
Svavar Pétur Eysteinsson er löngu orðinn þekktur fyrir lög sín og texta, en hann hefur gefið út tónlist með hljómsveitunum Skakkamanage og Prins Póló. Í Skakkamanage hefur gjarnan mátt heyra ljóðrænni texta og angurværari melódíur, en í Prins Póló hefur meira verið um húllumhæ sem óneitanlega hefur kætt landsmenn. Á Þriðja kryddinu má samt eiginlega segja að þessu tvennu sé blandað saman á nýstárlegan hátt. Nýja platan er fimmta útgáfa sveitarinnar ef smáskífan Einn heima frá árinu 2009 er talin með. Þetta er samt þriðja hljómplata Prins Póló í fullri lengd og þaðan er nafnið komið, ásamt auðvitað dularfullu bragðinu sem afskaplega erfitt er að henda fullkomlega reiður á. Svavar Pétur semur lög og texta og spilar á allt, en nýtur bakraddasöngs Benna Hemm Hemm og Berglindar Häsler hvors í sínu laginu, ásamt því sem Axel Flex Árnason leikur á trommur.
Lögin ellefu á Þriðja kryddinu eru margslungin. Tæplega helmingur þeirra er hress og í dúr og rúmlega helmingur sorglegur og í moll. Öll lögin eru svo annaðhvort með mjög sorglega texta sem eru að þykjast vera hressir eða mjög hressa texta sem eru að þykjast vera sorglegir. Líklega er það hlustandinn, og hvernig hann er stemmdur, sem ræður úrslitum um hvort platan er að taka sig alvarlega en þykist ekki gera það eða hvort hún er bara að gera grín en þykist samt vera smá alvarleg. Er þessi plata kannski bara að plata okkur?
Svavar Pétur hefur, sem textahöfundur, náð ótrúlegri tækni í að koma skilaboðum áleiðis en láta samt eins og hann sé ekki að segja nokkurn skapaðan hlut. Margir textar hans virðast vera bulltextar, en þegar betur er að gáð og í þá er rýnt er þar að finna sjálfsgagnrýni, þjóðfélagsádeilu og umfjöllun um viðkvæm málefni. Textar þessarar plötu eru margir hverjir einhvers konar uppgjör miðaldra manneskju sem horfir með eftirsjá á liðna tíð, þegar allt virtist einfaldara og lífsgæðakapphlaupið var ekki hafið, ábyrgðin var minni og heilsan betri. Margir hlustendur Prins Póló ættu alveg að geta tengt við þessar pælingar, og Svavar er samur við sig í að matreiða texta sína þannig að um varir læðist lítið glott af og til. Öll lög plötunnar eru með slíka texta.
Þegar kemur að lagasmíðunum eru þær hins vegar, eins og fyrr segir, mismunandi og eins og tvískipting eigi sér stað. Léttu og hressu lögin eru í anda þess sem Prins Póló hefur verið að gera og smáskífurnar „Læda slæda“ og „Líf ertu að grínast“ eru dæmi um það. Hægu og dramatísku lögin minna mun meira á Skakkamanage, eins og til dæmis „Abbadís“ og „Sandalar“, sem eru að mínu mati mun áræðnari og áhugaverðari lög. Það skal reyndar tekið fram að ég er gamall Skakkamanage-aðdáandi og því gæti ég verið að heyra eitthvað sem byggist á þeirri hlustun og enginn annar nennir að vera að hugsa um. Það er samt allt í lagi, og auðvitað er ekkert hægt að segja hvaða lög eru skemmtilegri en einhver önnur lög. Mín uppáhaldslög á plötum eru einmitt oft ekki fyrstu smáskífurnar, heldur vel geymdu lögin sem grípa mann eftir margar hlustanir.
Í heildina er þessi plata undarleg blanda af keleríis-tónlist níunda áratugarins (það gera trommuheilarnir) og epísku þungarokki í anda Kiss. Svo er smá sletta af Adda í Sólstöfum í bakröddunum víðsvegar á plötunni og loks er hellt vel yfir þetta allt saman úr kaldhæðnissósuflöskunni sem Svavar virðist alltaf eiga nóg í. Útkoman er eitthvað sem maður heldur að maður skilji, en skilur samt ekki, því maður veit ekki hverju maður á að trúa. Að því sögðu eru sum lög plötunnar bestu lög sem maður hefur heyrt, en önnur aðeins minna skemmtileg. Öll eru þau samt frábærlega samin, flutt, upptekin og hljómurinn er stórfenglegur. Svavar Pétur er svo auðvitað snillingur, og það er einmitt þess vegna sem ég skil stundum ekkert í honum. Ég elska það.
Ragnheiður Eiríksdóttir