[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Volgograd Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Í síðari heimsstyrjöldinni hafði fimm mánaða löng orrusta um Stalíngrad gríðarleg áhrif á þróun mála í þeim hildarleik.

Í Volgograd

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Í síðari heimsstyrjöldinni hafði fimm mánaða löng orrusta um Stalíngrad gríðarleg áhrif á þróun mála í þeim hildarleik. Ekki ætla ég að fara út í frekari söguskýringu á þeim nótum en nú er íslenska karlalandsliðið í fótbolta komið til Stalíngrad, sem í dag heitir reyndar Volgograd, og býr sig undir hörð átök þó að þau séu af öðrum og heilbrigðari toga.

Í Volgograd verður mikil orrusta háð á morgun, þó aðeins í 90 mínútur, þar sem nánast allt er í húfi, en sigurliðið í slag Íslands og Nígeríu kemst í vænlega stöðu í baráttunni um sæti í sextán liða úrslitum. Sá aðili sem bíður lægri hlut er í verri málum, sérstaklega Nígeríumennirnir, sem eru endanlega úr leik ef þeir tapa.

Íslenska liðið kom til Volgograd síðdegis í gær og æfir á leikvanginum í dag, þar sem það fær að kynnast aðstæðum. Hér er heitara en í Kabardinka við Svartahafið, flugur sem áreita menn og skepnur, og spáð er 34 stiga hita og sól á meðan leikurinn stendur yfir á morgun, þó að hann hefjist klukkan 18 að staðartíma og sú gula verði aðeins farin að lækka á lofti.

Kabardinka kemur til góða

Við slíkar aðstæður munu Heimir Hallgrímsson og lærisveinar hans njóta þess að hafa æft og dvalið í sól og hita í Kabardinka við Svartahaf frá því þeir komu til Rússlands 9. júní, að undanskildum svalari dögum í Moskvu þegar þeir gerðu jafnteflið frækilega við Argentínu á laugardag.

Íslenska liðið fékk góðan tíma til hvíldar og slökunar eftir að það kom aftur til Kabardinka á laugardagskvöldið, en óvenjulangt er á milli tveggja fyrstu leikjanna, heilir sex sólarhringar. Styttra verður á milli næstu tveggja leikja því að lokaumferðin er leikin á þriðjudaginn kemur þegar Ísland mætir Króatíu.

Helgi Kolviðsson aðstoðarlandsliðsþjálfari sagði á fréttamannafundi í gær að leikurinn gegn Gana á Laugardalsvellinum 7. júní hefði hjálpað liðinu umtalsvert í undirbúningnum fyrir Nígeríuleikinn, enda nýtt fyrir íslenska liðið að mæta Afríkuþjóð. „Við lærðum mikið af þeirri reynslu sem við fengum út úr þeim leik,“ sagði Helgi.

Hann kvaðst ekki hafa teljandi áhyggjur af hitanum og flugunum í Volgograd, það væri nokkuð sem bæði lið þyrftu að glíma við. Helgi staðfesti jafnframt að Jóhann Berg Guðmundsson væri áfram tæpur vegna meiðslanna sem hann varð fyrir gegn Argentínu og óvíst væri hvort hann yrði leikfær á morgun.