Fyrir 35 árum stóð sjö ára stelpuskott og tilkynnti þeim sem heyra vildu að hún ætlaði sko að verða ljósmóðir þegar hún yrði stór. Ekki búðarkona eða klippingakona, nei ljósmóðir. Stefnan var sett. Rúmum 20 árum síðar varð draumurinn að veruleika. Með sex ára háskólanám í farteskinu réð stelpuskottið, sem ekki var svo mikið skott lengur heldur gift tveggja barna móðir, sig til starfa.
Ljósmóðurstarfið er einstakt. Ólíkt öllu öðru. Að vera við upphaf lífs. Að sjá barn draga andann í fyrsta skipi er upplifun í hvert einasta skipti og fyllir þá sem hjá standa einskærri gleði og trú á lífið.
Enda gleypti starfið hina nýútskrifuðu ljósmóður. Starfsánægjan var svo mikil að skítalaun skiptu ekki miklu máli fyrstu mánuðina. En svo fór raunveruleikinn að bíta. Í lífinu er ekkert gefið. Systurnar gleðin og sorgin sýna sig. Með aukinni þekkingu og reynslu kom líka aukin ábyrgð. Ábyrgðin svo mikil á stundum og svo þung að stúlkan var við að sligast. Álagið yfirdrifið. Jól og áramót, páskar og helgar svo ekki sé talað um næturnar sem vakað er meðan aðrir sofa. Hægt og rólega upplifði ljósmóðirin að framlagið og ábyrgðin eru engan veginn metin til launa.
Það vantar ljósmæður til starfa. Svarið er ekki að fjölga útskrifuðum ljósmæðrum þegar einungis þriðjungur þeirra sem útskrifast sér sér fært að hefja störf eftir nám. Það eru liðin rúm 12 ár síðan ljósmóðirin hóf störf. Hinn 30. júní vinnur hún sína síðustu vakt. Hinn 1. júlí tekur uppsögn hennar og 12 annarra ljósmæðra gildi. Nú er kjörið tækifæri fyrir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að standa við stóru orðin um leiðréttingu launamunar kynjanna og fylgja lögum og hvar betra að byrja en á hreinni kvennastétt sem hefur barist fyrir launum sínum í 267 ár!
Ljósmóðirin á lítið sjö ára stelpuskott. Hún tilkynnti móður sinni á dögunum að hún ætlaði sko að verða ljósmóðir þegar hún yrði stór. Ég berst því ekki bara fyrir mínum launum heldur líka fyrir dóttur mína, sem á skilið sömu laun fyrir sambærilega vinnu og bræður hennar þrír.
Við ljósmæður segjum hingað og ekki lengra!
Höfundur er ljósmóðir.