Ríkisútvarpið hefur brugðið ljósi á nauðsyn breytinga á umhverfi fjölmiðla

Með yfirgengilega harkalegri sölumennsku sinni í tengslum við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu hefur Ríkisútvarpið vakið rækilega athygli á því vandamáli sem ríkir á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Ríkismiðillinn, sem er með yfir fjóra milljarða í forskot á aðra miðla frá skattgreiðendum, hafði að auki vel á þriðja milljarð króna í auglýsingatekjur í fyrra. Reikna má með að þær tekjur aukist verulega á þessu ári vegna þess hvernig Ríkisútvarpið hefur misnotað aðstöðu sína til að þvinga auglýsendur inn í risasamninga og þurrka þannig upp auglýsingamarkaðinn fyrir aðra miðla í sumar og fram á haust í sumum tilfellum.

Útvarpsstjóri sér ekkert athugavert við þessa hegðun fyrirtækis sem er í yfirburðastöðu á markaði með stuðningi ríkisvaldsins. Hann heldur því fram að engin lög hafi verið brotin. Sérkennilegt væri ef það reyndist rétt og segði þá sína sögu um lagaumhverfið. En þó má minna á að í landinu eru samkeppnislög, auk þess sem í lögum um Ríkisútvarpið er talað um að það skuli gæta „hófsemi í birtingu“ auglýsinga auk frekari ákvæða til að reyna að hemja þennan ríkisstyrkta risa á markaðnum. Vandséð er að þær aðferðir sem beitt hefur verið við sölu auglýsinga, sem væntanlega er forsenda birtingar þeirra, verði flokkaðar undir hófsemi.

Á meðan Ríkisútvarpið gengur fram með þessum hætti berjast frjálsir miðlar í bökkum og hafa að auki mátt þola skattahækkanir á liðnum árum, eins og Óli Björn Kárason alþingismaður benti á í ágætri grein hér í blaðinu í gær.

Þá keppa þeir við erlendar leitarvélar og samfélagsmiðla sem búa ekki við sama skattaumhverfi og íslenskir miðlar. Enginn veit hve stór hluti íslenska auglýsingamarkaðarins fer í gegnum þessa erlendu aðila en hann er augljóslega umtalsverður.

Ríkisútvarpið er eins og fíll í postulínsbúð hins viðkvæma íslenska fjölmiðlamarkaðar. Það skaðar aðra ljósvakamiðla verulega, einkum sjónvarp, en allir fjölmiðlar finna vitaskuld fyrir því þegar fíllinn ólmast.

Stjórnmálamenn hafa ekki þorað að styggja þennan risa af ótta við hefndaraðgerðir. Í ljósi reynslunnar er sá ótti skiljanlegur og þess vegna eru litlar líkur á að tekið verði á Ríkisútvarpinu eins og æskilegt væri. Og meðal annars þess vegna er hætta á ferðum fyrir aðra íslenska miðla og líkur á að þeir veikist verulega á næstunni.

Stjórnvöld geta þó gert annað leggi þau ekki í aðgerðir sem ekki eru þóknanlegar Efstaleitinu. Þau geta gert það sem rætt hefur verið lengi og það er að laga rekstrarumhverfi frjálsu fjölmiðlanna. Í því sambandi er til dæmis augljós og einföld aðgerð að fella niður virðisaukaskatt af áskriftum líkt og gert hefur verið víða um lönd. Það er nefnilega athyglisvert að erlendis, þrátt fyrir að málsvæðin séu mun stærri, hafa stjórnvöld gripið til margvíslegra aðgerða til að tryggja að í boði séu öflugir fjölmiðlar. Þetta er meðal annars gert til að vega á móti því tjóni sem frjálsir fjölmiðlar verða fyrir vegna ríkisfjölmiðla. Það er ekki eftir neinu að bíða að fylgja slíku fordæmi hér á landi.