Þótt margir landsmenn upplifi það ef til vill ekki þannig er sólin nú eins hátt á lofti og dagurinn eins langur og bjartur og hann gerist á þessu ári.
Sumarsólstöður verða í dag, nánar tiltekið klukkan sjö mínútur yfir tíu að morgni, og er sólin þá í sinni nyrstu og hæstu stöðu á himninum. Héðan af munu dagarnir taka að styttast á ný og sólin að staldra skemur við á himninum.
Í gær skein sólin samfellt í um sautján klukkustundir, sem er með því mesta sem gerist. Landsmenn eru því hvattir til að njóta sólarinnar meðan unnt er.
Tveir knapar áðu við Gullfoss í blíðviðrinu í gær og vöktu mikla athygli ferðamanna sem höfðu komið til að skoða fossinn.