Í grein heilbrigðisráðherra, „Næstu skref“, sem birtist í Morgunblaðinu 16. júní síðastliðinn, varð henni tíðrætt um næstu skref sem þarf að stíga til að bæta heilbrigðiskerfið. Talin voru upp mörg verkefni, bæði sem snúa að Landspítala og öðrum stofnunum.
Sumarið er góður tími til að nýta í þágu heildstæðrar heilbrigðisþjónustu.
Sumarið...
Sumarið 2018 þegar Landspítali þarf að loka sérhæfðri bráðþjónustu fyrir hjartasjúklinga í fjórar vikur vegna skorts á hjúkrunarfræðingum.Sumarið 2018 þegar fíknigeðdeild Landspítala er lokað í sjö vikur vegna manneklu.
Sumarið þegar ljósmæður standa í harðri kjarabaráttu.
Margar hafa sagt upp og fyrirséð að ekki verður hægt að halda uppi öruggri þjónustu fyrir fæðandi konur og nýbura eftir 1. júlí.
Sumarið þegar starfsfólk Landspítala tjáir sig opinberlega, lýsir yfir áhyggjum af ástandinu og notar setningar eins og „við erum hrædd um öryggi sjúklinga“.
Sumarið sem hófst með tæplega 50 lokuðum sjúkrarýmum á Landspítala vegna skorts á hjúkrunarfræðingum.
Sumarið þegar heimahjúkrun höfuðborgarsvæðisins hefur lýst því yfir að hún kvíði sumrinu vegna manneklu.
Sumarið þegar fordæmalaust álag er á bráðamóttöku Landspítala, vantar að manna allt að 100 vaktir og það eina sem fram undan er er meira álag. Vonandi gerist ekkert alvarlegt.
Það er mikilvægt að byggja hús, skapa gott umhverfi, hlúa að framtíðinni.
Enn mikilvægara er að hafa í huga að heilbrigðiskerfi er og verður ekki byggt upp á húsum, heilbrigðiskerfi er byggt upp á fólki.
Til að hægt sé að bjóða upp á heildstæða heilbrigðisþjónustu þarf að bæta kjör heilbrigðisstétta.
Það er nú eða aldrei, sumarið er ekki bara góður tími, það er mögulega eini tíminn sem við höfum.
Höfundur er hjúkrunarfræðingur og formaður hjúkrunarráðs Landspítala.