Sigurður Anton Hjalti Þorsteinsson fæddist 17. september 1932 á Vatni á Höfðaströnd. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki 9. júní 2018.
Foreldrar Sigurðar voru Þorsteinn Helgason, f. 1884 á Mannskaðahóli á Höfðaströnd, d. 1952, og Ingibjörg Jónsdóttir, f. 1889 á Skúfsstöðum í Hjaltadal, d. 1978.
Sigurður ólst upp á Vatni hjá foreldrum sínum og systkinum. Elst var Sigurbjörg, f. 1913, d. 1994, Guðrún, f. 1918, d. 2009, Jón, f. 1921, d. 1988, Ólafur, f. 1923, d. 1981, Fjóla Guðfríður, f. 1925, d. 2002, Axel, f. 1927, d. 2013, og Kári Margeir, f. 1929, d. 2016.
Eiginkona Sigurðar var Hulda Njálsdóttir, f. 4. janúar 1936, d. 12. des. 2000. Hulda var dóttir hjónanna Njáls Sigurðssonar, f. 1906, d. 1994, og Hólmfríðar Eysteinsdóttur, f. 1915, d. 1944. Bjuggu á Siglufirði.
Sigurður og Hulda byrjuðu búskap á Siglufirði 1955. Þar vann hann við ýmis störf og lærði húsasmíðar. Árið 1965 hófu þau búskap á Skúfsstöðum í Hjaltadal og bjuggu þar til vorsins 2000. Þá seldu þau jörðina til bróðursonar Sigurðar, Þorsteins Axelssonar, en skildu eftir spildu úr landinu og reistu nýbýlið Mela. Þar bjó Sigurður í nær 18 ár eftir andlát Huldu og vann ötullega að skógrækt á býlinu.
Sigurður kom að mörgum verkefnum og framfaramálum. Hann tók að sér ýmis nefndar- og trúnaðarstörf í Hólahreppi og var hreppstjóri um árabil.
Börn Sigurðar og Huldu eru sex, barnabörnin 15 og barnabarnabörnin 11.
Börn þeirra: 1) Hólmfríður Guðbjörg, f. 20. jan. 1956, maki Gunnar Þór Garðarsson. Dóttir hennar og Jóhannesar Ottóssonar er Jóhanna Erla, maki Halldór Birgir Bergþórsson. Börn þeirra Nóel Hrafn og Hrafnhildur Myrra. 2) Reynir Þór, f. 4. ágúst 1957. Börn hans og Ragnhildar Bjarkar Sveinsdóttur eru Þorgerður Hulda og Hugrún Ösp. Börn Reynis og Rúnar Rafnsdóttur eru Auður og Sigurður Þór. Maki Þorgerðar er Peter Frisch. Dætur þeirra Lena Sóley og Hanna Lilja. Maki Hugrúnar er Ólafur Kjartansson. Börn þeirra Sverrir Ragnar, Karítas Erla og Elín Hulda. Maki Auðar er Daníel Freyr Gunnarsson. Dætur þeirra eru Fríða Rún og Yrsa Örk. 3) Una Þórey, f. 5. ágúst 1960, maki Rafn Elíasson. Dóttir þeirra er Dagný Hlín. Dætur Unu og Guðmundar Arnar Flosasonar eru Margrét Helga og Fjóla Dröfn. Maki Fjólu er Valur Þór Kristjánsson. 4) Njáll Haukur, f. 14. okt. 1961, maki Arnfríður Agnarsdóttir. Synir hans og Öldu Jónsdóttur eru Jón Haukur, d. 2012 og Hjalti Snær. Börn Jóns og Erlu Kristínar Jónasdóttur eru Linda Sól og Mikael Ingi. Sambýliskona Hjalta er Dana Rún Magnúsdóttir. 5) Inga Fjóla, f. 6. mars 1970, maki Stefán Ægir Lárusson. Dætur þeirra eru Sólveig Rán og Brynja Hrönn. Sambýlismaður Sólveigar er Anton Freyr Karlsson. 6) Halla Sigrún, f. 20. nóv. 1974, maki Birkir Marteinsson. Synir þeirra eru Sigurður Bragi og Haukur Freyr.
