Lárus Ögmundsson fæddist í Reykjavík 11. september 1951. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 5. júní 2018.
Foreldrar hans voru Ögmundur Jóhann Guðmundsson frá Blönduósi, yfirtollvörður hjá Tollgæslu Íslands, f. 28. maí 1916, d. 2. maí 1998, og Halldóra Pálmarsdóttir, húsmóðir, f. 17. september 1920, d. 8. febrúar 1992. Lárus ólst upp í foreldrahúsum í Reykjavík ásamt fimm systkinum sínum: Pálmari, f. 17. júlí 1943, maki Þórunn Blöndal, Önnu Margréti, f. 20. júní 1944, maki Ófeigur Geirmundsson, Ágústi, f. 23. apríl 1946, maki Elínborg Kristjánsdóttir, Jóhanni Gunnari, f. 2. mars 1950, maki Ingibjörg Jónsdóttir, og Sverri, f. 30. október 1955, maki Ásbjörg Magnúsdóttir.
Eftirlifandi eiginkona Lárusar er Hildigunnur Sigurðardóttir, flugfreyja, f. 19. maí 1950. Foreldrar hennar voru Sigurður Egill Ingimundarson, alþingismaður og forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, f. 10. júlí 1913, d. 12. október 1978, og Karítas Guðmundsdóttir, húsmóðir, f. 19. desember 1917, d. 26. ágúst 1997. Börn Lárusar og Hildigunnar eru: 1) Lilja Karítas, hjúkrunarfræðingur og flugfreyja, f. 4. september 1979, maki Ólafur Már Sigurðsson. Börn þeirra eru Lárus Orri, Viktor Már og Eva María. 2) Dóra María, viðskipta- og tölvunarfræðingur, f. 24. júlí 1985. 3) Sigurður Egill, knattspyrnumaður, f. 22. janúar 1992, maki Birta Elíasdóttir.
Lárus varð stúdent frá Verzlunarskóla Íslands 1973 og lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1978. Hann varð héraðsdómslögmaður 1985. Lárus var fulltrúi og síðar deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu frá 1. júní 1978 til 1. september 1989. Þá hóf hann störf hjá Ríkisendurskoðun og starfaði þar í tæp 29 ár, lengst af sem yfirlögfræðingur og staðgengill ríkisendurskoðanda. Lárus gegndi ýmsum stjórnar- og nefndarstörfum og var hann m.a. formaður stjórna Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga, starfsmenntunarsjóðs BSRB, starfsmenntunarsjóðs BHM og sat í stjórn starfsmenntunarsjóðs hjúkrunarfræðinga. Þá var Lárus í ríkistollanefnd og prófdómari í kröfurétti við Lagadeild HÍ um árabil. Lárus lagði stund á knattspyrnu á yngri árum og lék um tíma með meistaraflokki Vals. Hann starfaði lengi í stjórnum félagsins, m.a. aðalstjórn, og var Valsmaður alla tíð, eins og fjölskylda hans öll. Hann fékk silfur- og gullmerki Vals fyrir störf sín fyrir félagið.
Útför Lárusar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 21. júní 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.
Á sama tíma og það er ótrúlega erfitt að setjast niður saman og skrifa þessi orð þá er ljúfsárt að rifja upp allar dýrmætu minningarnar sem við systkinin eigum um pabba okkar. Hann var alltaf til staðar fyrir okkur og var einkar greiðvikinn, hjálpsamur og úrræðagóður. Aldrei taldi hann nokkurn hlut eftir sér heldur gekk með glöðu geði í hlutina þegjandi og hljóðalaust. Sem dæmi þá vaknaði hann með mömmu kl. 5 á morgnana, þegar hún var á leið í vinnu sem flugfreyja, til að moka planið og skafa og hita bílinn fyrir hana. Mamma kunni vel að meta þessa hugulsemi. Það leyndi sér ekki að pabbi elskaði okkur skilyrðislaust og bar ávallt velferð okkar fyrir brjósti. Við grínuðumst samt stundum með það að honum þætti ekki síður vænt um jeppann sinn og smáfuglana. Pabbi kenndi okkur að hirða alltaf vel um bílana okkar enda voru bílarnir hans alltaf hreinir og vel bónaðir. Hann hugsaði um fuglana af einskærri alúð og spurði hann stundum glettinn hvort við ætluðum nokkuð að klára matinn okkar því hann vildi gjarnan gefa fuglunum afgangana. Það var því ekki furða að þeir kæmu trítlandi á eftir honum inn í bílskúr með von um að fá eitthvað gott í gogginn. Pabbi var svolítill sveitamaður í sér enda fór hann alltaf í sveit á sumrin þegar hann var lítill drengur. Hann undi sér vel í bílskúrnum þar sem hann gat alltaf fundið sér verkefni. Hann var nægjusamur og sérlega flinkur að gera við hina ýmsu hluti og vorum við dugleg að leita til hans með hvaðeina sem krafðist skjótra viðgerða.
