Músík Söngurinn er eins og rauður þráður í gegnum allt líf Katrínar Ýrar sem hefur fest rætur í Lundúnum og starfað þar með ýmsum listamönnum.
Músík Söngurinn er eins og rauður þráður í gegnum allt líf Katrínar Ýrar sem hefur fest rætur í Lundúnum og starfað þar með ýmsum listamönnum. — Ljósm/Aðsend
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hún lifir og hrærist í listalífinu í London. Katrín Ýr Óskarsdóttir hefur sungið alla sína tíð og lætur nú að sér kveða í heimsborginni. Katrín kemur víða fram með ýmsum listamönnum sem hún hefur hug á að kynna fyrir Íslendingum.

Katrín Lilja Kolbeinsdóttir

katrinlilja1988@gmail.com

Katrín Ýr Óskarsdóttir er 37 ára söngkona sem búsett er í London í Bretlandi. 15 ára gömul útskrifaðist hún úr Árbæjarskóla og eftir eitt ár í Iðnskólanum í Reykjavík fluttist hún til Bandaríkjanna þar sem hún bjó í nokkra mánuði. Eftir heimkomuna frá USA ákvað hún að drífa sig að klára skóla. Eftir að hafa lokið námi við Fjölbrautaskólann í Breiðholti fluttist hún aftur til Bandaríkjanna í tvö ár, þaðan sem hún fór svo til Bretlands til að læra söng.

„Ég hef sungið alla tíð, var í Söngskólanum í Reykjavík og var þess á milli að spila á stöðum eins og Hressó og Celtic, en langaði alltaf að gera eitthvað meira. Frændi minn fór til London í gítarnám og ég ákvað að fara og skoða skólann sem hann var í. Það reyndist örlagaferð,“ sagði Katrín Ýr sem nokkrum mánuðum síðar var sjálf flutt til London. „Ég ætlaði mér í fyrstu að taka eins árs diplómanám við The Institute of Contemporary Music (ICMP) og koma svo heim. En þegar því lauk þá ákvað ég að taka 3ja ára BMus-nám og þá varð eiginlega ekki aftur snúið. Nú hef ég búið hérna í London síðastliðin 12 ár og kenni hér tónlist og söng.“

Langaði alltaf að gera meira

Katrín Ýr hefur alltaf verið viðloðandi söng. Tók þátt í öllum söngvakeppnum í grunnskóla og tvisvar í Söngvakeppni framhaldsskólanna og var í öllum söngleikjum Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Að námi loknu hóf hún að spila á hinum ýmsu skemmtistöðum, svo sem Hressó, Celtic Cross, Dubliners og fleiri stöðum, sem og í einkapartíum, en alltaf blundaði í henni að gera eitthvað meira.

„Ég hef verið búsett hérna í London í rúman áratug núna, en hef verið að vinna að söng og tónlist í um 15 ár á Íslandi. Ég spila mikið í brúðkaupum, fyrirtækjapartíum, afmælum og svo framvegis hérna í Bretlandi, auk þess sem ég tek stundum gigg á veitingastöðum, börum og fleiri stöðum,“ segir Katrín Ýr.

En hvernig skyldi hefðbundinn dagur vera í lífi þessarar atorkumiklu konu? „Það fer allt eftir degi, viku eða jafnvel mánuði. Ég er að kenna söng í University of West London einn dag í viku, kenni við The Institute of Contempoary Music hálfan dag í viku og í Tring Park School for the Performing Arts einn dag í viku,“ segir Katrín Ýr sem að auki rekur hóp sem kallast VOX Collective , en í honum er tónlistarfólk, allt frá söngvurum og gítarleikurum til strengjasveita og plötusnúða. „Mitt verk er að setja saman hljómsveitir og sýningar fyrir einkapartí og skemmtistaði. Allt frá þemakvöldum til live partíbands með DJ. Ég er í miklum samskiptum við þau sem ráða okkur til þess að gera kvöldið fullkomið.“

Setja saman sýningar og gigg

Með VOX Collective hefur Katrín Ýr sett upp matarsýningar sem hefur selst upp á.

„Ein vinsælasta sýningin var OUTKAST , þar heiðruðum við goðsagnakenndu hipphopp-grúppuna sem gaf út lög eins og Hey Ya , Ms. Jackson , Rosa Parks , So Fresh So Clean , og fleiri. Við höfum sömuleiðis heiðrað Carole King og Madonnu , það voru tvær mismunandi sýningar með þremur söngkonum og strengjasveit. Nú svo höfum við tekið Nirvana-klassík með live bandi og 16 söngvurum, held að það hafi verið í fyrsta skipti sem ég sá svokallað „crowd surf“ á kórtónleikum.“

Katrín Ýr hefur því í nægu að snúast. „Ég þarf oft að setja saman sýningar og gigg fyrir VOX Collective , útsetja lög og setja saman hljómsveitir. Ég vinn einnig við að taka upp fyrir fólk þannig að suma daga er ég í stúdíói.“ Ofan á þetta allt saman hefur Katrín Ýr einnig verið að raddþjálfa söngvara og verið með bæði vinnustofur og kennslu bæði í Bretlandi sem og annars staðar í heiminum.

Veltir fyrir sér tónleikum á Akureyri

Og hvað skyldi svo vera á döfinni hjá Katrínu Ýri? „Ég er að vinna mikið með VOX Collective og er svona að skoða það að koma heim til Íslands með eitthvað af þeim sýningum sem við höfum sett upp hérna úti. Við munum spila á tónlistarhátíð hérna í Bretlandi með Madonnu-sýninguna okkar og svo erum við sömuleiðis að bóka fleiri gigg í London. Nú svo hef ég sett upp tvo Adele-heiðurstónleika á Íslandi sem seldist upp á, ég er að skoða dagsetningar fyrir fleiri slíka tónleika, jafnvel norður á Akureyri. Og á sumrin er alltaf nóg að gera við að spila í brúðkaupum, afmælum og fyrirtækjapartíum,“ segir Katrín Ýr að lokum.