Útför Sigurðar fer fram frá Hóladómkirkju í dag, 21. júní 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.30.
Áttatíu og fimm ár eru góður ævispotti. Pabbi minn var af þeirri kynslóð sem upplifði miklar breytingar í samfélaginu. Hann sagði sögur af því þegar fólk fór á milli bæja til að fá fréttir af seinna stríði en svo var hann búinn að fá sér spjaldtölvu og fylgdist þar með tölvupósti og fréttum.
Myndbrot renna í gegnum hugann: Skyndibíltúr sem endaði við Hofsjökul þar sem við stóðum á inniskónum á 70 ára afmælinu hans, ævintýraleg ferð til Færeyja þar sem okkur var tekið sem þjóðhöfðingjum, stolt á stærstu stundum lífsins, gleði yfir litlum börnum, undrun yfir litlu tré sem var plantað sem svo óx og dafnaði á melnum.
Pabbi var bakhjarlinn minn og spegill. Við skiptumst líflega á skoðunum, ræddum þjóðmálin, ákvarðanir sem við vorum ekki alltaf sammála um að væru gáfulegar, sparisjóðinn, flokkinn og kaupfélagið.
Það er mikilvægt að eiga bakhjarl, sérstaklega fyrir unga manneskju.
Einu sinni sem oftar ræddum við hestamennsku sem bæði höfðum gaman af. Hann vildi vita hvernig gengi með þennan og hinn.
Einu sinni átti ég í mesta brasi með reiðhestinn minn.
Sagði þá maður nokkur við mig að þetta væri of mikill hestur fyrir mig, hann skyldi taka hann að sér. Niðurdregin ræddi ég þetta við pabba sem sagði ákveðinn:
„Þú skalt ekki vera að láta einhvern karl segja þér hvað þú getur. Það þekkir enginn þennan klár betur en þú.“ Þetta voru góð skilaboð fyrir lífsins verkefni, við þekkjum flest best takmörk okkar og þurfum frekar á hvatningu að halda en úrtölum.
Pabbi var góður bóndi sem gætti þess að ganga ekki of nærri náttúrunni eða skepnunum. Hann taldi gott jafnvægi mikilvægt því þannig næðist bestur árangur til lengri tíma. Þetta er lögmál sem víða á við.
Það á ekki vel við bændur og náttúrubörn að komast ekki út í vorið og sumarið.
Ég vonaði að pabbi yrði hjá okkur eitthvað lengur en það var kominn tími til að halda í sumarlandið, hitta mömmu og aðra sem ég trúi að hafi tekið vel á móti.
Takk fyrir mig og okkur strákana, takk þið öll sem lituð inn til pabba og hugsuðuð til hans.
Góða ferð, góða nótt.
Þín
Halla.
Geturðu sofið um sumarnætur?
– senn kemur brosandi dagur.–
Hitnar þér ekki um hjartarætur,
hve heimur vor er fagur?
Áttu ekki þessar unaðsnætur,
erindi við þig forðum?
- Margt gerist fagurt, er moldin og döggin
mælast við töfraorðum.
Finnurðu hvað það er broslegt að bogna
og barnalegt að hræðast,
er ljósmóður hendur himins og jarðar
hjálpa lífinu að fæðast.
Er ekki gaman að eiga þess kost
að orka þar nokkru í haginn,
og mega svo rólegur kveðja að kvöldi
með kærri þökk fyrir daginn?
(Sr. Sig. Einarsson í Holti)
Góða ferð, pabbi minn, og hafðu hjartans þökk fyrir samfylgdina.
Una Þórey.
Það er eins og þú hafir valið þér sjálfur þennan dag til að kveðja okkur.
Sauðburði að ljúka, sláttur hafinn, krakkarnir komnir í sumarfrí úr vetrargeymslunni.
Sumrin voru alltaf minn uppáhaldstími. Þá pakkaði ég niður í tösku, oft áður en skólinn kláraðist alveg, og tók rútuna norður í Varmahlíð.
Þar beiðstu eftir mér. Skælbrosandi kall, með nefið fullt af tóbaki og súkkulaðirúsínur í hanskahólfinu.
