Vanræksla Við gerð The Hobbit: An Unexpected Journey drápust 27 dýr vegna vanrækslu, þ.á m. geitur og hestar.
Vanræksla Við gerð The Hobbit: An Unexpected Journey drápust 27 dýr vegna vanrækslu, þ.á m. geitur og hestar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég gat því ekki annað en kafað ofan í það hvort slíkt sé siðferðilega rétt, enda nokkuð augljóst að þegar tökum er lokið fara dýrin ekki upp í svítu eins og aðrar kvikmyndastjörnur og skála í kampavíni – heldur fara þau oftast beinustu leið inn í búr þar sem þeim er haldið nær alla sína ævi.

Af kvikmyndum

Davíð Már Stefánsson

stefanssondavidmar@gmail.com

Dýr eru yndisleg. Það verður ekki dregið í efa. Það er yndislegt að umgangast þau, fylgjast með þeim og læra af þeim. Bandarískur leikstjóri bað mig hins vegar nýlega að skrifa kvikmyndahandrit þar sem elsku dýrin spila stóra rullu. Ég gat því ekki annað en kafað ofan í það hvort slíkt sé siðferðilega rétt, enda nokkuð augljóst að þegar tökum er lokið fara dýrin ekki upp í svítu eins og aðrar kvikmyndastjörnur og skála í kampavíni – heldur fara þau oftast beinustu leið inn í búr þar sem þeim er haldið nær alla sína ævi. Kenna mátti ýmissa grasa um leið og stækkunarglerið var tekið upp.

Tígrisdýri næstum drekkt

Til að átta sig á vandamálinu þarf maður kannski að skilja að dýraníð hefur verið hluti af Hollywood allt frá fyrsta degi. Nashyrningar voru drepnir hver á fætur öðrum í gömlum Tarzan-myndum og fjölda hesta var slátrað í kúrekamyndum. Þegar vakin var athygli á því að slíkt væri nú kannski ekki alveg eðlilegt var batteríinu American Humane Association, eða AHA, hrundið af stað – en samtökin áttu, og eiga enn í dag, að sjá til þess að dýr séu óhult meðan á tökum stendur. Samtökin eru kannski þekktust fyrir að gefa stimpilinn „engin dýr voru sköðuð við framleiðslu myndarinnar“. Síðar hefur þó komið í ljós að stimpillinn er gjörsamlega þýðingarlaus, eins og flestir aðrir stimplar er varða velferð dýra, og hver skandallinn á fætur öðrum hefur komið upp. Sem dæmi má nefna kvikmyndina Life of Pi frá 2012 en tígrisdýrið sem sjá má í þeirri mynd var nær dauða en lífi við tökur myndarinnar eftir að hafa verið trekk í trekk hent út í vatnstank svo það mætti ná mynd af því á svamli. Við gerð kvikmyndar Peters Jacksons The Hobbit: An Unexpected Journey frá 2012 drápust einnig tuttugu og sjö dýr vegna vanrækslu, þar á meðal kindur, geitur og hestar. Þá má nefna Pirates of the Caribbean: The Curse of the Black Pearl sem kom út sama ár, en fjölda sjávardýra skolaði á land eftir ítrekaðar djúpsjávarsprengingar sem festar voru á filmu.

Allar þessar myndir fengu fullnægjandi stimpil frá AHA – „engin dýr voru sköðuð við framleiðslu myndarinnar“. Það er nefnilega svo, að til þess að fá stimpilinn þarf framleiðslan aðeins að standast þær kröfur að engum dýrum var vísvitandi slátrað við gerð myndarinnar og slátrunin fest á filmu. Þetta er náttúrlega gjörsamlega fáránlegt og stimpill sem er einungis gerður til að slá ryki í augu þeirra sem láta velferð dýra sig varða. Bob Ferber, sem gegndi starfi saksóknara í dýraníðsmálum í Kaliforníu í meira en áratug í kringum aldamótin, bendir einnig á að það er nær ekkert gagnsæi við gerð Hollywood-mynda og AHA gefur mjög svo takmarkaðar upplýsingar, í samráði við kvikmyndaframleiðendur, um hag dýra á setti.

Enn eitt myrka leyndarmálið í Hollywood

Bandarískar kvikmyndir eru að sjálfsögðu ekki einar um þennan viðbjóð, en sjálfur varð ég til að mynda mjög vonsvikinn þegar ég komst að því að Park Chan-wook, leikstjóri suðurkóresku myndarinnar Oldboy – sem var í miklu uppáhaldi hjá mér – lét aðalleikara myndarinnar tæta í sig fjóra lifandi kolkrabba, sem börðust fyrir lífi sínu allt fram á síðustu stundu, til þess að ná nokkrum raunverulegum skotum. Daninn Lars von Trier lét líka slátra asna í kvikmyndinni Manderlay frá árinu 2005, en sagan segir að leikaranum John C. Reilly hafi verið svo ofboðið að hann vék frá myndinni í fússi. Jean-Luc Godard slátraði líka dýrum í myndum sínum auk þess sem John Waters lét kremja hænur til dauða við gerð myndarinnar Pink Flamingos . Þá skal einnig nefna költ-myndina Cannibal Holocaust þar sem alls konar dýr voru hálshöggvin og sundurlimuð til þess eins að skemmta bíóþyrstum poppkornsætum. Svona mætti lengi telja.