Pabbi var gæddur góðum gáfum, víðlesinn, ritfær og afar fróður um menn og málefni. Hann þekkti landið sitt með eindæmum vel, naut þess að ferðast um fjöll og firnindi og hafði unun af því að segja frá. Golfið var hans helsta áhugamál og var golfsettið því gjarnan með í för á ferðum hans um landið. Pabbi var ávallt mikill og sannur Valsmaður og því engin tilviljun að við öll smituðumst af því. Hann var okkar helsti stuðningsmaður í einu og öllu og sá gagnrýnandi sem við tókum mest mark á. Pabbi var skemmtilegur og hafði mjög gott skopskyn. Hann gat verið stríðinn og jafnvel eilítið kaldhæðinn. Fyrir þremur árum greindist pabbi með illvígt krabbamein. Hann mætti örlögum sínum með fádæma æðruleysi og háði hann baráttuna allt til hinstu stundar af einstöku hugrekki. Við teljum okkur óendanlega lánsöm að hafa átt flottasta og besta pabba í öllum heiminum. Hann vissi allt og gat allt og var okkur mikil fyrirmynd í einu og öllu. Skarðið sem pabbi skilur eftir sig er stórt en hjörtu okkar eru full af þakklæti fyrir þann tíma sem við fengum saman. Tíma sem var alltof stuttur.
Minning um pabba mun alltaf vera ljós í lífi okkar.
Lilja Karítas, Dóra María og Sigurður Egill.
Lárus afi var allra fróðasti maður sem við þekktum og átti alltaf svör við óteljandi spurningum okkar um allt milli himins og jarðar. Enda var okkur fljótt kennt að spyrja bara afa þegar mamma og pabbi áttu ekki svör á reiðum höndum og við vorum fljót að tileinka okkur það.
Við viljum þakka elsku afa fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur. Við munum ávallt geyma minninguna um hann sem dýrmætan fjársjóð í hjörtum okkar. Við erum full af þakklæti fyrir að hafa átt jafn umhyggjusaman, skemmtilegan og skilningsríkan afa sem var alltaf tiltækur þegar á þurfti að halda, afa sem alltaf hafði tíma fyrir okkur.
Guð geymi þig, elsku afi.
Lárus Orri, Viktor Már
og Eva María.
Lárus var yndislegur maður sem vildi leysa hvers manns vanda. Ræktarsemi hans kom vel í ljós þegar erfiðleikar steðjuðu að og ég man sérstaklega hve gott var að eiga hann að í langvarandi veikindum móður minnar.
Það var mikil gæfa fyrir systur mína að eiga þennan trausta mann sem lífsförunaut, enda var hann henni allt og gekk til allra verka af rósemi og yfirvegun. Umhyggja Lárusar fyrir Hildigunni var slík að öll þau ár sem hún var flugfreyja vaknaði hann með henni, um miðjar nætur eða árla morguns, til að gera bílinn kláran fyrir hana.
Lárus var mikill Valsari og innilega stoltur af börnum sínum í fótboltanum, Dóru Maríu og Sigurði Agli. Og sömuleiðis naut hann þess að horfa á afastrákana sína, Lárus Orra og Viktor Má, spila fótbolta þar sem þeir sýndu góða tilburði.
