Í tilefni 12. ársfundar Samstarfsnets skapandi borga UNESCO í Kraká og Katowice í Póllandi um miðjan júní tók Bókmenntaborgin Reykjavík þátt í ljóðaverkefninu Poetic Encounters sem Bókmenntaborgin Heidelberg í Þýskalandi og Handverksborgin Fabriano á Ítalíu áttu frumkvæði að. Það fólst í að útbúa handgert safnrit með ljóðum skálda frá bókmenntaborgunum til að fagna orðlistinni og minna á mikilvægi bókmennta og tungumála í heimsmenningunni.
Skáldin Bragi Ólafsson og Soffía Bjarnadóttir lögðu ljóð til verksins. Ljóð Braga er „Tuttugu línur um borgina“ og ljóð Soffíu er úr bálknum „Ég er hér“. Ljóðin skrifuðu þau í Gröndalshúsi og var sá gjörningur festur á filmu. 51 skáld frá 27 bókmenntaborgum kom saman í bókinni, en í henni er fjölbreytileika tungumála heimsins fagnað með ljóðum frá öllum heimshornum sem rituð eru á móðurmáli hvers skálds. Ljóðin rita skáldin eigin hendi á handgerðan folio-pappír frá Fabriano, þar sem bókin var bundin inn í leðurband og er allur frágangur hennar í samræmi við ævagamalt handverk.
Bókin er tileinkuð fólki um allan heim sem trúir á mátt orðlistarinnar og styður frelsi til tjáningar og hugsana. Ljóðabókin Poetic Encounters verður varðveitt í Bókmenntaborginni Kraká en rafræn útgáfa með ljóðunum á frummálum og í enskum þýðingum verður aðgengileg á vef Bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur innan skamms.