Marksækinn Enginn Evrópubúi hefur skorað jafn mörg mörk fyrir landslið sitt í karlaflokki eins og Ronaldo.
Marksækinn Enginn Evrópubúi hefur skorað jafn mörg mörk fyrir landslið sitt í karlaflokki eins og Ronaldo. — AFP
Nágrannarnir Spánverjar og Portúgalar hafa komið sér í vænlega stöðu í B-riðli heimsmeistarakeppni karla í knattspyrnu í Rússlandi. Önnur umferð riðlakeppninnar hélt áfram í gær og unnu Spánverjar og Portúgalar sína leiki en þó með minnsta mun.

Nágrannarnir Spánverjar og Portúgalar hafa komið sér í vænlega stöðu í B-riðli heimsmeistarakeppni karla í knattspyrnu í Rússlandi. Önnur umferð riðlakeppninnar hélt áfram í gær og unnu Spánverjar og Portúgalar sína leiki en þó með minnsta mun. Grannaþjóðirnar gerðu fjörugt 3:3 jafntefli í fyrsta leik og eru nú með fjögur stig hvort en Íran er með þrjú stig og Marokkó ekkert.

Framherjinn Diego Costa tryggði Spánverjum sigur gegn Írönum þegar þjóðirnar áttust við í gærkvöld. Costa skoraði eina mark leiksins á 54. mínútu. Hafði framherjinn heppnina með sér. en eftir atgang í vítateig Írana skaut varnarmaður Íran boltanum í hnéð á Costa og af honum fór boltinn í netið. Spánverjar sóttu nær linnulaust að marki Írana nær allan tímann og sigurinn var fyllilega sanngjarn en Íranar áttu af og til hættulegar sóknir í leiknum.

Costa hefur þar með skorað þrjú mörk á HM, en hann skoraði tvö af mörkum Spánverja í fyrsta leiknum.

Markahæstur í Evrópu

Cristiano Ronaldo hefur gert gott betur í markaskorun því hann er nú kominn með fjögur mörk eftir að hafa gert eina markið í leik Portúgals og Marokkó. Það tók Cristiano Ronaldo ekki nema þrjár mínútur að koma Portúgölum yfir með skalla eftir hornspyrnu á Luzhniki-leikvanginum í Moskvu. Var þetta fjórða mark Ronaldo í keppninni og 85. landsliðsmark hans, sem gerir hann að markahæsta evrópska landsliðsmanni frá upphafi. En fyrir utan mark Portúgala voru Marokkómenn betri aðilinn í leiknum. Þeir héldu boltanum ljómandi vel og sköpuðu sér urmul af góðum marktækifærum. Rui Patricio var öflugur í marki Portúgala og átti tvær vörslur í algerum heimsklassa.

Suárez setti landsmet

Luis Suárez skoraði eina mark leiksins á 23. mínútu eftir hornspyrnu þegar Úrúgvæ lagði Sádi-Arabíu að velli 1:0 í A-riðli. Úrúgvæ er þar með komið áfram í 16 liða úrslitin ásamt gestgjöfunum Rússum sem einnig eru með sex stig í A-riðli. Egyptaland og Sádi-Arabía eru án stiga.

Suárez hefur nú skorað á þremur heimsmeistaramótum í röð; 2010, 2014 og nú 2018. Er hann fyrsti leikmaðurinn í sögu Úrúgvæ sem afrekar þetta. Suárez spilar sem kunnugt er með spænska stórliðinu Barcelona, þar sem hann hefur einnig raðað inn mörkunum undanfarin ár.

Suárez hefur nú skorað 52 mörk fyrir Úrúgvæ í 100 landsleikjum, sem er einnig magnað afrek.

sport@mbl.is