Lárus naut þess að spila golf og notaði hverja stund sem gafst, líka eftir að hann veiktist. Hann var ekki á því að gefast upp og nýlega keypti hann sér golfkort út sumarið, hann þráði að fá lengri tíma með fjölskyldunni í leik og starfi. En eigi má sköpum renna.
Þær eru ófáar stundirnar þegar ég kom í heimsókn í Kjalarlandið að Lárus var í bílskúrnum að dytta að hinu og þessu. Þrifalegri bílskúr hef ég ekki séð, þar var öllu einkar haganlega komið fyrir.
Lárus hafði einstaka hæfileika í samskiptum við fólk og nálgaðist alla sem jafningja, brosandi og kátur. Það var gott að vera nálægt honum og gaman að ræða við hann um lífið og tilveruna. Þá skein alltaf í gegn sterk réttlætiskennd og óréttlæti þoldi hann ekki. Aðeins þegar talið barst að einhverju slíku sá ég hann skipta skapi en Lárus var alltaf sanngjarn og rökfastur.
Starf Lárusar hjá Ríkisendurskoðun var honum mjög kært. Ég heyrði það líka hjá samstarfsfólki hans að Lárus lagði gífurlega alúð og vandvirkni í verk sín og var vel liðinn. Hann var afar fróður um stjórnsýsluna, sem hann hafði unnið við allan sinn starfsferil, bæði í fjármálaráðuneytinu og hjá Ríkisendurskoðun og í ótal nefndum og stjórnum innan stjórnkerfisins.
Það var mikið áfall þegar Lárus greindist með krabbamein fyrir þremur árum. En aldrei heyrði maður hann kvarta og hann barðist af miklu hugrekki og æðruleysi fyrir lífi sínu allt til síðustu stundar. Lárus var þó alltaf raunsær og vissi að brugðið gæti til beggja vona.
Við Jónína sendum Hildigunni og börnum þeirra Lárusar, Lilju Karítas, Dóru Maríu, Sigurði Agli og fjölskyldum þeirra, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð styrki þau í sorginni.
Jóhanna Sigurðardóttir.
Árni Benediktsson.
Lárus var alltaf kallaður Lalli meðal samstarfsmanna og vina. Hann var góður íþróttamaður, eins og aðrir munu lýsa betur en ég. Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í golfinu árið 2003 naut ég léttrar leiðsagnar Lalla. Leikreglur skýrar og hinn sanni íþróttaandi golfsins. Þar á aldrei að hafa rangt við. Þar sigra menn á eigin verðleikum. Það var alltaf sérstakt ánægjuefni að fá að vera með Lalla í holli. Jákvæðar ábendingar og stutt í brosið. Undanfarin ár höfum við nokkrir góðir félagar farið í vorferð til London til að opna golfsumarið.
Lalli var alltaf í góðu formi. Það kom því öllum á óvart þegar hann greindist með ristilkrabbamein árið 2015. Eftir fyrstu aðgerðina náði Lalli sér nokkuð vel á strik og kom með okkur í skemmtilega golfferð til London í maí 2016. Í þessum ferðum er mikil keppni og hægt að vinna til ýmissa verðlauna. Lalli gaf ekkert eftir og sýndi okkur hversu góður íþróttamaður hann var, með því að sigra okkur fullfríska á lokadegi í höggleiknum með forgjöf. Það voru góðar gleðistundir.
Undanfarnar vikur hittumst við reglulega og tókum saman léttar Qigong-lífsorkuæfingar og ræddum málin á jákvæðan hátt. Í síðustu heimsókninni var það mér mjög dýrmætt á kveðjustund að geta sagt Lárusi, mínum kæra vini, hversu mikils ég mæti hann og hans lífsviðhorf.