Á Melum var lífið frekar einfalt. Ég, þú og kisi. Dagarnir fóru oftar en ekki í að slá í kringum bæinn, planta trjám, hreyfa hesta, eða bara liggja úti í grasi með tærnar upp í loftið, því stundum var of gott veður til að vinna.
Eldhúsið var mín tilraunastofa og sama hvað kom út úr þeim tilraunum þá borðaðirðu allt með góðri lyst. Hnausþykkar pönnukökur og alltof sterkt kaffi í sósuhristara (því ég fann ekki kaffibrúsa) voru það allra besta sem þú hafðir fengið.
Fyrirmyndareldamennska sem launuð var með ís yfir fréttunum um kvöldið.
Við ræddum um allt. Þú varst minn trúnaðarvinur. Sama hvað ég var reið við heiminn, hvaða viðskiptavinir höfðu verið leiðinlegir í vinnunni, hvað fólkið í kringum mig skildi mig ekki þegar ég var 15 ára og vissi allt best, þá varstu til staðar og hlustaðir. Þegar reiðilestrinum lauk og tárin komu í augun þá vissir þú alltaf nákvæmlega hvað ég þurfti að heyra.
Þú kenndir mér að standa í eigin fætur og vera sjálfbjarga. Orðin „Það bjargar þér enginn ef þú reynir ekki að bjarga þér sjálf“ eru þau orð sem við afkomendur þínir erum með greypt í huga.
Fyrst um sinn skildi ég aldrei hvað þú meintir með þessu. Smám saman lærðist það þó að reyna alltaf að finna lausn á málinu áður en maður leitar aðstoðar. Að vera sjálfbjarga.
Þú varst alltaf vinmargur. Kvöld eftir kvöld komu karlarnir í sveitinni í heimsókn til að ræða um allt á milli himins og jarðar. Stundum var eins og eldhúsborðið á Melum væri aðalfélagsmiðstöðin í sveitinni. Ef mönnum var heitt í hamsi var stundum eins og það kæmi púki í þig. Þá áttir þú til að glotta út í eitt og segja eitthvað sem æsti karlana við eldhúsborðið svo mikið að húsið skalf þegar lamið var í borðið með steyttum hnefanum.
Það voru mín forréttindi að fá að alast upp á sumrin í sveitinni hjá þér. Þú kenndir mér svo ótrúlega margt og ég vil meina að samveran hafi gert mig að aðeins betri manneskju, rétt eins og þú gerðir heiminn að svo margfalt betri stað. Það er enginn fullkominn, það sagðirðu oft, en það er til gott fólk í þessum heimi og þú varst einn af þeim betri. Ég sakna þín ótrúlega mikið en ríkjandi í hjarta mínu er þakklæti fyrir allt sem þú varst og gafst af þér.
Sá sem plantar garði er sá sem hefur trú á morgundeginum og framtíðinni. Þú plantaðir mörg þúsund plöntum og skildir eftir þig heilan skóg.
Þín
Sólveig.
Það var dásamlegt að eiga annað heimili hjá afa og ömmu á Skúfsstöðum, ævintýrin með frændsystkinum, vinnan og gleðin sem við fengum að kynnast.
Fara með kýrnar, reiðtúr á kvöldin með mjólkurkexi og djús á eftir, Royal-búðingur og heimagerður ísinn hennar ömmu sem náði nú ekki alltaf í frystinn áður en kátir krakkar fengu að gæða sér á. Dagamunurinn þegar við klæddum okkur upp á til að fara á Krókinn og við Halla fengum stundum að kaupa smá nammi sem við seldum svo þeim eldri í litlu sjoppunni okkar innan um reiðtygin.
Alltaf var nóg að gera í sveitinni og þú tókst mikinn þátt í lífinu í kring. Þú varst alltaf vinnandi og með skýr fyrirmæli. Ákveðnin skein úr augnaráðinu en þó var stutt í glettnina. Naust þess að fá vini í heimsókn og ræða pólitík og landsmálin.
