Sósíalistinn Ortega bælir niður andóf af fullri hörku

Um 170 manns hafa látist í Níkaragva á síðustu vikum í mótmælum gegn ríkisstjórn Daniels Ortega, fyrrverandi leiðtoga sandínista. Ortega hefur nú stýrt Níkaragva í rúman áratug og hefur á þeim tíma innleitt ýmsar sósíalískar umbreytingar með fyrirsjáanlegum afleiðingum.

Mótmælaaldan hófst þegar mótmæli gegn lækkun ellilífeyris voru leyst upp með fantalegu ofbeldi, en Ortega hefur, líkt og chavistarnir í Venesúela, komið sér upp vopnuðum hópum svartklæddra huldumanna til að lumbra á pólitískum andstæðingum. Að þessu sinni dugði ofbeldið þó ekki til þess að kveða niður óánægju almennings, en varð sem olía á eldinn.

Krafa mótmælenda er að Ortega víki sem fyrst, en hann er ekki líklegur til þess og hefur látið breyta stjórnarskrá landsins svo að hann geti setið sem forseti eins lengi og honum þóknast.

Allar tilraunir til þess að koma á ró á ný hafa farið út um þúfur. Nú síðast gafst kaþólska kirkjan í Níkaragva upp á sáttaferli og samtök Ameríkuríkja hafa einnig reynt að skakka leikinn en án árangurs. Það stefnir því allt í ofbeldisfullt uppgjör við stjórnarstefnu Daniels Ortega og líklegt að ástandið eigi eftir að versna enn.