— Morgunblaði/Arnþór Birkisson
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Hlutabréf Kviku hækkuðu á First North-markaði Kauphallarinnar í kjölfar þess að tilkynnt var um fyrirhuguð kaup bankans á öllu hlutafé fjármálafyrirtækisins Gamma.

Viljayfirlýsing hefur verið undirrituð um kaup Kviku banka á hlutafé Gamma Capital Managment. Samkvæmt tilkynningu nemur kaupvirðið 3.750 milljónum króna og er það greitt í formi reiðufjár og hlutabréfa í Kviku. Þannig er miðað við að við frágang viðskiptanna greiðist annars vegar 1.057 milljónir króna í reiðufé og hins vegar 56,1 milljón hluta í Kviku. Þá komi til árangurstengd greiðsla sem metin er á 1.443 milljónir í reiðufé og allt að 108,9 milljón hlutum í Kviku. Eigið fé Gamma um síðustu áramót nam 2.054 milljónum króna. Í þeirri tölu er ekki tekið tillit til tekjufærðrar 600 milljóna færslu sem er krafa á sjóði í rekstri félagsins vegna árangurstenginga. Miðað við þetta gæti salan á félaginu gengið í gegn á margfaldaranum 1,4 af eigin fé Gamma.

Hagnaður Gamma í fyrra nam 626 milljónum króna. Árið áður nam hagnaðurinn 846 milljónum.

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, segir að fyrirhuguð kaup, sem háð eru fyrirvörum um áreiðanleikakannanir, samþykki eftirlitsaðila og samþykki hluthafafundar Kviku, séu til þess að efla bankann, sem hafi verið í sókn á íslenskum fjármálamarkaði.

Styr milli stærstu hluthafa

Valdimar Ármann, forstjóri Gamma, segir að viðskiptin treysti félagið enn frekar í sessi, en fram kemur í tilkynningu að Kvika hyggist áfram reka félagið undir sama nafni sem sjálfstætt dótturfélag.

Nokkur styr hefur staðið um stjórnun Gamma á undanförnum mánuðum og leiddu þau átök til þess að Gísli Hauksson hvarf frá daglegum rekstri fyrirtækisins fyrr á þessu ári. Snerist ágreiningurinn um ólíka sýn á stefnu félagsins, ekki síst þeim þáttum sem lutu að uppbyggingu erlendrar starfsemi bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Ekki liggur fyrir hvort salan nú sé afleiðing þeirra átaka.

Gísli bendir á að með innri vexti hafi félaginu tekist að byggja upp starfsemi sem hverfist í kringum sjóðastýringu sem nú er 138 milljarðar að stærð.

Stærsta stýringarfyrirtækið

Gangi kaup Kviku á Gamma eftir verður sjóðastýring á hendi fyrirtækisins sú umfangsmesta hér á landi. Þannig verða samanlagðar eignir í stýringu um 400 milljarðar króna. Til samanburðar má nefna að á heimasíðu Stefnis, sem er í eigu Arion banka og hefur um langt árabil verið stærsta sjóðastýringarfyrirtæki landsins, kemur fram að félagið hafi um 350 milljarða króna í stýringu.

Hlutdeild seljenda

Hluthafar Gamma eru átta talsins. Stærstur í þeim hópi er Gísli Hauksson, fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins, í gegnum félag sitt Ægi Invest. Hann á 33,1% hlut og verður hlutur hans í söluandvirðinu, gangi salan eftir, 1.242 milljónir króna. Næststærsti eigandinn er Agnar Tómas Möller, sem stofnaði Gamma ásamt Gísla fyrir áratug. Hann á 31,8%. Hlutdeild hans í söluverði verður 1.192 milljónir. Þriðji stærsti eigandinn er félagið Straumnes, með 10,7% hlut. Að baki því félagi standa systkinin Ari og Björg Fenger ásamt móður þeirra, Kristínu. Hlutur þeirra í sölunni nemur tæpri 401 milljón króna. Félagið Volga á jafn stóran hlut og Straumnes. Eigandi þess er Guðmundur Björnsson, framkvæmdastjóri hjá Gamma. Valdimar Ármann, forstjóri félagsins, á 6,7% og söluandvirði þess hlutar er tæpar 249 milljónir. Lýður Þór Þorgeirsson, framkvæmdastjóri hjá Arion banka, á 3,85% hlut og söluandvirði þess hlutar er rúmar 144 milljónir. Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri hjá Gamma, á félagið Polygon sem heldur á 2,1% hlut. Hann fær í sinn hlut 80,2 milljónir. Félagið LL34 er svo í eigu Ragnars Jónassonar, yfirlögfræðings Gamma. Það á tæpt 1,1% í Gamma og í þess hlut koma 40 milljónir, gangi viðskiptin eftir.