Íslenskur læknir fór á ráðstefnu þarna austur frá í febrúar þar sem kynnt var fyrir væntanlegum þátttakendum á HM að moskítóflugur ættu það til að vera áberandi á þessu svæði við viss skilyrði.
Í framhaldi af því bjuggu starfsmenn KSÍ sig vel undir mögulegt áreiti þessara hvimleiðu kvikinda og eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær eru leikmenn íslenska landsliðsins, starfsmenn og aðrir sem liðinu fylgja með rafmagnsfælur, úða, ónæmislyf og sitthvað fleira til varnar og viðbragða.
Það virðist hafa verið full ástæða til að bregðast við, því fréttir hafa borist af því að moskítóflugurnar séu óvenju ágengar við Volgu þessa dagana og Íslendingar sem eru á leið á þessar kunnu söguslóðir úr síðari heimsstyrjöldinni eru vel vopnum búnir.
Sjálfur tók ég allan þennan búnað með mér, eftir ábendingu frá KSÍ, og kom til Volgograd síðdegis í gær í fullum herklæðum, tilbúinn til að slást við skordýrin en sum skyldmenni þeirra eru vön að fá sér bita af mér við fyrsta mögulegt tækifæri.
En var þetta allt saman óþarfi? Kunnur íslenskur skordýrafræðingur taldi sig geta fullyrt af sjónvarpsmyndum að þarna væri bara um saklaust rykmý að ræða.
Er búið að gera úlfalda úr mýflugu, eða er þetta kannski akkúrat öfugt og saklaus úlfaldi orðinn að stórhættulegri moskítóflugu? Hversvegna spurði enginn Erling?
Ég er nýkominn til borgarinnar en er með málið í skoðun og vonandi verður hægt að upplýsa það fljótt og vel.