirtæki er algengt að teygt sé á sannleikanum og jafnvel blekkingum beitt, en hreinar og klárar lygar munu alltaf koma í bakið á mönnum.

Vice Media var sett á laggirnar með það fyrir augum að ganga fram af fólki. Að sama skapi er margt sem hneykslar í nýrri úttekt New York Magazine á stormasömum vexti fyrirtækisins undir stjórn hins mjög svo óhefðbundna Shane Smith sem var einn stofnenda Vice og forstjóri.

Í greininni er rakið hvernig Vice ýkti hversu vel það næði til ungra neytenda gagnvart rótgrónum fyrirtækjum og fjárfestum, allt frá Intel til Ruperts Murdoch.

Til þess að styðja við framrás sína fór Vice eitt sinn þá leið að reisa nokkurs konar Pótemkíntjöld, til að ganga í augun á nýjum samstarfsaðila. Stuttu fyrir mikilvægan fund með Intel flutti fyrirtækið sig í flottari skrifstofur í næsta húsi. Vice lét smíða fundarherbergi gagngert fyrir fundinn, lét koma fyrir nýjum salernum og hvatti starfsfólkið til að koma með vini sína í vinnuna á fundardaginn sjálfan til að láta það líta út fyrir að vera iðandi og fullt af flottu ungu fólki.

Meira í húfi hjá sprotum

Blekkingar eru algengar á flestum sviðum atvinnulífsins. Jafnvel rótgróin fyrirtæki leggja mikið á sig til að sannfæra fjárfesta um að allt sé í lukkunnar velstandi. Hjá sprotafyrirtækjum er, aftur á móti, meira í húfi þar sem laða þarf að fjármagn, viðskiptavini og skapa sýnileika. Þeir eiga það margir til að freistast til að láta reyna á hversu langt þeir geta gengið. Að því sögðu þá voru frumkvöðlarnir sem ég ræddi við á ráðstefnunni Funders Forum í síðust viku á einu máli: aldrei að ljúga.

Ráðstefnan, sem haldin er á sveitaseturshóteli stutt frá London, býður upp á heillandi blöndu af nýsköpun, bjartsýni, græðgi, öfund (sumir gestirnir hafa þegar skapað sér milljarða punda) og meðaumkun (sumir eru forstjórar stórra fyrirtækja á hlutabréfamarkaði). Ég þori einnig að bóka að innan um allan titringinn var að finna væna klípu af ýkjum, hálfsannleik, hvítri markaðssetningarlygi og almannatengslum. Dyggðir og lestir að hætti Vice í nokkurn veginn jöfnum hlutföllum.

Ég veit þetta, að hluta til vegna þess að frumkvöðlar viðurkenna það stundum að hafa teygt á sannleikanum, þó svo þeir játi það yfirleitt ekki fyrr en eftir að þeir hafa slegið í gegn. Martha Lane Fox, sem stofnaði Lastminute.com með Brent Hoberman, einum af stjórnendum Forum, greindi eitt sinn frá því á fundi sem FT stóð fyrir að hún hefði skáldað sumar af fyrstu umsögnunum frá viðskiptavinum fyrirtækisins til að gera fleiri áhugasama. Hún er nú orðin barónessa. Raðfrumkvöðullinn Luke Kohnson skrifaði árið 2014 hvernig frumkvöðlar „þykjast oft vera með fleiri viðskiptavini, sterkari bakhjarla og meiri sérfræðiþekkingu en þeir hafa í raun“. Hann hélt því fram að „það er af skynsemi sem við sýnum því meiri skilning þegar sprotar skrökva en þegar stór fyrirtæki gera slíkt hið sama“.

Feta hinn gullna meðalveg

Misgjörðir Lane Fox barónessu virðast tiltölulega sakleysislegar nú þegar heilu þjóðríkin hamast við að framleiða falskar fréttir. Og hraðferð blóðrannsóknafyrirtækisins Theranos upp á toppinn, og hörmulegt fallið til botns sem fylgdi í kjölfarið – sem margir frumkvöðlar sem ég ræddi við færðu í tal – er nú þegar öðrum víti til varnaðar þegar kemur að því að skilja hvernig það að koma sjálfum sér á framfæri getur þróast út í uppspuna og svik. (Theranos gerði dómsátt, án þess að játa eða neita sök, í einkamáli sem bandarísk stjórnvöld höfðuðu gegn fyrirtækinu).

En það er samt til grátt svæði sem frumkvöðlar munu ljóstra upp um ef gengið er á þá. „Þú þarft ekki að ljúga – það er mjög hættulegt,“ sagði mér stofnandi fyrirtækis sem þróar samgönglausnir. „En þú þarft svo sannarlega að laga skilaboðin að þeim sem þú talar við,“ t.d. blaðamönnum sem spyrja hvort frumkvöðlar eigi nokkurn tíma að segja ósatt.

Annar frumkvöðull, sem beðinn var að lýsa því hvar mörkin liggja á milli þess sem má og ekki má, sagði að það væri í góðu lagi að segja fjárfestum að mikill áhugi væri á fjármögnunarlotu og að viðræður um skilmála hefðu átt sér stað. En að segjast vera kominn með fjármögnunarloforð, óskuldbindandi skjal sem er undanfari endanlegs samnings, væri ekki í lagi.

„Ég held að það sé töluverður munur á því annars vegar að hreinlega ljúga og hins vegar að koma á framfæri sýn þinni á hvernig það mun gera heiminn betri ef þér tekst ætlunarverk þitt,“ segir þriðji frumkvöðullinn, eigandi leitarvélarfyritækis sem nýtir gervigreindartækni sem þykir bjóða upp á ófá tækifæri til að blekkja. Hún og aðrir gestir staðfestu að það væri breytilegt eftir staðsetningu hverju áhættufjárfestar gleypa við. Í Kísildal skiptir mestu máli að hafa réttu framtíðarsýnina; í New York og London eru ákvarðanir um það hvar á að fjárfesta „mun meira viðskiptalegs eðlis“. Fjórði frumkvöðullinn skýrði þetta betur: „Þú vilt ekki fara í gegnum áreiðanleikakönnun með lygi á samviskunni.“

Einhyrningur, einhyrningur!

Skilaboðin eru skýr. Hættan er sú að lygar komi fólki í koll. Ólíkt stráknum sem kallaði „úlfur, úlfur!“ eru stofnendur sprotafyrirtækja orðnir að strákum og stelpum sem hrópa „einhyrningur, einhyrningur!“ þegar þeir reikna það út að fyrirtæki þeirra hljóti að vera milljarða dala virði.

Í ögrandi grein frá árinu 2010 með yfirskriftina „Ættu frumkvöðlar að ljúga?“ skrifaði nýsköpunarprófessorinn Daniel Isenberg að „fræðilega séð eru allir á móti því, en í raun gera það flestir að einhverju marki“. Ég sendi honum tölvupóst og spurði hvort eitthvað hefði breyst síðan þetta var ritað. Nei, svaraði hann, og mun aldrei gera það.

Þegar kemur að því viðhorfi að sýna ungum fyrirtækjum sem berjast í bökkum meira umburðarlyndi en eldri fyrirtækjum, þegar kemur að lygum, þá fær það ekki svo auðveldlega staðist núna þegar ofvaxnir sprotar eins og Uber og Facebook eru allsráðandi. Eins og Isenberg benti mér á: „Að fá kinnhest frá eins árs barni er krúttlegt, en ekki svo sætt lengur þegar barnið er orðið tíu ára.“