Mér er minnisstætt þegar ég var í ökukennslu og tók þessa fínu beygju að kennarinn horfði á mig og sagði að þetta hefði nú verið meiri hreppstjórabeygjan. Þetta var ég ánægð að heyra, brosti og hugsaði með stolti til þín, elsku afi – ég man þær stundir að oddvitinn kom í heimsókn til hreppstjórans á Skúfsstöðum. Þið voruð flottir karlarnir í sveitinni og mynduðuð gott samfélag í fallegri sveit sem mér þykir vænt um að koma í, þó nú verði stoppin á Melum öðruvísi. Þar varstu búinn að gera svo fallegan sælureit sem við nutum að heimsækja – í skóginn þinn með friðsæld og fuglalífi, hestunum rétt fyrir utan gluggann og sýn yfir dalinn þinn.
Ég kveð þig nú, elsku afi, með kveðju til ömmu frá ömmustelpu.
Ykkar
Erla.
Ég minnist þess ekki að hafa fengið mikla leiðsögn frá afa enda voru iðulega eldri frændsystkini á svæðinu sem ég gat lært af og svo þurfti bara að prófa sig áfram. Eitt sinn gerði ég athugasemd við að það var engin veltigrind á dráttarvélinni sem ég fékk að vinna á. Svörin sem ég fékk frá afa voru einföld: „Hugrún mín, dráttarvélar eru ekki til að velta þeim.“ Þar með var það útrætt, ég vissi hvað ég átti ekki að gera og fann útúr hinu.
Eftir að amma og afi hættu búskap og ég orðin eldri kynntist ég afa á annan hátt. Það var ennþá jafngaman að koma til hans þó ég væri ekki komin til að reyna að gera eitthvert gagn heldur bara í heimsókn. Afi sýndi mér afrakstur skógræktarinnar, keyrði mig um landið sitt og benti ánægður á það sem var komið upp og óx. Það var gaman að spjalla við afa. Hann var víðsýnn, fylgdist vel með málefnum líðandi stundar og var sérlega áhugasamur um hverskyns verklegar framkvæmdir.
Ég kveð góðan afa og þakka samfylgdina.
Hugrún Ösp
Reynisdóttir.
Heim þó annað sæki svið,
sál um leiðir kunnar,
mun hún áfram finna frið,
í faðmi náttúrunnar.
Öllu lífi ætíð trú,
auðgar hugi manna,
því milli heima byggir brú,
bjarmi minninganna.
Þar mun skína glettni, glóð,
og gæska yfir lendum,
því ötull lagði í þann sjóð,
öllum vegfarendum.
Öðrum heimi anda fel,
sem unir nú í valnum,
þann er gerði gráan Mel,
að gróðurvin í Dalnum.
Og kannski vökul sálin sé,
við sól í grænum haga,
lifandi í litlu tré,
með langa ævidaga.
Eftir brautum eilífðar
ef við glöggvast rýnum,
með stofninn trausta stendur þar,
stolt af greinum sínum.
Kveðjustund þó teljist treg,
og tárum kunni að skarta,
þræðum gleði- og þrautaveg,
með þakklæti í hjarta.
(Einar Kolbeinsson)
Hvíl í friði, elsku frændi, og takk fyrir allt og allt.
Freyja Ólafsdóttir
og Einar Kolbeinsson.
Kynni okkar hófust fyrir rúmum 30 árum, er ég hóf störf við Hólaskóla í Hjaltadal. Kona Sigurðar, Hulda Njálsdóttir, vann þá í mötuneyti skólans. Hún var dugnaðarforkur og báru störf hennar þess glöggt merki. Því miður lést Hulda skömmu eftir að þau hjón fluttu frá Skúfsstöðum að nýbýlinu Melum. Þar hugðust þau hefja nýtt líf og stunda skógrækt með börnunum sínum og öðrum afkomendum. Nú hefur góðum skógi verið plantað á Melum og munu afkomendur þeirra hjóna fá að njóta þessa starfs um ókomna tíð.
