Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Áætlað er að félög tengd Norvik í timburvinnslu muni velta um 23 milljörðum króna í ár. Það yrði um 10% aukning milli ára.
Umsvif Norvik í timbri hafa aldrei verið meiri síðan félagið hóf timburvinnslu í Lettlandi árið 1993.
Jón Helgi Guðmundsson, forstjóri og stjórnarformaður Norvik, segir Indlandsmarkað vera að opnast fyrir Norvik. „Ég tel að Indland sé á uppleið eins og Kína fyrir 10 til 15 árum. Við höfum fengið margar fyrirspurnir þaðan,“ segir Jón Helgi.
Sala til Bergs Timber
Sala Norvik á flestum timburfélaga sinna til Bergs Timber gekk í gegn um mánaðamótin. Félagið Bergs Timber er skráð á sænska hlutabréfamarkaðnum.Verð á timbri hefur farið hækkandi. Jón Helgi segir sölu Norvik takmarkast af framboði. Með meira hráefni gæti félagið selt meira.
Meðal annars hefur sögunarmylla Norvik í rússnesku borginni Syktyvkar ekki verið rekin með fullum afköstum. Það félag fylgdi ekki með í samrunanum við Bergs Timber.
Starfsmenn myllunnar í Syktyvkar voru að ganga frá timbursendingu til Lettlands þegar Morgunblaðið kom þar við í síðustu viku.
Á annað þúsund manns
» Um 1.300 manns starfa nú hjá Norvik og tengdum félögum í fimm löndum.
» Þar af starfa um 800 hjá félögunum fimm sem voru sameinuð Bergs Timber, sem er skráð félag í Svíþjóð.