Stóra lexían af öllu framangreindu er hins vegar kannski sú að samkeppnisreglur eru mjög matskenndar, niðurstöður samkeppnismála og þær forsendur sem þær byggjast á er of erfitt að sjá fyrir og rekstur samkeppnismála tekur of langan tíma

Þann 16. maí sl. féll dómur í máli Samkeppniseftirlitsins gegn Byko ehf. og Norvik hf. Niðurstaðan og sú meðferð sem málið hefur fengið hjá stjórnvöldum og dómstólum er athygli verð.

Málið varðar ólögmætt samráð milli Byko annars vegar og Húsasmiðjunnar hins vegar varðandi ýmsar byggingavörur. Málið rekur upphaf sitt til ársins 2010 þegar Samkeppniseftirlitið hóf rannsókn sína. Samhliða voru nokkrir starfsmenn fyrirtækjanna kærðir til lögreglu og síðar ákærðir fyrir refsiverða aðild að samkeppnisbrotum.

Í sakamálinu varð niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness sú, með dómi frá 9. apríl 2015, að sýkna alla ákærðu nema einn. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 360/2015, sem upp var kveðinn 1. desember 2016, voru hins vegar allir ákærðu sakfelldir nema tveir. Lagði Hæstiréttur til grundvallar mun rýmri túlkun á refsiákvæði samkeppnislaga en héraðsdómur og eru forsendur dómsins um margt umhugsunarverðar. Er þetta eina sakamálið vegna samkeppnisbrota sem undirrituðum er kunnugt um að dæmt hafi verið í á Norðurlöndum.

Samkeppniseftirlitið tók ákvörðun í máli Byko og Norvik þann 15. maí 2015. Komist var að niðurstöðu um margvísleg brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og lögð var á stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 650 milljónir. Málinu var skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp úrskurð í því þann 28. september 2015. Niðurstöður Samkeppniseftirlitsins um brot voru að mestu leyti staðfestar en álögð stjórnvaldssekt var lækkuð í kr. 65 milljónir, m.a. með þeim rökum að umrædd brot væru hvorki jafn umfangsmikil né alvarleg og Samkeppniseftirlitið hafði talið og að álögð sekt væri úr hófi há.

10. febrúar 2016 höfðaði Samkeppniseftirlitið mál gegn Byko og Norvik og krafðist hækkunar álagðrar stjórnvaldssektar að nýju í kr. 650 milljónir. Byggði Samkeppniseftirlitið þar á sérstakri heimild sinni í 41. gr. samkeppnislaga til að geta höfðað mál um ógildingu eða breytingu á niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem er hið æðra stjórnvald á því sviði. Eru heimildir stjórnvalda til slíkra málshöfðana sjaldséðar í íslenskum rétti. Byko og Norvik höfðuðu gagnsök og kröfðust ógildingar úrskurðar áfrýjunarnefndar.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur voru niðurstöður áfrýjunarnefndar samkeppnismála um brot Byko og Norvik staðfestar. Hin álagða stjórnvaldssekt var hins vegar hækkuð úr kr. 65 milljónum í kr. 400 milljónir með hliðsjón af niðurstöðu dómsins um brot, brotatímabil (sem að mestu var samhljóða niðurstöðu áfrýjunarnefndar) og alvarleika brota (sem að mati héraðsdóms var augljóslega allt annars konar en áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði talið). Síðan segir í dóminum: „Hér hefur helst þýðingu að um alvarlegt brot var að ræða á markaði milli markaðsráðandi fyrirtækja...“

Þessi síðastnefnda forsenda héraðsdóms kemur mjög á óvart þar sem þetta mál snýst ekki um ætlaða háttsemi markaðsráðandi fyrirtækja og markaðsráðandi stöðu Byko og/eða Húsasmiðjunnar er hvergi slegið fastri í úrlausnum samkeppnisyfirvalda. Stóra lexían af öllu framangreindu er hins vegar kannski sú að samkeppnisreglur eru mjög matskenndar, niðurstöður samkeppnismála og þær forsendur sem þær byggjast á er of erfitt að sjá fyrir og rekstur samkeppnismála tekur of langan tíma.