Styrkur Amazon undir stjórn forstjórans og stofnandans, Jeffs Bezos, er alltaf að aukast og nú hefur fyrirtækið tekið afgerandi forystu í raddstýrðri tækni.
Styrkur Amazon undir stjórn forstjórans og stofnandans, Jeffs Bezos, er alltaf að aukast og nú hefur fyrirtækið tekið afgerandi forystu í raddstýrðri tækni. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Shannon Bond í San Francisco Stærstu tæknifyrirtæki heims keppast nú um að koma sínum lausnum í raddstýrðri tækni í forystu, enda má búast við því að markaður fyrir slíka tækni muni þenjast út á komandi árum.

Innan skamms mun Alexa innrita sig í hótelherbergið þitt. Þessi stafræni aðstoðarmaður frá Amazon er að skjótast fram úr Siri, snjallforriti Apple, í slagnum um að láta hótelkeðjur taka raddstýrða tæki í sína þjónustu.

Amazon, sem er með höfuðstöðvar sínar í Seattle, hefur efnt til samstarfs með Marriott International, stærstu hótelsamsteypu heims, um að hleypa nýrri vöru af stokkunum, sem kölluð hefur verið Alexa for Hospitality. Um er að ræða tækni sem býr yfir alls kyns eiginleikum og leyfir gestum til dæmis að panta mat upp á herbergið, fá herbergisþernu til að koma við, bóka lausan tíma í heilsulind hótelsins, spila tónlist og breyta lýsingu og hitastigi herbergisins. Allt með því einu að tala við hátalara sem hefur að geyma Alexu-hugbúnaðinn.

Eykur útbreiðslu Alexu

Hvað Amazon snertir skapar samstarf við hótelkeðjur tækifæri til að útvíkka sterka stöðu Alexu út fyrir heimili fólks og yfir í atvinnulífið, og á sama tíma styrkja Alexu í sessi í huga neytenda sem fremstu tækni sinnar tegundar á markaðnum.

Marriott greindi Bloomberg frá því í fyrra að fyrirtækið hefði gert tilraunir með tæki Amazon og Apple með það fyrir augum að bjóða upp á raddstýringu í hótelherbergjum keðjunnar um allan heim. Árið 2016 kynnti Aloft-hótelkeðjan, sem heyrir undir Marriott, til sögunnar raddstýrð herbergi sem notuðust við iPad-spjaldtölvur og Siri.

Núna hyggst fyrirtækið gera Alexu fáanlega með nýjum notkunarmöguleikum á völdum Marriott-, Westin-, St. Regis-, Aloft- og Autograph Collection-hótelum í Bandaríkjunum. Tæknin verður einnig notuð af íbúðaleiguþjónustunni RedAwning og hönnunarhótelakeðjunni Two Roads Hospitality.

Útiloka ekki aðra

„Í þessu tilviki höfum við uppgötvað að það skiptir gesti okkar æ meira máli að geta stýrt hinu og þessu með raddskipunum og við teljum að Amazon sé leiðandi á markaðnum hvað þessa tækni snertir,“ segir Tracey Schroeder, framkvæmdastjóri samskiptasviðs Marriott. Hún bætti því við að samstarfið við Amazon útilokaði ekki aðra framleiðendur.

„Valið byggðist ekki á beinum samanburði við Siri. Við vinnum með fjölda samstarfsaðila að því að prófa nýjar tæknilausnir svo að við getum bæði lært og nýtt okkur það sem við teljum best til þess fallið að bæta upplifun gestanna,“ segir hún.

Samkvæmt mælingum eMarketer hefur Amazon sölsað undir sig tvo þriðju af snjallhátalaramarkaðnum. Tæki eins og Echo- og Dot-hátalararnir, sem eru búnir Alexu-hugbúnaði, hafa verið vinsæl viðbót við eldhús og stofur neytenda þar sem þeir gagnast jafnt til að spila tónlist, veita ráðleggingar við eldamennskuna og stýra öðrum nettengdum heimilistækjum, breyta lýsingu og læsa dyrum.

Markaðsrannsóknafyrirtæki segja að á undanförnum mánuðum hafi sala á raddstýrða hátalaranum Google Home frá Alphabet náð í skottið á Echo frá Amazon. Salan á HomePod-hátalaranum frá Apple fer hægt af stað enda dýrari vara og Siri ákveðin takmörk sett.

Einnig í samstarfi við Wynn

Amazon hefur líka átt í samstarfi við spiliavíta- og hótelkeðjuna Wynn Resorts um að laga Echo-hátalarann að þeirra þörfum. Fyrirtækin greindu frá því fyrir átján mánuðum að Amazon myndi útbúa meira en 4.000 herbergi hjá Wynn Las Vegas með Echo-tækni. Geta fjárhættuspilarar núna notað aðskilin tæki í stofum og svefnherbergjum hótelíbúða sinna.

Wynn útvegar gestum leiðbeiningaspjöld sem kenna þeim sem ekki hafa áður notað Echo hvernig má biðja Alexu að stjórna hitastigi herbergisins, draga gluggatjöldin fyrir, draga úr lýsingunni, skipta um sjónvarpsstöð, spila lög með Frank Sinatra eða einfaldlega greina frá því hvernig viðrar fyrir utan hótelið.

Stefnir á bílamarkaðinn

Til að auka útbreiðslu tækninnar enn frekar hefur Amazon beint sjónum sínum að bifreiðum og á í dag í samstarfi við Toyota, Ford og aðra bílaframleiðendur. Amazon stefnir einnig að því að vera hluti af skrifstofuumhverfinu þar sem Alexa for Business getur t.d. skipulagt símafundi og haldið utan um dagatal starfsmanna.