Í raun er enginn landsmótsstaður sem uppfyllir allar þarfir og óskir sem fram komu í rannsókn Hjörnýjar Snorradóttur sem tók landsmótin fyrir í meistaranámi í stjórnun og stefnumótum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Hún lauk náminu á árinu 2010. Af þeim stöðum sem landsmót höfðu þá verið haldin á hafði Reykjavík vinninginn. Það var þó á kostnað sveitarómantíkur og útilegustemmningar, eins og hún skrifar í ritgerð sinni.
Þetta mat Hjörnýjar grundvallast á þeim kröfum sem gerðar eru til landsmótsstaða, aðstæðna og þjónustu, fyrir knapa, hross og almenna gesti.
Næst á eftir Reykjavík komu Melgerðismelar í Eyjafirði vegna nálægðar við Akureyri en einnig var nefndur sá möguleiki að byggja upp landsmótssvæði á Akureyri.
Fram kom í rannsókninni að Gaddstaðaflatir við Hellu voru vinsælasti mótsstaðurinn samkvæmt greiningu á óskum innlendra gesta. Minna máli skipti fyrir erlenda gesti hvar mótið er haldið. Næstvinsælasti staðurinn var Vindheimamelar í Skagafirði. Hjörný dregur þá ályktun að þessir staðir njóti vinsælda vegna þess að þátttakendur hafi mesta reynslu af þeim. Þeir mæta hins vegar aðeins hluta af þeim kröfum sem þátttakendur í rannsókninni töldu að landsmótsstaður þyrfti að uppfylla.
Hólar í Hjaltadal voru einnig nefndir sem mögulegur landsmótsstaður og þar var mótið síðan haldið á árinu 2016. Þá hefur það gerst að hestamannafélagið Sprettur í Kópavogi og Garðabæ hefur byggt upp frá grunni mótssvæði á Kjóavöllum. Þar verður landsmót haldið eftir fjögur ár.
Hjörný telur skorta á stefnumörkun til framtíðar fyrir landsmótin. Ná þurfi samstöðu meðal félagasamtaka og hagsmunaaðila í hestamennsku um það hvert eigi að stefna með landsmót. Staðarval er einn liður í því.