Haraldur Þórarinsson í Laugardælum fór á sitt fyrsta landsmót í Skógarhólum árið 1970. Hann var þá sextán ára og fór með föður sínum og fleiri fullorðnum mönnum. Hann sótti flest mót til ársins 2014.
Meira fjör var hjá honum á næstu mótum. Hann nefnir að mótið á Vindheimamelum sumarið 1974 hafi verið eftirminnilegt. Þar hafi verið mörg góð hross og nefnir sérstaklega Núp frá Kirkjubæ og Ör frá Akureyri. Mannlífið var ekki síður skemmtilegt. „Maður skemmti sér mikið, söng og lék sér fram eftir nóttu. Brekkan var meira notuð til að sofa á þessum tíma, nema þegar sérstakir hestar voru á ferð,“ segir Haraldur.
Hann keppti á landsmótunum 1982 og 1986, bæði á eigin hestum og annarra. Seinna var hann um langt árabil í stjórnunarstörfum, meðal annars formaður Landssambands hestamannafélaga, og sótti landsmótin í því hlutverki.