Löglegt Kanadískur kannabisunnandi fagnar án vafa nýrri löggjöf.
Löglegt Kanadískur kannabisunnandi fagnar án vafa nýrri löggjöf. — AFP
Axel Helgi Ívarsson axel@mbl.is Kanadíska þingið hefur samþykkt lög um lögleiðingu á neyslu kannabis í landinu. Voru hin svokölluðu kannabislög samþykkt í öldungadeild kanadíska þingsins með 52 atkvæðum á móti 29.

Axel Helgi Ívarsson

axel@mbl.is

Kanadíska þingið hefur samþykkt lög um lögleiðingu á neyslu kannabis í landinu. Voru hin svokölluðu kannabislög samþykkt í öldungadeild kanadíska þingsins með 52 atkvæðum á móti 29. Lögin hafa verið rædd lengi og tekið breytingum samhliða því, en notkun á kannabis hefur verið lögleg í læknisfræðilegum tilgangi í Kanada frá 2001.

Úrúgvæ fyrst til að lögleiða

Kanada er annað landið til þess að lögleiða kannabis í öðrum en læknisfræðilegum tilgangi. Úrúgvæ var fyrsta landið til þess að leyfa almenna notkun á kannabis árið 2013 og þá hafa níu ríki í Bandaríkjunum gert slíkt hið sama.

Lagasetningin uppfyllir kosningaloforð Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, frá 2015. Trudeau færði rök fyrir því að tæplega aldargömul löggjöf sem refsaði kannabisneytendum væri gagnslaus í ljósi þess að Kanadabúar væru einir mestu kannabisneytendur á heimsvísu.

Reiknað er með því að lögin taki gildi í september. Hver einstaklingur sem hefur náð lögaldri mun þá mega hafa allt að 30 grömm af kannabis í fórum sínum. Einnig verður heimilt að rækta allt að fjórar kannabisplöntur á hverju heimili. Ári 2015 var áætlað að Kanadabúar eyddu að virði um sex milljarða Kanadadollara í kaup á kannabis, sem er nánast jafnmikið og þeir eyddu í vín, segir í frétt BBC .