NBA Miðherjinn Tryggvi Snær Hlinason og Jón Arnór Stefánsson fyrrverandi leikmaður Dallas.
NBA Miðherjinn Tryggvi Snær Hlinason og Jón Arnór Stefánsson fyrrverandi leikmaður Dallas. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NBA Kristján Jónsson kris@mbl.is Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmiðherji í körfuknattleik, er kominn til New York í Bandaríkjunum ásamt fríðu föruneyti til að vera viðstaddur nýliðavalið í NBA-deildinni.

NBA

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmiðherji í körfuknattleik, er kominn til New York í Bandaríkjunum ásamt fríðu föruneyti til að vera viðstaddur nýliðavalið í NBA-deildinni. Talsverðar líkur eru taldar vera á því að Tryggvi verði valinn, en hann lýsti því yfir í vor að hann myndi gefa kost á sér. Ýmsir sérfræðingar, til dæmis hjá ESPN og Bleacher Report, slá því nánast föstu að Tryggvi verði valinn í 2. umferð valsins. Ekki er þó einfalt að spá fyrir um slíkt. Um leið og eitt félag kemur á óvart með ákvörðun sinni getur farið af stað atburðarás þar sem félögin þurfa að breyta fyrirhuguðum áætlunum sínum, út frá því hvað er í boði þegar kemur að þeim að velja.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur Denver Nuggets talsverðan áhuga á Tryggva og geta forráðamenn félagsins hugsað sér að velja hann í 2. umferð. Þeir eru hins vegar ekki vissir um að þá verði Tryggvi enn í boði þegar að þeim kemur. Denver-menn eiga 14. valrétt og nýta hann væntanlega í leikmann sem þeir eru öruggari um að sé tilbúinn í NBA, en annar valréttur þeirra er númer 43. Í bandaríska körfuboltanum skilar gríðarlegur fjöldi frambærilegra leikmanna sér úr háskólunum á hverju ári, en þar er spilaður körfubolti í mjög háum gæðaflokki. Leikmenn sem koma úr háskólum og gerast atvinnumenn í NBA, Evrópu og S-Ameríku skipta hundruðum á hverju einasta ári. Þar að auki geta sterkir leikmenn utan Bandaríkjanna verið í boði. Þar má til dæmis nefna Luka Doncic, sem er Evrópumeistari bæði með Slóveníu og Real Madrid.

Pétur stimplaði sig strax inn

Pétur Guðmundsson var ekki valinn fyrr en í 3. umferð nýliðavalsins hinn 9. júní 1981 en var engu að síður nógu góður til þess að fá samning við Portland Trail Blazers og spila 68 leiki með liðinu fyrsta veturinn. Hann er eini Íslendingurinn sem hefur verið valinn í nýliðavalinu, en Dallas Mavericks samdi við Jón Arnór Stefánsson sumarið 2003 og fór það ekki í gegnum nýliðavalið. Jón var meiddur á ökkla veturinn hjá Dallas og spilaði ekki leik í NBA auk þess sem Dallas var með stjörnubakvörðinn Steve Nash.

Ef við gefum okkur umræðunnar vegna að Tryggvi yrði í kvöld valinn í 2. umferð er nóg af dæmum um frábæra leikmenn sem valdir hafa verið í 2. umferð nýliðavalsins. Til gamans má nefna nokkra: Maurice Cheeks, Steve Kerr, Vernon Maxwell, Eddie Johnson, Mark Price, Dennis Rodman, Doc Rivers, Danny Ainge, Toni Kukoc, Jeff Hornacek, DeAndre Jordan, Gilbert Arenas, Draymond Green, Isaiah Thomas, Marc Gasol og síðast en ekki sístur Manu Ginobili sem valinn var nr. 57.

Ýmsir möguleikar í stöðunni

Hvað tekur svo við verði Tryggvi valinn í nýliðavalinu? Þeirri spurningu er ekki auðvelt að svara, því þar er einungis um fyrsta skrefið inn í deildina að ræða.

Í fyrsta lagi er spurning hvenær eða hvort félagið myndi vilja semja við Tryggva. Sú staða gæti einnig komið upp að félagið skipti á Tryggva og öðrum leikmanni ef annað félag hefði meiri áhuga á Íslendingnum. Mörg dæmi eru um slíkt. Í þriðja lagi er ekki víst að Tryggvi myndi strax hefja leik í NBA. Félag sem velur hann í nýliðavalinu gæti gert það til að tryggja sér leikmann sem lofar góðu en myndi vilja sjá hann spila í það minnsta eitt tímabil til viðbótar í Evrópu á lánssamningi

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins gæti staða Tryggva hjá Valencia á Spáni verið að styrkjast frekar en hitt. Þjálfari liðsins á síðasta tímabili hefur látið af störfum og aðstoðarþjálfarinn er tekinn við. Sá mun vera enn hrifnari af Tryggva en fráfarandi þjálfarinn. Tryggvi gæti því fengið fleiri tækifæri næsta vetur með liði sem er í toppbaráttunni á Spáni.

Körfuboltasérfræðingur Morgunblaðsins, Benedikt Guðmundsson, skrifaði í blaðið 20. apríl að með því að taka eitt ár til viðbótar á Spáni yrði Tryggvi betur undirbúinn fyrir átökin í NBA-deildinni.