Enginn veit hversu dagar lífsins verða margir. Alltof margir falla frá fyrir aldur fram. Það er okkur sem lifum áminning um að hver dagur er dýrmæt gjöf til að njóta. Fánýtt argaþras og ergelsi smámuna taka því miður allt of oft mikinn tíma og orku. Minningin um Lárus mun lifa með þeim sem hann þekktu og vonandi tileinka sér flestir hans réttsýni, jákvæða hugarfar og glaðværðina. Ég votta Hildigunni, börnum og fjölskyldu mína dýpstu samúð. Megi góðar minningar lýsa og hugga í sorginni og veita birtu og gleði um ókomin ár.
Þorvaldur Ingi Jónsson.
Samstarf til meira en tveggja áratuga hjá Ríkisendurskoðun, þar sem verkefnið var m.a. að kanna og meta starfsemi á vettvangi opinberrar stjórnsýslu. Þar skipti miklu máli formfesta og að þeir embættismenn sem komu að þeim málum hefðu yfir að búa ekki bara þekkingu og reynslu á viðfangsefninu heldur ekki síður að trúmennska og ósérhlífni einkenndu störfin. Hlutverk Lárusar við úrlausn þessara viðfangsefna var að tryggja og sjá um að þeim gildum og reglum væri fylgt eftir.
Það er þyngra en tárum taki að þurfa að viðurkenna að þegar menn hafa lokið góðum starfsdegi og unnið fyrir að njóta afraksturs þeirrar vinnu séu þeir brott kallaðir. Þrátt fyrir öll afrek læknavísindanna á liðnum árum er það ennþá svo að í sumum tilvikum eiga þau fá svör. Lárus hóf baráttu sína við krabbameinið fyrir þremur árum og var hún án hléa.
Þær orrustur voru háðar af æðruleysi og skynsemi en svo var komið að lokum eins og hann orðaði það „að berjast við að klífa brekkuna til að ná tindinum sem aldrei varð er þreytandi og sárt að sætta sig við“.
Nú þegar Lárus Ögmundsson er kvaddur og lífsgöngu hans er lokið, verður ekki annað sagt, en að máttarvöldin hafi ekki gefið honum grið í erfiðum veikindum. Þakkað er áratuga samstarf sem einkenndist, þrátt fyrir að menn væru ekki alltaf einhuga í upphafi hvaða stíga skyldi ganga, af virðingu og tillitssemi. Hann var traustur maður og velviljaður öllum sem honum kynntust. Lífsganga hans var björt og göfug.
Fjölskyldu Lárusar votta ég einlæga samúð mína. Megi minningin um farsælan og góðan mann veita þeim styrk.
Sigurður Þórðarson.
Lárus var sannur Valsmaður bæði sem leikmaður og ábyrgur stjórnarmaður í aðalstjórn í félagsins. Naut hann þess mjög að fylgjast með farsælum ferli barna sinna hjá Val svo og framgangi allrar sinnar fjölskyldu hvað sem þau tóku sér fyrir hendur.
Lárus var maður sem unni landi sínu. Við urðum þess aðnjótandi að ferðast með honum vítt og breitt um landið og nutum fróðleiks hans um fjöll og dali á okkar fagra landi. Staði sem við hefðum aldrei heimsótt án hans leiðsagnar.
Lárusar verður sárt saknað í stórum vinahópi. Ætíð hrókur alls fagnaðar.
Við viljum minnast Lárusar með þessu fallega ljóði.
Stundin líður, tíminn tekur,
toll af öllu hér,
sviplegt brotthvarf söknuð vekur
sorg í hjarta mér.
Þó veitir yl í veröld kaldri
vermir ætíð mig,
að hafa þó á unga aldri
eignast vin sem þig.
(Hákon Aðalsteinsson)
Takk fyrir yndislega vináttu. Guð geymi þig, elsku vinur.
Vilhjálmur Kjartansson og Elísabet Hilmarsdóttir.
Fjölskylduferðirnar eru ógleymanlegar og skemmtu allir aldurshópar sér jafnvel. Þar bundust börnin okkar einnig vinaböndum og rifja þau oft upp þessar góðu minningar. Gaman var að fylgjast með fótboltaleikjum barnanna og undrunarsvip drengjanna þegar þeir uppgötvuðu að Dóra María væri enginn eftirbátur þeirra í fótbolta nema síður væri. Í þá daga var ekki algengt að stúlkur spiluðu fótbolta.
