„Ég er lítið fyrir að skilgreina galla, þeir eru alla jafna bara verkefni sem þarf að leysa,“ segir Sæmundur.
— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Það mun eflaust koma Sæmundi Sæmundssyni vel í forstjórastarfinu hjá Borgun að búa að mikilli þekkingu á sviði forritunar og tækni.
Það mun eflaust koma Sæmundi Sæmundssyni vel í forstjórastarfinu hjá Borgun að búa að mikilli þekkingu á sviði forritunar og tækni. Greiðslumiðlunarheimurinn þróast með ógnarhraða og fyrirtækið þarf stöðugt að laga sig að nýjustu lausnum í hörðu samkeppnisumhverfi.
Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?
Greiðslukorta- og greiðslumiðlunargeirinn er í mikilli gerjun og miklar breytingar framundan. Mestu áskoranirnar eru að gera fyrirtækið í stakk búið að vera leiðandi í þessum breytingum og takast á við nýja tækni og breytt viðskiptalíkön. Það er einmitt þessi staða sem gerir Borgun svo áhugavert fyrirtæki og heiminn sem við lifum í gríðarlega spennandi.
Hver var síðasta ráðstefnan sem þú sóttir?
Síðasta ráðstefnan var á vegum OpenWay, sem er framleiðandi grunnhugbúnaðarlausnar sem Borgun notar. Þetta var mjög góð ráðstefna þar sem mér gafst tækifæri til að hitta marga viðskiptavini fyrirtækisins og stjórnendur þess og um leið að hlýða á mjög áhugaverðar reynslusögur og fyrirlestra þar sem skyggnst var inn í framtíðina.
Hvaða hugsuður hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Ég hef í gegnum árin reynt að tileinka mér það besta sem verður á vegi mínum á hverjum tíma og það á einnig við um bækur og fólk. Engin ein bók eða manneskja hefur mótað mig sérstaklega hvað þetta varðar. Ég hef að auki verið svo heppinn að fá að starfa með mjög hæfileikaríkum einstaklingum í gegnum tíðina og margir þeirra hafa mótað mig verulega og sú mótun er að sjálfsögðu enn í gangi. Upp úr stendur að heiðarleiki og réttsýni skiptir mestu máli í öllu starfi.
Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?
Maður lærir eitthvað nýtt á hverjum degi, ekki síst með því að hlusta á þá sem eru samferða manni í leik og störfum. Ég sæki svo námskeið og les mikið.
Hugsarðu vel um líkamann?
Já, ég reyni það. Ég spila badminton og stunda hlaup. Svo er skotveiði mikið áhugamál og henni fylgir oftar en ekki góð útivera og hreyfing. Síðan er góður svefn algjört lykilatriði.
Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?
Fátt er skemmtilegra og meira gefandi en að vinna með fólki. Ég er ekki frá því að ég myndi vilja einbeita mér enn meira að því og þá kemur sér vel að hafa útskrifast í vor sem markþjálfi (executive coach) frá Háskólanum í Reykjavík. Ég ákvað að bæta við mig þessari menntun eftir að hafa nýtt mér markþjálfun með góðum árangri og sá markþjálfun sem tækifæri til að efla mig sem stjórnanda. Ég held að það gæti verið mjög gaman að prófa að vinna sem markþjálfi.
Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?
Ætli ég myndi ekki horfa til náms sem gerði mig hæfari í að skilja og greina mannlegt eðli, sem er svo skemmtilega margbreytilegt og óútreiknanlegt. Stjórnun snýst um fólk og hvernig hægt er að hjálpa því að þroskast og dafna. Það er endalaust hægt að bæta við sig þekkingu til að verða betri stjórnandi.
Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?
Kostirnir eru að greiðslumiðlun er mjög tæknidrifið umhverfi, þar sem hraði og breytingar eru miklar. Ég þrífst best í slíku umhverfi. Ég er lítið fyrir að skilgreina galla, þeir eru alla jafna bara verkefni sem þarf að leysa.
Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?
Fjölskyldan á jörð í Hrísey í Eyjafirði, þar sem við erum með æðarrækt og skógrækt. Þangað sæki ég orku og innblástur, enda að mínu mati fallegasti staður á Íslandi sem ég er tengdur órjúfanlegum böndum. Ég fæ einfaldlega aldrei nóg af því að vera í Hrísey.
Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?
Þetta er erfið spurning. Ælti ég myndi ekki breyta lögum um mannanöfn og mannanafnanefnd. Fólk á hreinlega að fá að heita það sem það vill og hið opinbera á ekki að skipta sér af því.