Reykjavík 2012 Víðidalurinn var fullur af bílum, fólki og hestum á landsmótinu sem þar fór fram 2012. Nú hyggst Fákur endurtaka leikinn og gera betur.
Reykjavík 2012 Víðidalurinn var fullur af bílum, fólki og hestum á landsmótinu sem þar fór fram 2012. Nú hyggst Fákur endurtaka leikinn og gera betur. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landsmót Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Framkvæmdir sem Reykjavíkurborg og hestamannafélagið Fákur hafa ráðist í á mótssvæðinu í Víðidal vegna landsmóts hestamanna sem þar verður haldið í byrjun júlí eru varanlegar.

Landsmót

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Framkvæmdir sem Reykjavíkurborg og hestamannafélagið Fákur hafa ráðist í á mótssvæðinu í Víðidal vegna landsmóts hestamanna sem þar verður haldið í byrjun júlí eru varanlegar. Þær eiga að nýtast við mótahald í framtíðinni en ekki síður hestamönnum í leik og starfi og hestafyrirtækjum sem starfa í Víðidal. Framkvæmdum við velli, reiðhöll og aðstöðu fyrir áhorfendur er að ljúka og síðustu dagarnir fyrir mót verða notaðir til að koma upp tæknibúnaði og breyta félagssvæði í mótssvæði.

„Við erum með besta svæði á Íslandi til að halda landsmót. Þó ekki séu nema sex ár síðan við héldum síðasta landsmót þarf að gera ýmislegt til að gera svæðið keppnisfært. Þetta urðu meiri framkvæmdir en við reiknuðum með í upphafi. Það skiptir máli fyrir okkar sem íþróttafélag að bjóða félögum okkar ávallt upp á bestu aðstæður,“ segir Hjörtur Bergstað, formaður Fáks, þegar hann er inntur eftir ástæðum þess að félagið sótti um að halda landsmót í ár. Félagið hefur áður haldið tvö landsmót, árin 2000 og 2012.

Hjörtur bætir því við að hestamennskan snúist um samveru og slagkraftur félagsins aukist við að takast á við slíkt verkefni.

Hann tekur fram að sótt hafi verið um landsmótið í samvinnu við Reykjavíkurborg og hafi borgin stutt vel við bakið á félaginu með því að ráðast í framkvæmdir á félagssvæðinu.

Nýr „hringleikavöllur“

Laga þarf alla velli fyrir mótið, eins og alltaf er. Hjörtur segir að samráð hafi verið haft við lykilknapa um lagfæringar á aðstöðunni. Það hafi leitt til þess að ákveðið var að gera nýja kynbótabraut og breyta upphitunarvelli. Þá hafi verið gerð mön við Hvammsvöll sem er neðan við reiðhöllina. Það geri hann mun áhugaverðari, einskonar hringleikavöllur. Komið var að viðamiklu viðhaldi á reiðhöllinni þar sem ýmislegt lá undir skemmdum. Hjörtur segir að hún sé nú komin í gott lag.

Síðustu tíu dagarnir fyrir mótið fara í það að breyta félagssvæði í mótssvæði, að sögn Áskels Heiðars Ásgeirssonar, framkvæmdastjóra mótsins. Dómpallar eru settir upp og tæknibúnaður. Áskell Heiðar segir að flókinn tæknibúnað þurfi fyrir slíkt mót. Í því eins og öðru er lögð áhersla á að tjalda ekki til einnar nætur heldur að búnaðurinn nýtist félagsmönnum áfram.

Sannkallað mannamót

Dagskrá mótsins er í föstum skorðum og ekki mikið svigrúm til að breyta til. Ljúka þarf sýningum og keppnum. Á síðasta landsmóti var gerð tilraun til að stytta mótið, hefja það á mánudegi og ljúka því á laugardagskvöldi. Áskell Heiðar segir að mótið verði lengt aftur. Tilgangurinn sé að gefa gestum kost á því að njóta samveru með öðrum hestamönnum á milli dagskrárliða. Þetta sé jú hestamannamót.

Mótið hefst sunnudaginn 1. júlí með keppni í barna- og unglingaflokkum. Jafnframt verður þá skemmtidagskrá fyrir börn og veitingastaðir opnaðir sem og markaður. Ákveðið hefur verið að selja ekki inn þann dag til að bjóða fjölskyldum keppendanna og öðrum að koma til að fylgjast með.

Heimsmeistaramótið í knattspyrnu stendur yfir á þessum tíma og verða allir leikir sem leiknir verða á meðan landsmótið fer fram sýndir á risaskjá í stóru skemmtitjaldi við reiðhöllina. Þetta er eftir riðlakeppnina og ekki ljóst hvort íslenska landsliðið verður með í keppninni. Hjörtur segist raunar hafa fulla trú á því að svo verði og á von því á að margir vilji fylgjast með leikjunum.

Öll helstu úrslit verða síðasta dag mótsins, sunnudaginn 8. júlí. Er það sama fyrirkomulag og lengi var við lýði.

Gítarpartí verður í skemmtitjaldinu alla daga og sveitaböll í reiðhöllinni á föstudags- og laugardagskvöld.

Vonast eftir 10 þúsund gestum

Hjörtur segir að hægt sé að taka við allt að 20 þúsund manns á mótssvæðinu. Hann segist þó verða ánægður ef rúmlega helmingur þess fjölda mæti, eða 10 til 12 þúsund manns. Fjöldinn sé ekki aðalatriðið heldur að nógu margir miðar seljist til að mótið standi undir sér og gestir og keppendur eigi ánægjulegar stundir í Víðidal.