Djasstónlistarmennirnir Tómas R. Einarsson bassaleikari og Eyþór Gunnarsson píanisti gáfu í lok síðasta árs út plötuna Innst inni . Þeir félagar eru þeir einu sem leika á plötunni en Tómas er höfundur laganna.
Platan hefur hlotið hlotið afar lofsamleg ummæli í erlendum djasstímaritum austan hafs og vestan. Í danska blaðinu JazzSpecial skrifaði gagnrýnandinn Thorbjörn Sjögren: „Hér er nægt andrými, hér er ró, hér er nægur tími og hér slá hjörtun í takt í 11 lögum Tómasar. Og um leið er sveiflan ótrúlega sterk. Hér er á ferðinni ein óvæntasta og sterkasta tónlistarupplifun sem ég hef orðið fyrir um langa hríð.“
Í enska blaðinu Jazz Journal skrifaði Andy Hamilton: „Það ríkir tregi yfir tónlistinni á þessari plötu og þótt hún sé ekki fjölbreytt er hún engu að síður einstaklega áhrifamikil.“ Hamilton gefur plötunni fjórar stjörnur af fimm.
Í bandaríska tímaritinu All About Jazz skrifaði C. Michael Bailey: „Þetta er meira en tónlist, þetta er hugarástand og allt um kring er allt eins og vera ber, að minnsta kosti meðan tónlistin varir. Leyfið þessari plötu að færa ykkur frið.“
Þeir Tómas og Eyþór munu halda síðbúna útgáfutónleika í Norræna húsinu 15. ágúst í sumartónleikaröð hússins.