Þá er einnig ljóst að farið er illa með dýr, sem þjálfuð eru til þess að „leika“ í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, á milli verkefna. Svipunni er talsvert oftar beitt en namminu og samkvæmt US Department of Agriculture eru dýraþjálfarar í skemmtanabransanum vestanhafs áminntir í gríð og erg fyrir að brjóta lög um velferð dýra þar í landi, þrátt fyrir að slík lög taki aðeins á grundvallarhlutum á borð við að sjá dýrunum fyrir næringu. Svo ég vitni aftur í téðan Ferber, þá er þetta allt saman enn eitt myrka leyndarmálið í Hollywood sem flestir vita af en fáir nenna að kanna nánar.

Eru tæknibrellur lausnin?

Vel má þó nýta kvikmyndamiðilinn til þess að auka skilning og áhuga á dýrum. Handritshöfundar Star Wars: The Last Jedi , sem kom út í fyrra, hvöttu til að mynda til dýraverndunar með ýmsu móti, meðal annars með því að láta Chewbacca neita því að borða porg, sem er eins konar fugl, þegar hann sér sams konar fugla syrgja fallinn félaga. Teiknimyndin Ferdinand , einnig frá því í fyrra, minnir okkur á að nautgripir vilja fremur þefa af blómum en verða fyrir pyntingum og ofbeldi og Shape of Water , sem vann Óskarinn í ár, hvetur okkur einnig til að virða aðrar tegundir hér á jörð.

Þá skal talað um CGI, eða tæknibrellur á góðri íslensku. Með nútímatækni er hægt að herma eftir dýrum án þess að misnota lifandi skepnur. Dýrin í Jumanji: Welcome to the Jungle , sem kom út í fyrra, eru til að mynda tölvugerð að öllu leyti og það sama má segja um apana í War for the Planet of the Apes , sem einnig kom út í fyrra. Noah , í leikstjórn Darrens Aronofskys, frá árinu 2014, styðst einnig einungis við tölvugerð dýr.

Skyldi þetta verða til þess að lifandi dýr verði ekki notuð í kvikmyndaiðnaðinum? Vonandi. Vissulega eru þessar tæknibrellur rándýrar í framleiðslu, en peningaleysi skyldi aldrei vera afsökun fyrir því að pynta nokkra lifandi skepnu sér til skemmtunar. Slík rök eru fyrir aumingja.

Hver er ábyrgð handritshöfundar?

Það er kannski fátt um svör þegar stórt er spurt, sérstaklega í ljósi þess að við erum ef til vill að stíga inn í öld þar sem tölvugerð dýr leysa af hólmi lifandi skepnur. Hins vegar skal hafa það á hreinu, að handritshöfundur – ef hann skal teljast réttum megin við siðferðislínuna – verður að ganga úr skugga um að engin dýr verði nídd við framleiðslu þeirrar myndar sem hann skrifar. Eins og drepið var á hér áður eru slík loforð frá AHA merkingarlaus með öllu og því verður hver og einn handritshöfundur að eiga það við sína samvisku í samráði við leikstjóra og framleiðendur viðkomandi verkefnis. Vel er hægt að nota raunverulegt myndefni af dýrum, sem ekki er leikstýrt eða handleikið af kvikmyndaiðnaðinum yfir höfuð, til að leggja velferð dýra lið. Heimildarmyndin Earthlings frá árinu 2005 gerir það til að mynda listilega með því að sýna raunveruleg myndskeið af dýrum sem ræktuð eru til manneldis.

Talandi um manneldi. Ég get varla klárað þennan pistil án þess að benda á tvískinnung þeirra sem kenna í brjósti um hunda, kýr, hesta, hænur og önnur dýr sem sett eru fyrir framan myndavélina – á meðan sama fólk slafrar í sig nautasteikur og gúlpar niður Hámarki á milli þess sem það jórtrar á kjúklingaleggjum. Ég er alls ekki að gagnrýna það að slíkir eintaklingar tali fyrir því að dýr á setti séu vernduð. Ef það á að velja á milli þess að vernda ákveðin dýr eða engin dýr – þá er fyrri kosturinn að sjálfsögðu sá augljósi. Þess er hins vegar óskandi að fólk líti á málið í aðeins stærra samhengi og átti sig á því að svínin sem voru notuð við gerð myndarinnar Babe frá árinu 1995 eru með nákvæmlega sama tilfinningalíf og beikonið sem þú færð þér á morgnana. Kvikmyndin Island of Lost Souls frá 1932, og hvernig henni var tekið í Bretlandi, er nokkuð dæmigert fyrir þennan pól. Kvikmyndin var bönnuð þar í landi, ekki vegna þess að við gerð kvikmyndarinnar voru lifandi dýr krufin, heldur vegna þess að krufningin var tekin upp og sýnd í kvikmyndahúsum. Sem sagt; það þótti ekkert athugavert að kvelja dýrin, það þótti einungis óviðunandi að sýna það í mynd.

Ef þú verður vitni að misnotkun á dýrum, tilkynntu það þá til viðeigandi yfirvalda. Vonandi fara þau að gera eitthvað í því ef þrýstingurinn er nógu mikill. Þar að auki skal að sjálfsögðu sniðganga alla list sem elur á misnotkun á dýrum – hvort sem það er innsetning í Guggenheim eða hreyfimynd á hvíta tjaldinu. Dýr skulu ekki pyntuð mannfólki til skemmtunar.