Skyggnist menn með gleraugum hagfræðinnar yfir álfuna sem Ísland tilheyrir (þótt jarðfræðilega skiptist landið milli tveggja fleka) kemur margt forvitnilegt í ljós í samanburðinum.

Skyggnist menn með gleraugum hagfræðinnar yfir álfuna sem Ísland tilheyrir (þótt jarðfræðilega skiptist landið milli tveggja fleka) kemur margt forvitnilegt í ljós í samanburðinum. Nýjar tölur Hagstofunnar um verga landsframleiðslu (GDP) í Evrópu sýna að framleiðslan sú er 30% meiri hér á landi en að meðaltali í ríkjunum 28 sem í dag tilheyra Evrópusambandinu. Við útgöngu Bretlands úr klúbbnum mun samanburðurinn verða enn hagstæðari enda útgönguríkið meðal þeirra 10 ríkja sem hæst skora samkvæmt þessum mælikvarða innan ESB.

Raunar skorar Ísland hærra en öll önnur ríki álfunnar, að fjórum undanskildum. Langefst á toppi listans trónir Lúxemborg með 153% af meðaltali ESB-ríkjanna. En setja verður fyrirvara við þá mælingu vegna sérstöðu landsins í atvinnu- og efnahagsmálum. Raunar bendir Hagstofan á að líta verði til þess að fjöldi fólks vinni og versli í landinu og leggi til landsframleiðslunnar, jafnvel þótt það teljist ekki til íbúa þess. Þá skorar Írland hærra en Ísland og það gera jafnframt Sviss og Noregur. Efnahagsstórveldi álfunnar; Þýskaland, Frakkland, Ítalía, Holland og Spánn, eru neðar á listanum.

Athygli vekur að af þeim fimm þjóðum sem skipa sér efst á listann eru þrjár með sjálfstæðan gjaldmiðil; Sviss, Noregur og Ísland. Verg landsframleiðsla mælir samanlögð verðmæti framleiddrar vöru og þjónustu sem greiðslur koma fyrir í hverju ríki. Mælikvarðinn er því einn sá mikilvægasti þegar velsæld þjóða er vegin og metin. Sú mynd sem þessi listi dregur upp er því án nokkurs vafa ánægjuleg í augum Íslendinga.