Til að ná langt í póker þarf bæði kænsku, heppni og talnafimi. Það sama gildir um stjórnendur evrópsku flugfélaganna ef þeir ætla að njóta góðs af þeirri samþjöppun sem er að eiga sér stað í greininni.

Til að ná langt í póker þarf bæði kænsku, heppni og talnafimi. Það sama gildir um stjórnendur evrópsku flugfélaganna ef þeir ætla að njóta góðs af þeirri samþjöppun sem er að eiga sér stað í greininni. Lufthansa hefur lagt spilin á borðið og lýst yfir áhuga á að kaupa Norwegian Air Shuttle. Það leiddi til þess að gengi hlutabréfa í lággjaldaflugfélaginu hækkaði um 12%.

Marga grunar að Lufthansa leiki tveim skjöldum. Með því að ýta upp verði Norwegian má gera IAG, sem líklegt er til að reyna yfirtöku, erfiðara fyrir. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem slíkar ásakanir eru á sveimi. Þegar fréttir hermdu að Ryanair væri með kaup í undirbúningi þá sagði Michael O'Leary, forstjóri flugfélagsins, að Norwegian væri að „reyna að búa til ímyndaðan áhuga“.

En Lufthansa gæti líka verið full alvara. Flugfélagið hefur gefið það skýrt til kynna að það vilji taka þátt í þeirri samrunabylgju sem gengur yfir sundurskiptan flugmarkaðinn í Evrópu. Hugsanlega gæti Lufthansa haft áhuga á Alitalia, sem er í basli, þó svo að pólitískar flækjur hafi sett það söluferli á ís. Með nýlegan flota og batnandi framlegð er Lufthansa með þá fjárhagslegu burði sem þarf til að takast á við kaup á Norwegian. Lággjaldaflugfélagið hefur vaxið hratt undir stjórn Björn Kjos, sem fengið hefur viðurnefnið „Freddie Laker úr fjörðunum“, og það hefur leitt til mikils taps og hárra skulda.

Samt sem áður hefði slíkur samruni takmarkaða kosti í för með sér. Starfsemi flugfélaganna tveggja passar ekki vel saman. Og Lufthansa myndi ekki heldur hafa mikil not fyrir allar þær viðbótarflugvélar sem myndu fylgja með í kaupunum.

IAG myndi passa betur við Norwegian. Kostirnir væru ekki einungis fólgnir í því að halda aftur af samkeppninni á flugleiðum yfir Atlantshafið. Sem þó myndi muna um, þar sem stærsta langferðamiðstöð Norwegian er á Gatwick-flugfelli í London, í túnfætinum hjá British Airways. Ef Norwegian er metið á fimmfalt EBITDAR (rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármgnsliði og leigukostnað) þýðir það 1,6 milljarða evra virði, að mati markaðsgreinenda, eftir að nettóskuldir að fjárhæð 5,2 milljarðar evra hafa verið dregnar frá. En þetta verðmat er háð því að það takist að draga úr kostnaði og, það sem er öllu loðnara, að það náist „markaðshagræðing“ (e. market synergies) að fjárhæð 3,3 milljarðar evra að teknu tilliti til skatta og fjármögnunar.

Miðað við þetta ætti hlutabréfaverðið að vera 30% hærra en það er nú. Það virðist fullríflegt. Umtalsverð áhætta fylgir kaupum á Norwegian. Engin trygging er fyrir því að módel fyrir lággjaldaflugfélag henti í lengri flugleiðir, þar sem hefðbundnum flugfélögum hefur þegar tekist að ná kostnaði töluvert niður.

Eftir að hafa í tvígang reynt án árangurs að kaupa Norwegian segir IAG að það kæri sig ekki um að taka þátt í kapphlaupi við annan kaupanda. Gengi hlutabréfanna er nú þegar um 40% hærra en það var áður en IAG sagðist fyrst hafa áhuga. Fjárfestar sem vonast eftir frekari hækkun kunna að leggja fullmikið undir miðað við spilin á hendi.