Á leið til markaða Stæður af plönkum bíða þess að verða fluttar með lestarvögnum. Stór hluti fer til Lettlands.
Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Norvik, segir heildarmarkaðinn með timbur í heiminum fara stækkandi. „Síðustu misserin hefur framboðið ekki aukist jafn mikið og eftirspurnin. Verð hefur því hækkað töluvert. Heimurinn er orðinn að einum markaði.
Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri Norvik, segir heildarmarkaðinn með timbur í heiminum fara stækkandi.
„Síðustu misserin hefur framboðið ekki aukist jafn mikið og eftirspurnin. Verð hefur því hækkað töluvert. Heimurinn er orðinn að einum markaði. Eftirspurnin frá Kína hefur aukist stöðugt og líka undanfarið frá Bandaríkjunum. Það hefur ýtt undir verð í Evrópu en eftirspurnin þar hefur einnig aukist,“ segir Jón Helgi.
Högg fyrir Kanadamarkað
„Síðan er það framboðið. Það er mjög takmarkað hvað hægt er að auka framboðið. Það byggist á því að hráefnið er takmarkað. Til dæmis hefur stærsta útflutningsríki heims á timbri, Kanada, átt undir högg að sækja. Það hefur átt erfitt með að sækja sér hráefni í sína skóga. Það er vegna náttúruhamfara. Ákveðið skordýr, furubjalla, hefur farið mjög illa með marga skóga hjá þeim, risastór svæði. Það hefur dregið úr framboði þaðan. Evrópa hefur sáralítið aukið framleiðsluna. Hvað varðar Eystrasaltsríkin hefur Eistland eitthvað aukið framleiðsluna en stöðnun er í skógarhöggi í Lettlandi. Þar er ekki aukning í skógarhöggi. Þótt þar sé höggvið minna en vex vilja menn engu að síður fara varlega. Það eru geysilegar skógarhöggsauðlindir í Rússlandi en aðgengið er takmarkað og vegalengdir miklar. Það þarf að leggja vegi um alla þessa frumskóga ef menn ætla að sækja í þá og það er mjög dýrt. Í okkar skógarfyrirtæki erum við með öll helstu tæki til vegagerðar – jarðýtur, veghefla og önnur tæki til vegagerðar – og þurfum að búa til vegi og brýr til að komast inn í skógana og ná afurðum út. Það er hinn takmarkandi þáttur hér um slóðir,“ segir Jón Helgi.