Áhugamálið Ef illa gengur að smala vinnufélögunum í fótboltaleik úti á næsta túni hjálpar kannski að segja þeim að von sé á alveg sérstökum bolta. Almenningur getur keypt sama Adidas-bolta og notaður er á HM í Rússlandi og kostar ekki nema 129 dali.
Boltinn hefur fengið nafnið Telstar18 og er hönnunin innblásin af fyrstu svörtu og hvítu Telstar-boltunum sem Adidas hannaði fyrir HM í Mexíkó 1970 með það fyrir augum að gera bolta sem auðvelt væri fyrir áhorfendur að sjá á sjónvarpsskjám þess tíma.
Í dag eru allir komnir með litasjónvörp sem sýna hvert smáatriði á vellinum, en áfram eru boltarnir hvítir og svartir.
Boltinn er gerður úr strendingum sem hafa verið bræddir saman frekar en saumaðir og fyrir vikið er yfirborðið sléttara og vatnsheldara, og auðveldar knattspyrnukempunum á vinnustaðnum að sparka af meiri nákvæmni.
Boltinn er líka sá fyrsti sem er búinn tölvukubbi sem leyfir eigandanum, ef hann notar þar til gerðan skynjara á snjallsímanum sínum, að opna fyrir aðgang að sérstöku fótboltaforriti. ai@mbl.is