Samvinna Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, með sínu fólki að pakka saman sjúkratjaldi. Öllu þarf að koma haganlega fyrir svo að sem mest af nauðsynlegum búnaði komist í kerrurnar góðu.
Samvinna Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, með sínu fólki að pakka saman sjúkratjaldi. Öllu þarf að koma haganlega fyrir svo að sem mest af nauðsynlegum búnaði komist í kerrurnar góðu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björgunarsveitir eru betur settar með nýjum hópslysakerrum. Risastórt tjald, sjúkrabörur og ullarteppi eru í hverjum pakka sem er gjöf frá Isavia. Umferðarslys sem fylgja fjölgun ferðamanna eru oft viðfangsefni björgunarfólks.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Slysin verða oft í dreifbýlinu og þar þarf góð tæki, ekki síst á svæðum þar sem langt er í aðrar bjargir og búnað. Við lögðumst í greiningarvinnu og fundum út á hvaða stöðum þessum búnaði væri best fyrir komið. Þar höfðum við meðal annars í huga slys sem tengja má ferðalögum fólks um landið. Þar á oft í hlut fólk sem er alls óvant ferðalögum, til dæmis í misjöfnum veðrum og á vondum vegum þar sem eru einbreiðar brýr,“ segir Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Sameiginlegt verkefni

Í fyrri viku afhentu fulltrúar Isavia Slysavarnafélaginu Landsbjörg níu hópslysakerrur sem eru afrakstur sameiginlegs verkefnis styrktarsjóðs Isavia og björgunarsveitanna. Í hverri kerru eru meðal annars 18 sjúkrabörur, 35 fermetra tjald, rafstöð, ljósabúnaður, loftdæla, hitablásari og 30 ullarteppi. Björgunarsveitirnar sem fengu kerrurnar eru í Ólafsvík, á Patreksfirði, Hólmavík, Hvammstanga, í Varmahlíð, á Djúpavogi, í Vík í Mýrdal og á Flúðum. Áður voru kerrur farnar til björgunarsveitanna á Ísafirði, í Mývatnssveit og Öræfasveit. Frá árinu 2011 hefur Isavia lagt fram samtals 76 milljónir til að efla viðbúnað vegna hópslysa; fyrst á flugvöllum en nú er horft til þess að styrkja viðbrögð á fjölförnum ferðamannastöðum.

Um síðustu helgi mættu forsvarsmenn björgunarsveitanna svo suður til Reykjavíkur og sóttu kerrurnar, hlaðnar búnaði sem er afar handhægur í notkun. Sjúkrabörurnar eru léttar og aðeins skamma stund tekur að blása tjöldin upp með dælum. Við taka nú æfingar björgunarsveitafólks þar sem fólk nemur handtökin við til dæmis að koma tjöldunum upp.

Breyttur áhættustuðull

„Upphafleg áætlun í samstarfinu við Isavia var að fyrirtækið legði okkur til þrjár kerrur á ári í þrjú ár. Við byrjuðum í fyrra en svo fljótt sannaðist ágæti þessara tækja að ákveðið var að flýta afhendingu og ljúka henni í ár. Það skiptir auðvitað miklu þegar slys og óhöpp verða að hægt sé að koma upp góðri aðstöðu í snatri þar sem hægt er að hlúa að fólki og veita skjól uns aðrar bjargir og búnaður berst,“ segir Smári og heldur áfram:

„Í þessu sambandi get ég til dæmis nefnt rútuslysin sem orðið hafa á síðustu árum. Og ef við búum um til áhættustuðul eða færum það í líkindareikning hvort fólk komist heilt heim þá hafa til dæmis eldgos og eimyrja fallið niður áhættulistann; svo vel er allt vaktað af vísindamönnum. Hins vegar hefur umferðin þotið upp listann. Það vegur auðvitað þungt þegar 20.000 bílaleigubílar eru í umferð og í hverri viku á ferðinni kannski 15.000-18.000 ökumenn sem eru að taka sína frumraun á íslensku vegunum.“

Á vettvang slysa og vár

Smári Sigurðsson telur að náðst hafi ágætur millivegur í þeirri aðstoð sem björgunarsveitirnar veita þegar ferðamenn lenda í ógöngum. Fyrst eftir að túristum sem til landsins koma fór verulega að fjölga árið 2010 fóru liðsmenn sveitanna oft á vettvang til dæmis ef ökumenn festu smábíla í ám, ef þeir biluðu og svo framvegis. Nú hefur verið tekið fyrir þetta og verkefnunum beint til þjónustufyrirtækja. Björgunarsveitirnar fara hins vegar á vettvang þegar og ef fólk er slasað eða í hættu, ellegar aðrir bjargir bjóðast ekki. „Fyrst og síðast miðast starf okkar við að koma fólki til aðstoðar ef vá steðjar að eða slys verða. Í því tilliti koma hópslysakerrurnar frá Isavia sér afar vel,“ segir Smári að síðustu.