Í niðurstöðum skýrslu um tjón útflytjenda í viðskiptum sínum við erlenda aðila kemur fram að rétt rúmlega helmingur liðlega 40 fyrirtækja sem svöruðu spurningalista Íslandsstofu hefur lent í einhvers konar svikum eða vanefndum í útflutningsstarfsemi sinni. Tiltölulega fá dæmi eru þó um svik en oftast var um vanefndir að ræða tengdar gjaldþrotum viðskiptavina.
Bent er á það í skýrslunni að engin stofnun hér á landi hafi það verkefni að greiðslutryggja útflutning. Ísak Kári Kárason, höfundur skýrslunnar, segir þetta koma á óvart, sé litið til annarra norrænna landa til samanburðar. „Öll hin norrænu löndin eru með risastórar stofnanir með allt að hundrað starfsmenn sem sjá um að greiðslutryggja sína útflytjendur. Þetta gefur þeim ákveðið forskot. Það er þó til starfsemi sem heitir Tryggingadeild útflutnings, sem á að vera starfandi stofnun, en hefur ekki verið virk um árabil. Hún hvarf í rauninni bara.“
Lítil vitneskja um kostnað
Í annarri skýrslu sem Íslandsstofa gaf út samhliða hinni kemur fram að fyrirtæki í útflutningi hafi litla vitneskju um kostnað sem fylgir millifærslum til erlendra viðskiptavina.Aðspurður af hverju ráðist var í gerð þessara skýrslna segir Ingólfur Sveinsson, fjármálastjóri Íslandsstofu, að stofnunin hafi fundið það á eigin skinni að millifærslukostnaður geti verið óvenju hár. „Kostnaður við að borga erlenda reikninga getur verið mjög hár. Maður getur t.d. þurft að borga 30 dollara í kostnað við reikning sem hljóðaði einungis upp á 100 dollara.“
Í skýrslunni kemur fram að banka- og millifærslukostnaður útflutningsfyrirtækja er að meðaltali í kringum 0,1% af heildarveltu. Sá fyrirvari er þó settur í skýrsluna að einungis sjö fyrirtæki svöruðu spurningalista Íslandsstofu um millifærslukostnað sinn. Ingólfur segir helstu skýringuna fyrir því vera þá, að fyrirtækin séu almennt ekki nógu meðvituð um þennan kostnað og að sum þeirra líti á þennan kostnað sem sjálfsagðan hlut sem fylgdi því að starfa í útflutningsstarfsemi.
Íslandsstofa komst einnig að þeirri niðurstöðu að fjártækni væri lítið notuð af íslenskum fyrirtækjum við millifærslur. Fjártæknin er þó líkleg til að ryðja sér til rúms á næstu árum með komu PSD2-löggjafarinnar, sem mun gera þriðja aðila kleift að fá aðgang að upplýsingum viðskiptavina bankanna, með þeirra samþykki.