[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mark frá Yussuf Yurary Poulsen reið baggamuninn þegar Danir unnu Perúmenn í fyrstu umferð C-riðils í Saransk á laugardaginn, 1:0.

Mark frá Yussuf Yurary Poulsen reið baggamuninn þegar Danir unnu Perúmenn í fyrstu umferð C-riðils í Saransk á laugardaginn, 1:0. Af þeim sökum má búast við að Poulsen verði á ný í fremstu víglínu í hádeginu í dag þegar Danir leika við Ástrala á keppnisvellinum í Samara.

Poulsen leikur í dag sinn 30. A-landsleik fyrir Dani og mörkin eru orðin fimm. Hann lék sinn fyrsta landsleik hinn 11. október 2014 gegn Albaníu og 13. júní árið eftir skoraði Poulsen sitt fyrsta landsliðsmark í 2:0 sigri danska landsliðsins á Serbum.

Poulsen fæddist 15. júní 1994. Móðir Poulsen er innfæddur Dani en faðir hans er frá Tansaníu. Faðir Poulsen lést árið 2000.

Poulsen byrjaði að æfa og leika knattspyrnu með BK Skjold á Österbro í Kaupmannahöfn. Framan af var hann varnarmaður en flutti sig síðan framar á völlinn. Fjórtán ára gekk Poulsen til liðs við Lyngby og lék með liðum félagsins til 2013 að hann 19 ára var seldur til RB Leipzig í Þýskalandi sem þá var í 3. deild. Hjá Leipzig hefur Poulsen leikið 156 leiki og skorað 37 mörk og átt þátt í uppgangi liðsins og farið með því alla leið í Meistaradeild Evrópu. Hann afþakkaði sæti í ólympíuliði Dana 2016 til þess að treysta stöðu sína hjá þýska liðinu.