Erla Pálsdóttir fæddist á Litlu-Heiði í Mýrdal 9. september 1929. Hún lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum 10. júní 2018.
Foreldrar hennar voru hjónin Páll Pálsson, bóndi á Litlu-Heiði, f. 11. mars 1902, d. 13. júní 1978, og Margrét Tómasdóttir, húsfreyja á Litlu-Heiði, f. 31. mars 1904, d. 28. desember 1994. Systkini Erlu eru Kjartan, f. 14. október 1930, d. 7. apríl 2005, Sigurbjörg, f. 6. febrúar 1932, Elsa, f. 11. júlí 1936, Tómas Jens, f. 20. júlí 1938, Áslaug, f. 1. maí 1940, Guðlaug Ingibjörg, f. 13. júní 1942 og Páll Rúnar, f. 16. mars 1946.
Erla giftist 17. júní 1953 Jóni Sveinssyni, f. 2. apríl 1927, d. 1. júlí 2017. Börn þeirra eru: 1) Páll, f. 12. apríl 1953. Hann á þrjá syni og sjö barnabörn. Maki M. Sigríður Jakobsdóttir. 2) Þórný Jónsdóttir, f. 7. september 1954, d. 28. júní 2016. 3) Margrét, f. 17. febrúar 1956. Maki Sigurjón Árnason. Þau eiga þrjá syni og sex barnabörn. 4) Sigurlaug, f. 17. júní 1957. Maki Ólafur Helgason. Þau eiga þrjú börn og sex barnabörn. 5) Sveinn, f. 1. nóvember 1959. Maki Jóna Svava Karlsdóttir. Þau eiga fjögur börn og sex barnabörn. 6) Jónatan Guðni, f. 27. júlí 1962. Maki Valgerður Guðjónsdóttir. Þau eiga þrjú börn og tvö barnabörn. 7) Guðrún, f. 25. júlí 1963. Hún á þrjú börn og eitt barnabarn. Maki Jón E. Einarsson. 8) Einar, f. 28. mars 1965. Maki Ágústa Bárðardóttir. Þau eiga tvö börn. 9) Guðbjörg, f. 18. febrúar 1968. Maki Gauti Gunnarsson, d. 15. nóvember 2013. Þau eiga fjögur börn og eitt barnabarn.
Erla ólst upp í foreldrahúsum á Litlu-Heiði, en fjölskyldan bjó einnig í skamman tíma í Vestmannaeyjum. Hún stundaði nám við Húsmæðraskólann á Laugarvatni 1948 til 1949 og 1950 til 1952 vann hún við Skógaskóla. Húsfreyja á Reyni 1953 til 1995. Erla var virk í félagsstarfi í sinni heimabyggð, einkum í starfi Kvenfélagsins Ljósbrár.
Útför Erlu fer fram frá Reyniskirkju í Mýrdal í dag, 21. júní 2018, klukkan 13.
Enn er komið að kveðjustund, því að ástkær móðir mín Erla Pálsdóttir er látin. Það er erfitt að kveðja móður sína, þó að ég sé sjálf orðin móðir og amma, þá er það mér þungbært á þessari stundu. Hún er búin að vera mín stoð og stytta í gegnum lífið og er nú ekki lengur mér innan handar um hvaðeina. Þó að ég sé yngst í stóra barnahópnum hennar eða númer níu í systkinaröðinni, þá var hún til staðar fyrir mig án þess að vera mikið að ota sér fram. Hennar styrkleikar lágu víða og var mér það ekki ljóst fyrr en á fullorðinsárum hverjir þeir væru helstir. Við lítum yfirleitt á foreldra okkar sem sjálfsagðan hlut og erum því ekki að velta okkur upp úr þeirra mannkostum. Í eðli sínu var hún mjög raunsæ og lagði margt gott til málanna. Hún var einnig mjög athugul um þarfir annarra og setti þær yfirleitt í forgang fram yfir sínar eigin. Dugnaður hennar og eljusemi í öllu sem hún tók sér fyrir hendur hefur ávallt verið mér mikil fyrirmynd og hefur mótað mig sem einstakling í gegnum árin. Fyrir þetta allt og samfylgdina er ég nú þakklát.
Vertu ekki út í lífið gramur
heldur bjartsýnn og miskunnsamur.
Vertu ávallt góður
við hinn minnsta bróður.
Því lífsvegurinn verður
úr hamingjunni gerður.
(Sigríður Klingenberg)
Guðbjörg Jónsdóttir.
Hún fylgdist vel með ömmu- og langömmubörnunum. Spurði frétta og vildi fá að vita hvernig gengi.
Erla sat ekki auðum höndum. Eftir hana liggur mikið af fallegri handavinnu, þar á meðal þær fallegustu lopapeysur sem ég hef séð.
Elsku Erla, nú ert þú horfin í sumarlandið, en þar hafa Jón, eiginmaður þinn, og Þórný, dóttir þín, örugglega tekið á móti þér. Við sem eftir sitjum yljum okkur við góðar minningar.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Ágústa.