Undanfarin sumur höfum við hjónin svo hitt Lárus og Hildigunni á fótboltamótum þar sem barnabörnin okkar hafa verið að keppa.
Þau hafa ávallt hvatt sitt fólk áfram og sinnt fjölskyldu sinni ákaflega vel. Börn og barnabörn bera þeim enda fagurt vitni því öll eru þau með eindæmum vel gerðir einstaklingar og greinilegt er að mikil ást og virðing ríkir í þessari fjölskyldu.
Lárusar verður sárt saknað í vinahópnum. Genginn er góður maður sem kunni þá list að njóta lífsins á sinn hógværa og hófsama hátt.
Hann var allra manna fræknastur, fríðastur og fróðastur en hreykti sér aldrei af atgervi sínu eða afrekum. Hann var hógvær og hjálpfús og bar virðingu fyrir mönnum jafnt sem dýrum. Mikill er missir fjölskyldu hans og sendum við henni okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Við kveðjum Lárus með þessum ljóðlínum:
Uppi í himinhvolfi háu
hefur flug á bólstri bláu
fagur andi, frelsi feginn,
fjötrunum frá hérna megin.
Hann gaf úr sínum gæskubrunni
göfug ráð og öllum unni.
Við honum færum þakkirnar
fyrir allt sem eitt sinn var.
(Íris Dungal)
Íris Dungal og Guðmundur Þ. Pálsson.
Hittast menn heima hver hjá öðrum og hafa notið góðra veitinga á meðan skákin stendur yfir. Það er allt of snemmt, rétt í þann mund sem starfsævi er að ljúka, að þurfa að sjá á bak góðum félaga. Hann er örugglega búinn að tryggja sér „besta sætið“ þarna uppi og fylgist með heimsmeistarakeppninni í fótbolta en hann var afreksmaður á þessu sviði á sínum yngri árum. Við vottum Hildigunni skólasystur okkar og börnunum Lilju Karítas, Dóru Maríu, Sigurði Agli og þeirra fjölskyldum okkar innilegustu samúð.
Blessuð sé minning hans.
Árni Þór, Einar, Guðjón Guðm., Guðjón Steingr., Gunnar Hall, Gunnar Helgi, Hans, Jafet, Jóhann og Kjartan Már.
Golf er vinsælt áhugamál hjá keppnismönnum þegar ferlinum lýkur. Þar fá menn ágæta útrás fyrir hreyfiþörf sína og keppnisskap. En þetta er líka krefjandi grein sem útheimtir góða tækni. Oft eru menn að rótast í sandgryfjum eða kargaþýfi og auðvitað allur gangur á því hvernig menn bregðast við lélegum höggum og þau eru mörg.
Hvað Lárus varðaði þá skipti hann aldrei skapi hvað sem á gekk. Hinn félagslegi og andlegi grundvöllur Valsmanna, að láta kappið ekki bera fegurðina ofurliði, var leiðarljós hans. Hann hafði líka komið sér upp leikstíl sem var býsna árangursríkur – á okkar mælikvarða – persónuleiki hans, átakalaus, öruggur og ábyrgur.
Fálkarnir hafa alveg frá byrjun átt í sínum röðum hirðskáld eitt sem við ýmis tækifæri hefur getað kastað fram vísuparti, stöku og jafnvel heilum ljóðabálki. Lárus var á svipaðri bylgjulengd; hann safnaði saman kveðskap ýmsum, fornum og nýjum, og flutti við hátíðleg tækifæri. Þetta áhugamál hafði hann frá föður sínum Ögmundi Guðmundssyni og kenndi ýmissa grasa í safni þeirra feðga.
