Leikstjóri Álfheiði langaði alltaf að verða leikkona þegar hún var yngri en seinna kviknaði áhugi á leikstjórn.
Leikstjóri Álfheiði langaði alltaf að verða leikkona þegar hún var yngri en seinna kviknaði áhugi á leikstjórn. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.is „Mig langar að gera skemmtilegar auglýsingar og frábrugðnar því sem allir eru vanir,“ segir hin 25 ára Álfheiður Marta Kjartansdóttir, nýráðinn leikstjóri hjá Sagafilm.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

„Mig langar að gera skemmtilegar auglýsingar og frábrugðnar því sem allir eru vanir,“ segir hin 25 ára Álfheiður Marta Kjartansdóttir, nýráðinn leikstjóri hjá Sagafilm. Hún hefur unnið í framleiðslu hjá fyrirtækinu í rúm tvö ár. Draumurinn rættist þegar Álfheiði var boðin staða auglýsingaleikstjóra á dögunum hjá Sagafilm, þrátt fyrir ungan aldur.

Áhugi Álfheiðar á leikstjórn kviknaði eftir að hún fór í stutt leiklistarnám í Danmörku. ,,Ég ætlaði alltaf að vera leikkona þegar ég var yngri, það var alltaf málið, en á seinni árum langaði mig í leikstjórn. Í leiklistarnáminu var alltaf sagt við mig að ég væri meiri leikstjóri en leikkona.“

Álfheiður hefur farið mikinn í leikstjórn á undanförnum tveimur árum og tekið að sér ýmis verkefni. „Ég var að vinna hjá Sagafilm og samhliða vinnunni byrjaði ég að leikstýra í mínum eigin tíma. Ég leikstýrði fyrst myndbandi fyrir Reykjavíkurdætur, sem var áhugaverkefni en ég hafði verið að taka mikið að mér utan vinnu.“ Þá leikstýrði hún verkefninu Huguð, á vegum geðfræðslufélagsins Hugrúnar í HÍ. Átaksverkefnið hlaut verðskuldaða athygli fyrr á árinu og var t.a.m. tilnefnt til samfélagsverðlauna Fréttablaðsins.

Á mánudag var frumsýnt tónlistarmyndband í leikstjórn Álfheiðar við lagið Hlaupa hratt með Rari boys. Spurð hvort hún muni leikstýra fleiri tónlistarmyndböndum á næstunni segist Álfheiður munu einbeita sér að auglýsingaleikstjórn. „Tónlistarmyndbönd eru góður vettvangur til að koma sér á framfæri en ég er að byrja sem auglýsingaleikstjóri. Mér finnst mikilvægt að ungt fólk fái að spreyta sig á þessum vettvangi, að fá ferskan andblæ í auglýsingagerð á Íslandi.“

Álfheiður segist hafa áhuga á að leikstýra fræðsluefni og hafa áhrif á fólk í gegnum myndbandsefni: „Í rauninni finnst mér bara ótrúlega gaman að mismunandi fólki og að segja sögur af fólki. Það er líka bara gaman að gera eitthvað fallegt úr einhverju hversdagslegu. Fólk er tilbúið að hlusta á allt ef maður býr til eitthvað fallegt í leiðinni.“ Spurð hvað sé fram undan segir Álfheiður: „Auðvitað langar mann að gera sem mesta og stærsta hluti. Ég er mjög spennt fyrir næstu mánuðum og árum.“