Gagnkvæm vinátta og traust milli okkar Sigurðar skapaðist er ég kom inn í stjórn Sparisjóðs Hólahrepps þar sem hann var stjórnarformaður. Sparisjóðurinn var lítil stofnun en með nær aldargamla sögu. Sjóðurinn hafði lánað fé til ýmissa góðra mála og var vel haldið utan um öll mál hans. Um síðustu aldamót var sótt að sjóðnum, hann var talinn of lítill til að geta verið sjálfstæð stofnun. Reksturinn var samt góður og gat hann alltaf greitt arð til stofnfjáreigenda sinna. Í því fjármálaöngþveiti sem varð upp úr aldamótunum voru margir sparisjóðir hlutafjárvæddir sem þýddi auknar kröfur um meiri arðgreiðslur til handa eigendum sjóðanna. Gegn þessum hugmyndum stóð meirihluti stjórnar með Sigurð í fararbroddi, en við vildum fara hægar í sakirnar og byggja sjóðinn hægt og örugglega upp. Það fór þó svo að peningaöflin í Skagafirði náðu yfirhöndinni með yfirboðum á stofnfé sjóðsins. Á aðalfundi sjóðsins á vordögum 2004 lét Sigurður af störfum sem stjórnarformaður og var það líka í síðasta sinn sem sjóðurinn gat greitt arð. Eftir það hófst ferill sem lauk með því að sjóðurinn var innlimaður í Arion banka.
Í þessari baráttu allri stóð Sigurður gegnheill og ákveðinn. Við reyndum í lengstu lög að verja sjálfstæði sparisjóðsins en sú barátta tapaðist að lokum.
Besti ávinningur okkar var sönn vinátta, sem entist meðan Sigurðar naut við. Það var forgangsmál í heimsóknum mínum í Skagafjörð að líta inn hjá Sigurði á Melum. Mér var ávallt heilsað með hlýju ánægjubrosi. Hann var höfðingi heim að sækja og ræddum við ýmis mál yfir kaffibolla og tertusneið.
Að leiðarlokum vil ég þakka Sigurði fyrir mjög góð kynni. Ég votta börnum hans og fjölskyldum þeirra mína innilegustu samúð.
Valgeir Bjarnason.
Þessi saga er lýsandi fyrir vináttu og velvild sem ég mun aldrei gleyma.
Þegar við Jón Björn bjuggum á Róðhóli tókum við oft að okkur börn til sumardvalar og var þá barnmargt heimilið þegar þau bættust við okkar eigin börn. Þannig var það þegar hjónin á Skúfsstöðum, Siggi og Hulda, komu í heimsókn til okkar snemma sumars. Stór barnahópur sat við matarborðið á Róðhóli og fékk sína síðdegishressingu. Sá ég að Hulda mín gaf mjólkurfernunum á borðinu auga þar sem þær tæmdust hver af annarri í barnaskarann svo sem eðlilegt var.
Skömmu síðar komu Skúfsstaðahjónin aftur í heimsókn og nú með nýlega borna kú ásamt kálfi. Um kvöldið skilaði kýrin um 9 mjólkurlítrum til barnanna á heimilinu. Þessi gjöfula kýr, hvít með svartar granir og eyru og ég kallaði alltaf elskuna mína, tók flutninginn ekki nær sér en það.
Kúna og kálfinn máttum við hafa til hausts. Kýrin mjólkaði vel í barnahópinn um sumarið og kálfurinn var börnunum til leiks og yndis.
Í september var lánsfengnum skilað með miklu þakklæti. Síðar um haustið skruppum við Jón Björn í Laufskálaréttir. Hittum við Sigga á réttinni og auðvitað litum við til Huldu heima á Skúfsstöðum og fengum þar kaffi.
Af hlaðinu sé ég elskuna mína langt úti á túni í sinni stóru kúahjörð. Ég kallaði hátt: „Ertu þarna, elskan mín?“ Kýrin þekkti röddina mína og kom heim með alla kúastrolluna á eftir sér.
Þá kallaði Hulda til mín: „Ertu brjáluð kona, að kalla kýrnar heim á miðjum degi!“
Við hlógum dátt – engin orð en öllum hlýtt í hjarta.
Takk fyrir allt, kæru vinir!
Jóhanna
frá Róðhóli.