Skák Norðurlandameistarinn Jóhann Hjartarson hugsi yfir næsta leik á Reykjavik Open fyrr á þessu ári. Hann verður í liðinu á mótinu í Batumi.
Skák Norðurlandameistarinn Jóhann Hjartarson hugsi yfir næsta leik á Reykjavik Open fyrr á þessu ári. Hann verður í liðinu á mótinu í Batumi. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is „Já, þetta er óneitanlega glæsileg sveit.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

„Já, þetta er óneitanlega glæsileg sveit. Það er gaman að geta sent okkar besta lið út og ég veit að þeir gera sitt besta til að ná góðum árangri,“ segir Gunnar Björnsson, forseti Skáksambands Íslands, sem í fyrsta sinn í meira en tvo áratugi sendir eingöngu stórmeistara á ólympíumótið í skák. Mótið fer fram við strendur Svartahafsins, í Batumi í Georgíu, dagana 24. september til 5. október. Helgi Áss Grétarsson, sem varð Íslandsmeistari í skák fyrir skemmstu, teflir á sínu fyrsta ólympíuskákmóti í 16 ár. Jóhann Hjartarson gefur kost á sér en þrátt fyrir að vera ekki atvinnuskákmaður hefur Jóhann teflt töluvert síðustu misseri og er núverandi Norðurlandameistari í skák.

Auk þeirra eru atvinnuskákmennirnir Héðinn Steingrímsson, Hjörvar Steinn Grétarsson og Hannes Hlífar Stefánsson í liðinu, sem telur fimm manns. Liðsstjóri verður sjötti stórmeistarinn, Helgi Ólafsson, skólastjóri Skákskólans, sem jafnframt valdi liðið.

Gunnar segir að Helgi verði með landsliðsæfingar í sumar og haust en allir skákmennirnir muni halda sér í formi með þátttöku á skákmótum erlendis næstu vikurnar.

Íslenska kvennalandsliðið á mótinu var tilkynnt á þriðjudaginn, kvennadaginn 19. júní sl. Það skipa eftirtaldar: Lenka Ptácníková, Guðlaug Þorsteinsdóttir, Nansý Davíðsdóttir, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Sigurlaug R. Friðþjófsdóttir. Nansý, sem er 16 ára, er að tefla á sínu fyrsta ólympíuskákmóti. Allar hinar eru hins vegar þrautreyndar landsliðskonur. Liðsstjóri verður FIDE-meistarinn Björn Ívar Karlsson.

Íslendingar tóku fyrst þátt í þriðja ólympíuskákmótinu, sem haldið var í Hamborg 1930. Íslenskir skákmenn höfðu þá ekki áður teflt á alþjóðlegu móti. Sveitin var skipuð Eggert Gilfer, Ásmundi Ásgeirssyni, Einari Þorvaldssyni og Jóni Guðmundssyni. Hún lenti í 15. sæti af 18.