Fyrir þremur árum kenndi Lárus sér þess meins sem hann glímdi við uppfrá því. Í hönd fór erfið og tvísýn barátta. Fyrir leiktímabilið 2016 var um skeið nokkur óvissa um það hvort hann yrði með. En við vissum líka hversu dýrmætar þær stundir voru honum að komast burt frá „reykmettuðum bakherbergjum stjórnsýslunnar,“ eins og hann orðaði það einhverju sinni, og ganga með vinum sínum alla þessa kílómetra innan um mófuglana í
Grafarholtinu eða nær ströndinni þar sem Korpa rennur til sjávar. Hann sneri aftur þetta sumar og í fyrra líka, varð efstur í mótaröðinni 2016 og með efstu mönnum í fyrra. Þessi misseri upplýsti hann okkur jafnharðan um gang baráttu sinnar. Við vorum vongóðir í fyrstu en haustið 2017 var eins og drægi ský fyrir sólu og vonin dvínaði. Hann mætti til undirbúningsfundar í vor í hinu nýstandsetta Fjósi við Valsheimilið og það var í síðasta sinn sem flestir okkar hittu hann.
Á kveðjustund viljum við félagar hans í Fálkunum færa eiginkonu hans Hildigunni Sigurðardóttur, börnum og fjölskyldu allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Helgi Ólafsson
og Jón H. Karlsson.
Ég þekkti aðeins til Lalla áður en ég kynntist honum fyrir alvöru, en Sverrir bróðir hans hafði þjálfað mig þegar ég var unglingur.
Það var sannarlega skemmtilegt að kynnast Sverri sem býr yfir miklum mannkostum. Ég kynntist reyndar einnig lítillega Palla bróður þeirra og voru þau kynni jafnframt ánægjuleg. Ég hafði því fyrirfram töluverðar væntingar til Lalla. Það er skemmst frá því að segja að Lalli stóð undir öllum þeim væntingum og vel það. Kímnigáfan á sínum stað, mikið jafnaðargeð og lagni við að vinna fólk á sitt band á sinn hógværa og yfirvegaða hátt. Lalli hafði einstaklega góða nærveru og góð áhrif hvar sem hann kom. Hann átti auðvelt með að laða fólk að sér og lagði gott til allra mála.
Þegar ég hafði samband við Lalla var barnastarf nokkuð lausara í reipunum en nú er. Ég hafði áhuga á því að safna saman barnahópi á leikskólaaldri og kenna þeim undirstöðuatriði i fótbolta sem ég taldi mig af einhverjum ástæðum vel fallinn til að gera. Lalli tók vel í þetta og bæði Siggi og Dóra María mættu til leiks. Það var fljótlega ljóst að það var lítið hægt að bæta leik Dóru sem sýndi strax ótvíræða hæfileika, en það var hægt að leiðbeina Sigga um ýmislegt og er jafnvel enn.
Ég sendi Lalla kveðju þegar Siggi skoraði bæði mörkin í bikarúrslitaleik um árið. Annað markið var sérstaklega glæsilegt og töluðu blöðin um svokallaðan Berbatov-snúning.
Lalli svaraði kveðjunni á sinn skemmtilega hátt og sagist ekki skilja hvað verið væri að blanda Berbatov í þetta. Hann myndi ekki betur en ég hefði margsinnis sýnt þennan snúning á námskeiðinu forðum.
Seinna tókum við Lalli þátt í foreldrastarfi hjá Víkingi þar sem störfuðu frábærir þjálfarar í vel skipulögðu barnastarfi. Þó að við hefðum yfir litlu að kvarta fannst okkur óneitanlega Valsbúningurinn fara Sigga betur. Siggi fetaði þar í fótspor Dóru Maríu sem hefur verið ein allra besta knattspyrnukona landsins undanfarin ár bæði með Val og landsliðinu.
Þó svo að Lalli hafi glímt við erfiðan sjúkdóm um nokkurt skeið var alltaf til staðar von um að honum tækist að hafa betur. Hann bar sig vel og strangar meðferðir höfðu ekki mikil áhrif á ytra útlit sem jók á bjartsýnina. Því miður var það ekki raunin og að honum er mikil missir.
Við Olla og fjölskylda sendum Hildigunni og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.
Helgi Sigurðsson.