Gríðarleg stemning er nú í landinu vegna HM en 100 heppnir viðskiptavinir Arion sáu fyrsta leik íslenska liðsins á mótinu þar sem það mætti Argentínu.
Gríðarleg stemning er nú í landinu vegna HM en 100 heppnir viðskiptavinir Arion sáu fyrsta leik íslenska liðsins á mótinu þar sem það mætti Argentínu. — Morgunblaðið/Eggert
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Arion banki bauð 100 viðskiptavinum á leik Íslands og Argentínu í Moskvu í liðinni viku.

Arion banki bauð 100 viðskiptavinum sínum á leik Íslands og Argentínu þegar liðin mættust á Spartak-vellinum í Moskvu á laugardaginn var. Þetta staðfestir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi bankans, í skriflegu svari til ViðskiptaMoggans.

Hann segir að bankanum hafi boðist að kaupa miða á leik liðanna af VISA International, en fyrirtækið er einn af aðalstyrktaraðilum Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem nú stendur yfir í Rússlandi.

Þannig hafi bankinn efnt til sérstaks leiks þar sem allir korthafar VISA sem einnig eru viðskiptavinir bankans hafi getað tekið þátt. Þar hafi bankinn ráðstafað helmingi miðanna. Hins vegar hafi bankinn boðið 50 viðskiptavinum sérstaklega á leikinn. Í þeim tilvikum hafi bankinn greitt hótel fyrir viðkomandi en kostnaður við ferðalög til og frá Rússlandi hafi ekki verið á hendi bankans. Haraldur Guðni bendir á að miðarnir sem bankinn keypti hafi komið að góðum notum enda hefðu þeir að öðrum kosti ekki staðið íslenskum stuðningsmönnum til boða.

„Ákveðið var að kaupa miða og bjóða viðskiptavinum og auka þannig hlut íslenskra áhorfenda á vellinum,“ segir Haraldur. Hann ítrekar að engin áform séu uppi um að bjóða viðskiptavinum á fleiri leiki mótsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka hefur bankinn ekki boðið viðskiptavinum eða starfsfólki á Heimsmeistaramótið. ViðskiptaMogginn lagði samskonar fyrirspurn fyrir Landsbankann. Þar á bæ eru ekki uppi fyrirætlanir um að bjóða viðskiptavinum eða starfsfólki á mótið.